Íslandsstofa bauð til fundar í morgun um viðskipti og fjárfestingar á tímum gjaldeyrishafta á Íslandi. Fundurinn fór fram á Hilton Reykjavík Nordica. Ólík sjónarmið komu fram og höfðu frummælendur ólíka sýn á framtíð gjaldeyrishaftanna. Sem dæmi telur Arion banki að gjaldeyrishöftin gætu varað mun lengur en talið sé nú, en Seðlabankinn telur að höftin verði afnumin fyrir árið 2015.
Fundarstjóri var Vilborg Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Mentors og stjórnarmaður í Íslandsstofu. Hún nefndi dæmi um áhrif gjaldeyrishaftanna á starfsemi Mentors og kynnti að því loknu ræðumenn sem fjölluðu um ýmsar hliðar haftanna.
Halldór Bjarkar Lúðvígsson, framkvæmdastjóri fyrirtækjalausna og -ráðgjafar Arion banka, dró upp dökka mynd af gjaldeyrishöftunum. Hann benti á að umfang aflandskróna sé ríflega tvöfalt það sem rætt er um í dag, sé tillit tekið til krónueigna og -krafna erlendra aðila í íslensku bönkunum. Hann sagði þetta benda til að höftin gætu varað mun lengur en rætt hafi verið um. Þá fór hann yfir neikvæð áhrif haftanna, sem hann sagði skemma fyrir fyrirtækjum, fæla erlenda aðila frá, draga úr fjárfestingu og stuðla að spillingu og undanskotum.
Agnar Hansson, forstöðumaður markaðsviðskipta hjá Arctica Finance, taldi að „óþolinmótt“ fjármagn væri ekki jafn óþreyjufullt og rætt sé um. Hann benti á, því til stuðnings, að eigendur þess fjármagns hefðu ekki einu sinni höfðað málssóknir til að freista þess að komast út úr höftunum. Magnús Garðarsson, forstjóri Íslenska kísilfélagsins, sagði frá erfiðleikum fyrirtækisins við að fá erlenda fjárfestingu til liðs við sig, og sagði að á eftir pólitískri óvissu væru gjaldeyrishöftin stærsta hindrun erlendrar fjárfestingar í dag.
Arnór Sighvatsson, aðstoðarseðlabankastjóri og Freyr Hermannsson, alþjóða- og markaðssviði Seðlabanka Íslands, fjölluðu um áætlun um afnám gjaldeyrishafta. Arnór nefndi að gjaldeyrishöftin hefðu verið forsenda AGS-aðstoðarinnar og að sjóðurinn hefði lagt áherslu á að halda höftunum hingað til. Hann fjallaði um skilyrði fyrir afnámi hafta og vó þar þyngst að lausafjárstaða bankanna þarf að þola afnám og gengissveiflur auk þess sem fjármögnun ríkissjóðs utan hafta þurfi að vera örugg.
Arnór sagði mikið hafa áunnist hingað til og að hann teldi að gjaldeyrishöftin yrðu afnumin fyrir árið 2015. Hann sagði að mikilvægt væri nú að auka viðskipti með aflandskrónur og stefnt væri að útgöngugjaldi í stað magntakmarkana sem stig í afnámi haftanna. Endanlegt afnám fælist síðan í stiglækkandi útgöngugjaldi þar til flæði fjármagns væri aftur frjálst.
Í pallborði var Seðlabankinn spurður um ástæðu þess að Seðlabankinn birtir ekki úrskurði um undanþágur frá gjaldeyrishöftum, til samræmis við aðrar opinbera aðila, til að gæta jafnræðis. Arnór sagði að ástæðan væri sú sú að hann megi það ekki skv. lögum.
Fundarstjóri sagði við lok fundar að glærur af fundinum yrðu aðgengilegar á vef Íslandsstofu, www.islandsstofa.is.