Í morgun var haldinn fundur á vegum Viðskiptaráðs Íslands og KPMG undir yfirskriftinni:
Hver er hinn íslenski stjórnarmaður? Á fundinum voru kynntar helstu niðurstöður könnunar sem KPMG framkvæmdi í sumar meðal íslenskra stjórnarmanna til að kanna bakgrunn þeirra og störf stjórna. Birt hefur verið skýrsla með niðurstöðum og má nálgast hana á
vef KPMG.
Í upphafi fundar fór Berglind Ósk Guðmundsdóttir, lögfræðingur hjá KPMG, yfir helstu niðurstöður. Meðal þess sem kom fram var að konur eru enn í miklum minnihluta þeirra sem sitja í stjórnum, en hlutafall þeirra fer þó hækkandi meðal yngri stjórnarmanna. Gefur þetta góða vísbendingu um að samsetning stjórna er að breytast með auknum fjölbreytileika.
Breytingar hafa orðið á samsetningu stjórna
Eftir kynningu Berglindar tóku við pallborðsumræður sem stýrt var af Finni Oddssyni, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs. Í pallborði sátu auk Berglindar, Liv Bergþórsdóttir, framkvæmdastjóri NOVA, og Þorkell Sigurlaugsson, framkvæmdastjóri fjármála- og þróunarsviðs Háskólans í Reykjavík. Í umræðum og niðurstöðum könnunarinnar kom skýrt fram að breytingar hafa orðið á samsetningu stjórna í átt að meiri fjölbreytileika auk vilja til breytinga. Kom Þorkell meðal annars inn á mikilvægi fjölbreytileika í stjórnum og þá ekki bara út frá kyni stjórnarmanna, einnig er mikilvægt að huga að fjölbreytileika í menntun, þekkingu og reynslu.
Liv kom inn á samanburð við Noreg þar sem raunverulegra breytinga varð ekki vart fyrr en eftir að löggjöf um kynjahlutfall í stjórnum tók gildi, en samkvæmt því virðist umhverfið hér móttækilegra fyrir breytingum og má hugsanlega rekja það að einhverju leyti til áhrifa efnahagshrunsins 2008 og þeirri áherslu sem lög hefur verið á enduruppbyggingu á trausti í garð atvinnulífsins. Í umræðum komu einnig fram vangaveltur um hlutfall þóknunar og vinnuálags stjórnarmanna, hvort starf stjórnarmanns sé vanmetið og hvort það endurspeglist í viðhorfi þeirra til vinnunnar. Þetta er sérstaklega mikilvægt umræðuefni í dag þar sem ábyrgð stjórna er orðin ljósari og kröfur til stjórnarmanna eru að sama skapi að aukast.
Finnur benti á að áhugi og vilji atvinnulífs til breytinga væri nú greinilegur. Mikilvægt væri að forsvarsmenn atvinnulífs ættu frumkvæði að innleiðingu faglegs stjórnarhátta og nytu til þess stuðnings og krafna hagsmunaaðila, t.a.m. fjárfesta, lánveitenda, viðskiptavina og starfsfólks.