Föstudaginn næstkomandi (4. nóvember) fer fram árlegur peningamálafundur Viðskiptaráðs. Aðalræðumaður fundarins er Már Guðmundsson seðlabankastjóri sem mun fjalla um efnahagshorfur, en í framhaldi af erindi hans fara fram pallborðsumræður.
Nýtt mat Seðlabankans á þróun og horfum í efnahagsmálum liggur fyrir í dag, 2. nóvember, með útgáfu Peningamála bankans. Þar er meðal annars kynnt ný þjóðhags- og verðbólguspá og rökstuðningur færður fyrir vaxtaákvörðun bankans. Er þetta fyrsta spá bankans eftir að efnahagsáætlun Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins rann sitt skeið í lok ágúst.
Í pallborði verða þau Kristín Pétursdóttir forstjóri Auðar Capital, Páll Harðarson forstjóri Kauphallarinnar (NASDAQ OMX Nordic), Gísli Hauksson hagfræðingur hjá GAMMA og Þórarinn G. Pétursson aðalhagfræðingur Seðlabankans. Umsjón með pallborðsumræðum hefur Lúðvík Elíasson, hagfræðingur.