Viðskiptaráð Íslands

Kolefnisskattur: Meira samráð og betri undirbúningur nauðsynlegur

Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum, en með því er ætlunin að innleiða fjölmargar skattahækkanir tengdar fjárlögum næsta árs. Meðal margra þeirra er hækkun kolefniskatts og breikkun á gjaldstofni skattins með þeim hætti að m.a. rafskaut og skyldar vörur falla þar undir. Þessi breyting hefur verið harðlega gagnrýnd síðustu daga þar sem hún vegur að núverandi atvinnurekstri og setur fjárfestingaráform í uppnám. Viðskiptaráð tekur undir þá gagnrýni.

Bent hefur verið á álagning kolefnisskatts muni stefna rekstrarforsendum m.a. kísil- og járnblendiiðnaðar hérlendis í tvísýnu. Gagnrýnin lýtur annars vegar að álagningu skattsins almennt, sem er ekki í samræmi við skattaumhverfi sambærilegra fyrirtækja í nágrannalöndum okkar. Þessi skattalega sérstaða Íslands (ein af mörgum) er staðfest í greinargerð frumvarpsins, en þar segir m.a. „Ljóst er að taka þarf álagningu kolefnisgjalds til frekari skoðunar á næsta ári með hliðsjón af þeim breytingum sem framundan eru á viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda, en þær eru meðal annars fólgnar í því að losun frá álverum og járnblendi mun að öllum líkindum verða háð losunarheimildum frá og með 1. janúar 2013. Óljóst er hvað muni taka við þegar fyrsta tímabili Kyoto-bókunarinnar lýkur. Það er meðal annars ástæða þess að breikkun gjaldstofnsins tekur einungis til eins árs í þessu frumvarpi, en hugmyndin er sú að skoða málið heildstætt á árinu 2012.“

Hins vegar hefur fjárhæð skattsins verið gagnrýnd. Við mat á því má hafa hliðsjón af því hvernig skatturinn mun koma til með að leggjast á tvö tiltekin fyrirtæki, Thorsil ehf. sem vinnur að uppbyggingu kísilmálmverksmiðju á Bakka og Elkem á Grundartanga. Hvað Thorsil varðar mun félagið greiða á árinu 2013 um 242 mkr. og ef hækkun skattsins gengur eftir á árunum 2014 og 2015 verður árleg skattgreiðsla félagsins ríflega 485 mkr. Í tilviki Elkem mun þessi skattur leiða til 430 mkr. greiðslu árið 2013 og um 860 mkr. árlega eftir árið 2015, sem er tvöfalt hærra en meðal hagnaður félagsins undanfarin 10 ár eða 85% af heildarlaunakostnaði þess. Arðsemi af starfsemi þessara tveggja fyrirtækja verður því óviðunandi nái tillögur í framvarpi fram að ganga og um leið er hagsmunum hundruða starfsmanna fyrirtækjanna og afleiddum störfum stefnt í hættu.

Neikvæð áhrif þessarar skattlagningar yrðu því með öllu óásættanleg, sérstaklega í ljósi þeirrar smávægilegu tekjuaukningar sem hækkun og breikkun skattsins er talin skila ríkissjóði. Fjármálaráðuneytið gerir ráð fyrir að tekjuöflun nemi 1,5 mö. kr. árið 2013. Til samanburðar eru árlegar útsvars-, tekjuskatts- og tryggingagjaldsgreiðslur Elkem um 540 mkr. Þá eru ótalin neikvæð skattaleg áhrif nýframkvæmda og verkefna fyrirtækja eins og Thorsil og Íslenska kísilfélagsins í Helguvík, auk áhrifa á rekstur Landsvirkjunar þegar arðsemisforsendur verkefna sem nú er samið um eru ekki lengur til staðar. Að lokum er vert að nefna að skatturinn er á skjön við gildandi fjárfestingasamninga í orkufrekum iðnaði og samkomulag fjármálaráðuneytisins og nokkurra stóriðjufyrirtækja um raforkuskatta og fyrirframgreiðslu tekjuskatts frá því í desember 2009.

Um leið og ljóst er að orkufrek starfsemi þarf þrífast í sátt við umhverfið og samfélag er afar mikilvægt að íslensk stjórnvöld vandi til verka og grípi ekki til álaga sem eru á skjön við eða umfram það sem tíðkast í nágrannalöndum okkar. Þannig dregur úr samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs og trúverðugleika stjórnvalda, sem hvoru tveggja eru forsendur þess að laða að erlenda fjárfestingu. Viðskiptaráð fagnar því skjótum viðbrögðum atvinnuveganefndar Alþingis og leggur ríka áherslu á að nefndin og Alþingi taki heildarhagsmuni hagkerfisins fram yfir takmarkaða tekjuöflun ríkissjóðs til skemmri tíma.

Tengdar fréttir:

Tengt efni

Björn og Andri í stjórn og háskólaráð HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024