Áhugi fjárfesta á nýskráningum mótast af gæðum upplýsinganna sem fyrir liggja, verðmati og árferði. Þetta kom fram í máli Auðar Finnbogadóttur framkvæmdastjóra Lífeyrissjóðs verkfræðinga á fyrsta fundi í morgunverðarfundarröð Deloitte, Kauphallarinnar og Viðskiptaráðs Íslands um mikilvægi virks verðbréfamarkaðar á Íslandi.
Á fundinum var farið yfir tilgang virks verðbréfamarkaðar og rætt m.a. um þau fyrirtæki sem skráð verða á hlutabréfamarkað á næstu misserum. Það var Knútur Þórhallsson, stjórnarformaður Deloitte, sem opnaði fundinn og minnti hann á mikilvægi virks verðbréfamarkað sem fjárfestingakost fyrir fyrirtæki jafnt og heimilin. Auk Auðar fluttu erindi þau Magnús Harðarson aðstoðarforstjóri NASDAQ OMX, Finnbogi Jónsson framkvæmdastjóri Framtakssjóðs Íslands, Árni Jón Árnason yfirmaður fjármálamarkaða hjá Deloitte og Höskuldur H. Ólafsson bankastjóri Arion banka. Fundarstjóri var Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs.
Auður fjallaði einnig um mikilvægi markaðarins fyrir fagfjárfesta og lagði ríka áherslu á að þeir þyrftu að geta treyst á virka verðbréfavakt, áreiðanleika upplýsinga og viðskiptahætti stjórnenda. Í erindi sínu sagði hún að seljanleiki væri mikilvægur áhættuþáttur sem lífeyrissjóðir þurfa að huga að við áhættustýringu. Smæð markaðar á Íslandi minnkar seljanleika og gerir stærstu fjárfestum erfiðara um vik að hreyfa sig. Verðmat skiptir einnig miklu máli, en við þær aðstæður sem ríkja í heiminum í dag þá þurfi verðlagning að vera varfærin ef markmiðið er að skráningin sé vel heppnuð og til þess fallin að vekja áhuga almennra fjárfesta í framhaldinu.
Höskuldur fór yfir væntanlega skráningu Haga á markað, sem áætluð er um miðjan desember mánuð. Skráninguna sagði hann gott fyrsta skref fyrir markaðinn. Um væri að ræða traust fyrirtæki í atvinnurekstri sem þurfti enga fjárhagslega endurskipulagningu og býr yfir fjölda vörumerkja sem eru vel kunn. Eins og áður hefur komið fram verður útboði beint að bæði fagfjárfestum og almennum fjárfestum, en um er að ræða 20-30% af útgefnu hlutafé Haga. Markmiðið með þessu sé m.a. að ná fram dreifðu eignarhaldi á félaginu. Höskuldur nefndi jafnframt að innlendir og erlendir aðilar hefðu sýnt Högum umtalsverðan áhuga og að bankinn hefði því getað selt félagið í heild sinni. Skráning á markað væri því ekki nauðsyn heldur valkostur sem bankinn taldi hagkvæmastan.
Á næstu tveimur fundum verður fjallað um forsendur verðbréfamarkaðarins og þau tækifæri sem þar felast, fyrri fundurinn fer fram í apríl á næsta ári og sá síðari í október. Tengt efni:
Glærur af fundinum má nálgast hér að neðan:
Umfjöllun af fundinum í fjölmiðlum: