Viðskiptaráð Íslands

Hvers virði eru góðir stjórnarhættir?

2011.05.12 vþ skýrsla forsíðaÞessi grein birtist í skýrslu Viðskiptaráðs Íslands til árlegs Viðskiptaþings. Skýrslan í ár ber heitið Hvers virði er atvinnulíf?, en pdf útgáfu hennar má nálgast hér.


Það er ekki langt síðan íslenskt viðskiptalíf fór að gefa góðum stjórnarháttum gaum, enda var orðið stjórnarhættir svo til óþekkt fyrir um 10 árum síðan. Stjórnarhættir fjalla um hlutverk, störf og verksvið stjórna fyrirtækja. Það að stunda góða stjórnarhætti þýðir einfaldlega að vel sé hugað að því hvernig stjórnir fyrirtækja geti hjálpað þeim að ná árangri og að þær tryggi að stjórnendur axli þá ábyrgð sem á þá er lögð.

Til eru ágætis leiðbeiningar og viðmið um hvað teljist til góðra stjórnarhátta og eru þeim m.a. gerð góð skil í Leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja, gefnum út af Viðskiptaráði Íslands, Nasdaq OMX Iceland hf. og Samtökum atvinnulífsins. Því fer þó fjarri að það að stunda góða stjórnarhætti snúist um að uppfylla ákveðin skilyrði eða viðmið. Góðir stjórnarhættir snúast öðru fremur um að tryggja að þeir sem stjórnina skipa séu hæfir til starfans, geri sér grein fyrir til hvers af þeim er ætlast og hvar ábyrgð þeirra liggur. Því næst þarf að tryggja að verklag sé með þeim hætti að stjórnin geti fullvissað sig um að stjórnendur sinni hlutverki sínu eins og best verði á kosið. Þannig þarf að tryggja að verðmætasköpun eigi sér stað, hugað sé að langtímauppbyggingu og að ekki sé tekin óhófleg áhætta sem gæti stefnt fyrirtækinu sjálfu eða hagsmunum annarra, s.s. starfsmanna, lánadrottna eða skattgreiðenda, í voða.

Aðgerðarleysi og óvönduð vinnubrögð stjórna eru dæmi um óskilvirka stjórnarhættir sem geta, eins og fjölmörg dæmi sýna, haft alvarlegar afleiðingar. Ávinningur góðra stjórnarhátta snýst því ekki einungis um ávinning fyrirtækja. Hagsmunir samfélagsins geta einnig verið talsverðir.

Að vanda til samsetningar og verklags stjórna fyrirtækja getur reynst mikils virði. Ef stjórnir og stjórnarmenn rækja hlutverk sitt af kostgæfni má bæta gæði ákvarðanatöku innan fyrirtækja sem aftur skilar þeim betri árangri. Ávinningur góðra stjórnarhátta eru árangursríkari fyrirtæki og öflugra, trúverðugara og ekki síst ábyrgara viðskiptalíf.

Þóranna Jónsdóttir, Háskólinn í Reykjavík

Tengt efni

Björn og Andri í stjórn og háskólaráð HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024