Viðskiptaráð Íslands

Hvers virði er flugrekstur og ferðaþjónusta?

2011.05.12 vþ skýrsla forsíðaÞessi grein birtist í skýrslu Viðskiptaráðs Íslands til árlegs Viðskiptaþings. Skýrslan í ár ber heitið Hvers virði er atvinnulíf?, en pdf útgáfu hennar má nálgast hér.


2011.05.16 Gunnar ÁrmannssonMikilvægi flugrekstrar og ferðaþjónustu fyrir íslenskt þjóðarbú hefur aukist mikið á síðustu árum. Frá aldamótum hefur okkur tekist að tvöfalda fjölda ferðamanna sem sækja Ísland heim og gert er ráð fyrir að þeir verði um 650 þúsund árið 2012. Það jafngildir um 1.800 ferðamönnum á dag, alla daga ársins - árið um kring.

Að sama skapi er umfang flugrekstrar mikið og á þessu ári eru um 18.000 brottfarir í millilandaflugi frá Íslandi með um 2,3 milljónir farþega til sextíu flugvalla í 20 löndum. Saman mynda flugrekstur og ferðaþjónusta því órofa heild sem er orðin þriðja og mest vaxandi stoðin í íslensku hagkerfi. Til að mynda starfa 2.600 manns hjá Icelandair Group og á árinu 2011 greiddi félagið og starfsmenn þess samtals um 7 milljarða króna í tekjuskatt einstaklinga og tryggingagjald.

Ísland allt árið
Ferðamenn eru nánast ótakmörkuð auðlind - mengi þeirra er svo margfalt stærra en Ísland ræður við að við verðum að læra að velja, hafna og dreifa aðsókn betur yfir allt árið. Ísland er að mestu uppselt yfir háannatíma og þótt innviðir ferðaþjónustunnar muni vaxa áfram á næstu árum er nauðsynlegt að auka aðsókn ferðamanna utan háannatíma til að ná fram auknu hagræði og bættri framleiðni í greininni. Við þurfum að laða til okkar þá ferðamenn sem gefa okkur mestu tekjurnar - og við þurfum að ná þeim inn jafnt og þétt yfir allt árið.

Rökin fyrir þessu eru einföld og það liggur fyrir að aukin hagkvæmni næst aðeins fram með bættri framleiðni sem ræðst af fjórum þáttum:

  1. Bætt framleiðni vinnuafls

  • Ný störf sem gefa fólki tækifæri til að afla hærri tekna en ella.

  2. Bætt framleiðni einkafjármagns

  • Aukin nýtni fastafjármuna fyrirtækja sem tengjast ferðaþjónustu með beinum eða óbeinum hætti.

  3. Bætt framleiðni opinbers fjármagns og innviða

  • Samgöngumannvirki og ýmis konar opinber þjónusta.

  4. Sterkari grundvöllur fyrir sérhæfingu og fjölbreytni

  • Sérhæfing eða nýbreytni af einhverjum toga krefst ákveðins lágmarksfjölda af viðskiptavinum til að fastur kostnaður dreifist á nægilega margar einingar.

Takist að dempa þessar árstíðarbundnu sveiflur í flug- og ferðaþjónustu mun arðsemi aukast verulega samfara bættri nýtingu framleiðsluþátta. Einn liður í þessu ferli er að opna nýja markaði og halda áfram öflugri markaðssetningu á Íslandi með nýjum flugleiðum til og frá landinu. En hvers virði er ný flugleið fyrir íslenskt hagkerfi?

Ný flugleið skilar 2-3 mö. inn í íslenskt hagkerfi
Til að einfalda framsetningu er hægt að skoða hvers virði ný flugleið er fyrir íslenskt þjóðarbú. Icelandair Group fékk nýverið Hagfræðistofnun Háskóla Íslands til að reikna út hver áhrif tveggja nýrra flugleiða til Bandaríkjanna eru fyrir íslenskt hagkerfi.

Hér er ekki um neinar smá fjárhæðir að tefla. Miðað við forsendur Icelandair um fjölda seldra flugmiða til Íslands frá Denver og Seattle yfir 12 mánaða tímabil, reiknar Hagfræðistofnun Háskólans út að heildartekjur íslensks þjóðarbús nemi ríflega 5,6 milljörðum króna á ári af þessum tveimur flugleiðum. Hér er miðað við þá forsendu að hver og einn erlendur ferðamaður eyði að jafnaði ríflega 300.000 krónum á Íslandi - og tekjurnar af þeim eru hrein viðbót inn í íslenskt hagkerfi.

Þá eru bara taldir þeir flugfarþegar sem fljúga til Íslands og dvelja hér um nokkurra daga skeið en ekki er tekið tillit til þeirra sem fljúga áfram yfir hafið til Evrópu. Eðli máls samkvæmt er það neysla þessara ferðamanna – kaup þeirra á vöru og þjónustu á Íslandi - sem er langstærsti hlutinn af þessari fjárhæð.

Útgjöld eins eru tekjur annars
Það liggur í augum uppi að tekjur af erlendum ferðamönnum hafa margföldunaráhrif í íslensku hagkerfi, þar sem útgjöld eins eru tekjur annars. Skrefin í þessu ferli eru ekki flókin: Ferðamaður kaupir sér far með rútu, bílstjórinn kaupir bensín, bensínafgreiðslumaðurinn fer til rakarans - og svona heldur keðjan áfram. Að mati Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands má með einföldum framleiðslumargfaldara ætla að afleiddar tekjur þjóðarbúsins af flugleiðum til Seattle og Denver nemi um 12 milljörðum króna á ári og ríflega 20 milljörðum á ári í afleiddar tekjur ef miðað er við víðari framleiðslumargfaldara.

Auka þarf nýtingu utan háannatíma
Stærsta hagsmunamál í flugrekstri og ferðaþjónustu er að auka nýtingu utan háannatíma. Það er besta leiðin til að ná fram betri nýtingu fjármagns og aukinni framleiðni. Takist það náum við að skapa enn sterkari grundvöll fyrir sérhæfingu og fjölbreytni, sem skapar okkur samkeppnisforskot til framtíðar. Nýjar flugleiðir eru ein af mörgum forsendum þess að vel takist til í þessum efnum. Hins vegar er meira um vert að greininni – og öllu atvinnulífi - sé skapaður einfaldur rammi af hinu opinbera sem gefur fyrirtækjum rými til að athafna sig og blása til nýrrar sóknar í íslensku atvinnulífi.

Björgólfur Jóhannsson, Icelandair Group hf.

Tengt efni

Björn Brynjúlfur í stjórn HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024