Í morgun stóð Samkeppniseftirlitið (SE) fyrir ráðstefnu undir yfirskriftinni „Samkeppnin eftir hrun“ þar sem kynnt var nýútkomin skýrsla undir sama heiti. Í umræddri skýrslu er m.a. farið yfir áhrif hrunsins á samkeppni hér á landi ásamt stöðu á fjárhagslegri endurskipulagningu fyrirtækja. Í skýrslunni er skýr samantekt á vanda atvinnulífsins þegar kemur að samkeppni en þar segir m.a.: „vandi atvinnulífsins felst í of hægu ferli fjárhagslegrar endurskipulagningar fyrirtækja, óánægju með framkvæmd hennar og skorti á trausti og gagnsæi. Þá er fjárhagsstaða margra fyrirtækja sem lokið hafa fjárhagslegri endurskipulagningu slæm“. Fjárhagsstaða tæplega helmings stærri fyrirtækja er mjög slæm að mati SE en að sama skapi er einungis um fimmtungur fyrirtækja í góðri stöðu.
Í skýrslunni er einnig farið yfir þá neikvæðu hvata sem eru til staðar í núverandi umhverfi og hvernig þeir vinna almennt gegn uppbyggingu atvinnu- og efnahagslífs. Ljóst má vera að þrátt fyrir að ákveðnum áföngum hafi verið náð í endurskipulagningu skulda atvinnulífsins þá hefur það ferli gengið of hægt. Skýrsla SE staðfestir í raun vísbendingar þess efnis sem birtust í nýlegri útgáfu Seðlabankans um Fjármálastöðugleika, þar sem kom fram að um 6.700 fyrirtæki ættu í alvarlegum skuldavanda. Það er því viðskiptalífinu sérstaklega mikilvægt að flýta þeirri skuldaaðlögun sem nú er í gangi til að koma efnahagslífinu aftur af stað.
Einnig kemur fram að stórt hlutfall fyrirtækja er nú í eigu banka, lífeyrissjóða og skilanefnda. Viðskiptaráð telur afar brýnt að eignarhald þessara fyrirtækja sé skýrt og fyrirtækjum komið sem allra fyrst í hendur framtíðareigenda.
Á ráðstefnunni kynntu þau Benedikt Árnason, hagfræðingur, Sonja Bjarnardóttir lögfræðingur og Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins skýrsluna og efni hennar. Þá fluttu einnig erindi þau Árni Páll Árnason efnahags- og viðskiptaráðherra, Birna Einarsdóttir bankastjóri Íslandsbanka og Hermann Guðmundsson forstjóri N1. Skýrsluna og nánari upplýsingar um fundinn má nálgast á vef Samkeppniseftirlitsins.
Tengt efni úr fjölmiðlum: