9. mars 2012
Í gær fór fram fjölmennur morgunverðarfundur undir yfirskriftinni „Fjölbreytni í stjórnum og góðir stjórnarhættir skipta máli“ á Hilton Reykjavík Nordica. Að fundinum stóðu Viðskiptaráð Íslands, Samtök atvinnulífsins, Félag kvenna í atvinnurekstri, Samtök verslunar og þjónustu, efnahags- og viðskiptaráðuneytið og NASDAQ OMX Iceland.
Á fundinum fjallaði fjölbreyttur hópur ræðumanna úr atvinnulífi og nærumhverfi fyrirtækja um mikilvægi góðra stjórnarhátta og fjölbreytni í stjórnum. Þá var farið yfir hvernig hvernig væri hægt að láta þessa þætti skipta máli og hvaða tækifæri felast í fjölbreyttum stjórnum og góðum stjórnarháttum fyrir fyrirtækin sjálf.
Steingrímur J. Sigfússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, opnaði fundinn en auk hans tóku til máls þau Hrafnhildur S. Mooney sérfræðingur hjá Fjármálaeftirlitinu, Páll Harðarson forstjóri NASDAQ OMX Iceland, Berglind Ó. Guðmundsdóttir lögfræðingur hjá KPMG, Þorkell Sigurlaugsson stjórnarformaður Framtakssjóðs Íslands, Auður Hallgrímsdóttir stjórnarformaður Sameinaða lífeyrissjóðsins, Birna Einarsdóttir stjórnarformaður SFF, Björgólfur Jóhannsson forstjóri Icelandair Group og Elín Jónsdóttir stjórnarformaður Regins.
Ræðumenn komu inná fjölmarga þætti sem varða fjölbreyttar stjórnir og góða stjórnarhætti. Má þar m.a. nefna að:
-
Ráðherra sagði ánægjulegt hversu margir væru farnir að sýna því verkefni að auka hlut kvenna í stjórnum áhuga og að umræðan þar að lútandi væri á allt öðrum nótum nú en áður.
-
Hrafnhildur ræddi um úttektir FME á stjórnarháttum fjármálafyrirtækja og lagði áherslu á að hugur fylgdi máli þegar fyrirtæki hygðust fylgja góðum stjórnarháttum.
-
Páll benti á að þau fyrirtæki innan Kauphallarinnar sem hafi tileinkað sér góða stjórnarhætti fyrir hrun hafi komið betur undan því og að frekari aðkoma kvenna að stjórnum væri mikilvæg til að brjóta upp einsleitni í stjórnum kauphallarfyrirtækja.
-
Berglind fjallaði annars vegar um nýleg könnun KPMG á meðal stjórnarmanna og hins vegar formlega úttekt á stjórnarháttum fyrirtækja, en KPMG annaðist úttekt á fyrirtækinu Stefni sem var fyrst fyrirtækja til að klára ferlið.
-
Þorkell ræddi hvað Framtakssjóðurinn gæti gert til að bæta stjórnarhætti og nefndi þar m.a. að sjóðurinn sjálfur gæti sett gott fordæmi með því að beita sér fyrir því að félög í eigu hans myndu fylgja leiðbeiningunum á því sviði og að sjóðurinn gæti gert slíkar kröfur í áreiðanleikakönnunum þegar ný fjárfestingartækifæri væru skoðuð.
-
Auður fjallaði um hlutverk lífeyrissjóðana í að bæta stjórnarhætti og fjölbreytni í stjórnum m.a. út frá nýlegri skýrslu um starfsemi lífeyrissjóðanna fyrir hrun. Að hennar áliti gætu sjóðirnir gert mun betur á þessu sviði og vísaði m.a. til þess að ávöxtun lífeyris væri meginmarkmið sjóðanna en að forsendur þeirrar ávöxtunar hlytu að skipta máli.
-
Birna sagði talsverða vinnu hafa átt sér stað innan SFF á þessu sviði og að það væri hluti af áhættumati fjármálafyrirtækja hvernig stjórnendateymi þeirra störfuðu. Aðspurð hvort fyrirtæki sem fylgja góðum stjórnarháttum og eru með jöfn kynjahlutföll í stjórn ættu að fá betri lánakjör sagði Birna að svo ætti að vera ef þessir þættir leiddu til þess að áhætta tengd lánveitingunni yrði minni.
-
Elín benti á að aðferðir við að auka fjölbreytni í stjórnum fyrirtækja væru margvíslegar og nefndi þar m.a. að Bankasýslan hafi bæði auglýst eftir stjórnarmönnum og opnað fyrir skráningar á vefsvæði sínu. Þetta skilaði sér í tæplega 200 manna lista yfir einstaklinga sem höfðu áhuga á stjórnarsetu f.h. Bankasýslunnar.
-
Björgólfur ræddi áherslur Icelandair í þessum málum og sagði augljóst að góðir stjórnarhættir væru til hagsbóta fyrir alla hagsmunaaðila félagsins. Til að ýta frekar undir bætt vinnubrögð þyrfti hvata og nefndi Björgólfur þar m.a. kröfur lánveitenda og fagfjárfesta í þá veru.
Á fundinum voru jafnframt gefnar út nýjar leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja en að þeim standa Viðskiptaráð Íslands, Samtök atvinnulífsins og NASDAQ OMX Iceland. Þá var gefinn út listi með 200 konum sem gefa kost á sér í stjórn auk þess sem tilkynnt var um fyrsta fyrirtækið sem lokið hefur formlegri úttekt á stjórnarháttum sem ofangreindir aðilar standa fyrir auk Rannsóknarmiðstöðvar um stjórnarhætti við HÍ.
Tengt efni:
Umfjöllun um fundinn: