Viðskiptaráð Íslands

Fundur um gjaldeyrishöft: Afnám á einu ári?

Í gærmorgun stóðu Viðskiptaráð Íslands og Samtök iðnaðarins fyrir vel sóttum morgunverðarfundi um gjaldeyrishöftin. Á fundinum var gefin út ný skýrsla Viðskiptaráðs um efnahagsleg áhrif haftanna, en í henni er m.a. lagt mat á kostnað atvinnulífs af umgengni við höftin. Einnig var kynnt tillaga vinnuhóps sérfræðinga úr röðum atvinnulífs og háskóla að nýrri áætlun um afnám gjaldeyrishaftanna, en Viðskiptaráð og Samtök Iðnaðarins styðja við kynningu á tillögum hópsins.

Til að gera grein fyrir niðurstöðum vinnuhópsins tóku til máls þeir Gylfi Magnússon dósent við viðskiptafræðideild HÍ, Páll Harðarson forstjóri Kauphallarinnar og Yngvi Örn Kristinsson hagfræðingur. Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri, gerði svo grein fyrir forsendum áætlunar Seðlabankans og tók svo þátt í umræðu að framsögu lokinni, ásamt Yngva Erni, Orra Haukssyni framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins og Birni Rúnari Guðmundssyni frá Efnahags- og viðskiptaráðuneytinu. Finnur Oddsson framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs stýrði fundinum og Tanya Zharov framkvæmdastjóri lögfræðisviðs Auðar Capital stýrði pallborðsumræðum.

Finnur Oddsson opnaði fundinn og kynnti skýrslu ráðsins. Finnur benti á vaxandi kostnað fyrirtækja við undanþágur og að fjöldi starfsmanna Seðlabankans, fjármálafyrirtækja og annarra sinntu nær eingöngu haftatengdum málum. Meginkostnaðurinn væri þó vegna glataðra tækifæra og fjárfestingar sem ekki hafi orðið vegna haftanna. Hann taldi einnig að höftin hlytu takmarkaða athygli og umræðu vegna þess að einstaklingar og fyrirtæki finna ekki fyrir áhrifum haftanna á eigin skinni. Til skamms tíma halda þau uppi fasteignaverði, auðvelda fjármögnun fjármálafyrirtækja og draga úr vaxtakostnaði ríkisins. Eftir því sem lengra líður yrði þó erfiðara að afnema höftin með þeirri áhættu og ábyrgð sem því fylgir.

Gylfi Magnússon kynnti tillögu sérfræðingahópsins. Í erindi hans kom fram að verulega óvissa væri um útgönguþrýsting núverandi krónueigenda, sérstaklega innlendra aðila. Gylfi nefndi að geta Seðlabankans til að taka á mögulegu útflæði væri takmörkuð því gjaldeyrisvaraforðinn er að mestu tekinn að láni. Þá væri ómögulegt að treysta á aðgang ríkisins að alþjóðlegum lánsfjármörkuðum um þessar mundir. Jákvæður undirliggjandi viðskiptajöfnuð skilaði þó innflæði gjaldeyris. Þá fór Gylfi yfir helstu skref tillögu vinnuhópsins, en þau eru eftirfarandi:

  • Almennar umbætur á framkvæmd peningastefnunnar: Lausafjárstýring fjármálakerfisins bætt og gjaldeyrisforði nýttur við jöfnun langtímasveiflna raungengis
  • Innleiðing varúðarreglna: Reglur um gjaldeyrisjöfnuð hertar, lausafjárkröfur settar í erlendum gjaldmiðlum, erlendar lántökur sveitarfélaga skilyrtar, auknar eiginfjárkröfur gerðar vegna gjaldeyrisáhættu fyrirtækja og heimila og tímabundnar hraðatakmarkanir á erlenda fjárfestingu lífeyrissjóða
  • Útgáfa ríkisskuldabréfs í erlendum gjaldmiðlum: Gjaldeyrir yrði greiddur með þessum bréfum, þau yrðu gefin út til 20 ára, uppgreiðanleg eftir 5-10 ár, gefin út á markaðsvöxtum og í helstu viðskiptamyntum, sett í viðskiptavakt á alþjóðlegum mörkuðum og andvirði þeirra notað til að greiða aðrar skuldir ríkisins
  • Tímabundnar bremsur á útflæði: Þak sett á upphæðir sem þrepað yrði upp og útgönguskattur lagður á sem yrði þrepaður niður

