Viðskiptaráð Íslands

Erlend fjárfesting skapar þekkingu, störf og verðmæti

Lítil stefnumótun hefur átt sér stað hér á landi um beina erlenda fjárfestingu í gegnum tíðina, og því mikilvægt að stjórnvöld marki slíka stefnu til frambúðar. Þetta segir Aðalsteinn Leifsson, lektor við viðskiptadeild HR, en hann var formaður starfshóps um stefnu stjórnvalda varðandi beina erlenda fjárfestingu á Íslandi. Hópurinn skilaði tillögum sínum nýverið, en um málið var fjallað á fjölsóttum morgunverðarfundi Viðskiptaráðs og Íslandsstofu í morgun.

Það var Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra, sem opnaði fundinn og í framhaldi hélt Carlos Bronzatto, framkvæmdastjóri World Association of Investment Promotion Agencies (WAIPA), erindi um þýðingu beinnar erlendrar fjárfestingar fyrir lítil og opin hagkerfi á borð við Ísland. Hann sagði m.a. að erfitt væri að byggja upp jákvæða ímynd fyrir erlenda fjárfesta, en enn auðveldara væri að tapa þeirri ímynd. Mikilvægt væri að huga að því að skattastefnu stjórnvalda og opinber stefnumótun almennt væri sambærileg því sem gengur og gerist í nágrannalöndum okkar.

Þörfin fyrir samstarf við erlenda aðila mikil
Í máli Aðalsteins kom ennfremur fram að almennt keppist ríki heims við að laða til sín beina erlenda fjárfestingu með markvissum hætti því slík fjárfesting bæti lífskjör. Eins og staðan er hér á landi er Ísland ekki áhugaverðasti kosturinn fyrir beina erlenda fjárfestingu, en í yfirferð starfshópsins kemur m.a. fram að inn í spili áhyggjur vegna ákvarðanatöku stjórnvalda, seinagangs og ófaglegra vinnubragða í stjórnsýslu. Þegar niðurstaða mála byggir um of á persónubundnu mati stjórnmála- eða embættismanna virðast það fæla fjárfesta frá landinu.

 

Eins og fram kemur í tillögum hópsins þá er þörfin mikil fyrir samstarf við erlenda aðila í smáum og tiltölulega einhæfum hagkerfum eins og því íslenska, sérstaklega í ljósi þess að fjárfestingar eru nú í algjöru lágmarki. Það á ekki einungis við vegna aðgangs að fjármunum heldur einnig til að auka fjölbreytni, bæta markaðsaðgang, ýta undir samkeppni og færa nýja þekkingu inn í atvinnulífið.

Ný þekking og verðmæti til lengri tíma
Starfshópurinn komst að þeirri niðurstöðu að hér ætti helst að sækjast eftir beinni erlendri fjárfestingu sem fæli í sér stofnun og uppbygging nýrra fyrirtækja frá grunni, stækkun á starfandi fyrirtækjum eða jafnvel samruna við erlend fyrirtæki. Þannig verði til aukin framleiðsla, ný þekking, ný aðstaða, ný störf og ný verðmæti til lengri tíma. Markmiðið með því að laða að erlenda fjárfestingu er því m.a. að auka fjölbreytni í undirstöðum atvinnulífsins og fá aukið fjármagn inn til landsins til langs tíma.

Fulltrúar tveggja fyrirtækja með reynslu af erlendri fjárfestingu tóku til máls og kynntu sín fyrirtæki, en það voru þau Stefanía Karlsdóttir, framkvæmdastjóri Matorku, og Gunnar Ármannsson, framkvæmdastjóri PrimaCare. Fundarstjóri var Kristín Pétursdóttir, forstjóri Auðar Capital.

Glærur af fundinum:

Tengt efni í fjölmiðlum:

Tengt efni

Björn og Andri í stjórn og háskólaráð HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024