Páll Harðarson fjallaði um tvö tiltekin álitaefni við afnám haftanna, annars vegar hversu stór hluti krónueigenda væri óþreyjufullur um að færa fjármagn sitt úr landi við afnám og hversu vel fjárfestingarleið Seðlabankans væri til þess fallin að flýta afnámi haftanna. Páll taldi mikilvægt að meta áætlun um afnám út frá tveimur viðmiðum. Annars vegar hvort áætlunin væri nógu fljótvirk ef fáir krónueigendur eru óþreyjufullir og hins vegar hvort skýrir og markvissir varnaglar væru settir ef sá fjöldi er umtalsverður. Mikilvægast væri þó að skapa traust um að ferlið gengi smurt fyrir sig. Ef krónuegendum yrðu settir afarkostir, þ.e. að taka skuldabréf eða festast inni í 5 ár, taldi hann líklegt að flestir myndu þá hlaupa til og óþarfa útgönguþrýstingur gæti skapast.

Yngvi Örn Kristinsson fjallaði um mögulegan útgönguþrýsting, núverandi leiðir Seðlabankans og forgangsröðun. Hann taldi líklegt að mikill þrýstingur yrði á krónuna við afnám haftanna, sem gæti valdið endurteknum skuldavanda, eiginfjár- og lausafjárvanda, lækkun lánshæfismats og torveldað aðgang að erlendum mörkuðum. Því væri óráðlegt að afnema höft strax og í einu vetfangi. Greining á gjaldeyrisforðanum sýndi að óráðlegt væri að nota hann til að mæta útflæði fjármagns og hraðinn á innflæði gjaldeyristekna í gegnum viðskiptajöfnuðinn væri of hægur til að mæta útflæðinu í tíma. Yngvi sagði að hópurinn teldi ólíklegt að fjárfestingarleið Seðlabankans myndi leysa mikið af uppsöfnuðum þrýstingi. Hann taldi rétt að veita innlendum aðilum forgang við afnám hafta.

Arnór Sighvatsson sagði erfitt að útfæra seinni hluta afnámsáætlunar Seðlabankans nákvæmlega, enda gæti margt breyst í umhverfinu þegar að þeim hluta kæmi. Arnór sagði áætluninni ætlað að bæta úr skorti á trausti gagnvart innlendu efnahagslífi, gjaldeyri og greiðslugetu ríkissjóðs. Taldi Arnór suma fjárfesta skilja að hér væru góð fjárfestingartækifæri. Náttúruauðlindirnar væru óskaddaðar af hruninu og mannauðurinn að mestu leyti. Hann benti á að ávöxtunarkrafa á skuldabréf ríkissjóðs myndi hækka verulega við afnám hafta, sem kallaði á frekara aðhald í ríkisfjármálum. Arnór sagði að áhugi erlendra aðila á gjaldeyrisuppboðum og fjárfestingarleiðinni hefði aukist en þeim væri ætlað að losa kvikustu eignirnar. Seðlabankinn gerir ráð fyrir því að leggja á útgönguskatt þegar dregur úr þátttöku í þessum verkefnum. Ekki mætti þó reikna með miklum tekjum ríkissjóðs af því gjaldi því álag á gjaldeyrisforðann yrði þá meira og minni hvati fyrir stjórnvöld að afnema höftin. Arnór sagði gjaldeyrishöftin skaðleg en þau væru enn skaðlegri ef þeim væri ekki fylgt. Núverandi áætlun væri þó ekki meitluð í stein. Góðar hugmyndir væru vel þegnar en farsælast væri að fylgja áfram þegar markaðri stefnu.

Skýrslu Viðskiptaráðs og greinagerð hópsins má finna hér:

Glærur af fundinum í morgun:

Umfjöllun fjölmiðla:

Tengt efni

Björn og Andri í stjórn og háskólaráð HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024