Viðskiptaráð Íslands

Hvers virði eru nýjar greinar?

2011.05.12 vþ skýrsla forsíðaÞessi grein birtist í skýrslu Viðskiptaráðs Íslands til árlegs Viðskiptaþings. Skýrslan í ár ber heitið Hvers virði er atvinnulíf?, en pdf útgáfu hennar má nálgast hér.


Stærsta áskorun íslensks atvinnulífs á næstu árum er að skapa ný störf sem eru krefjandi fyrir háskólamenntað og sérhæft starfsfólk og geta um leið staðið undir launum eins og þau gerast best í heiminum. Hagstofan metur að 15.000 störf hafi tapast í hruninu. Að auki þarf 15.000 ný störf á vinnumarkaðinn á næstu tíu árum. Meira en helmingur þeirra einstaklinga sem eftir störfunum sækist verður með háskólamenntun og enn fleiri með aðra umtalsverða sérhæfingu. Stór hluti þessa hóps er yngri en 35 ára og býðst bestu laun og lífskjör hvar sem er í heiminum. Það er okkar að tryggja að þetta fólk kjósi að búa á Íslandi svo að við fáum notið krafta þess og hugvits.

Auka þarf fjölbreytni
Fyrir liggur að hefðbundnar atvinnugreinar muni ekki geta tekið við þessu fólki og enn síður boðið ungu hámenntuðu fólki tækifæri sem nýta menntun þess og sérhæfingu. Í dag flytur fólk úr landi í hverri viku, einkum ungt fólk, háskóla- eða fagmenntað. Rekstur gagnavera, þekkingarmiðaður iðnaður og græn tækni eru dæmi um nýjar greinar sem við Íslendingar höfum getu til að koma á fót og eru líklegar til skapa þau störf sem þarf til að snúa fólksstraumnum við.

Gagnaver sem stökkpallur
Gagnaver er að grunni til umhverfisvænn orkunotandi með verðþol langt umfram núverandi stórkaupendur. Á tvöföldu meðalverði Landsvirkjunar er verð til gagnavera um helmingur af því sem þeim býðst í Evrópu. En afleiddur ávinningur af slíkum rekstri er enn meiri. Í fyrstu lotu munu orkufyrirtæki, verkfræðistofur, verktakar, iðnaðarmenn og tölvuþjónustuaðilar njóta hans. Gagnaver og fjarskiptatengingar sem t.d. tölvuþjónustuaðilar þurfa eru grunninnviðir til að markaðssetja og selja vef- og netþjónustu frá Íslandi sem útflutningsvöru.

Þrátt fyrir mikið niðurhal skemmtiefnis til Íslands, eru netþjónusta og vefviðskipti varla mælanleg sem hluti af þjóðarframleiðslu. Ísland hentar enn betur fyrir vinnsluver, þ.e. útreikninga flókinna líkana t.d. fyrir jarðlög, olíuleit, orkulindir, veðurspár og loftslagsbreytingar. Með „skýið“ sem verðandi form netþjónustu, er einstakt tækifæri fyrir Ísland að byggja upp iðnað sem getur leikið mikilvægt hlutverk um langa hríð fyrir stærstu og ábatasömustu fyrirtæki heims (s.s. Apple, Google og Shell).

Framleiðsla inn í ferla beggja vegna Atlantsála
Sjálfvirknivædd hátækniframleiðsla er önnur ný grein sem byggir á þekkingu og menntun, en getur um leið nýtt græna orku og staðsetningu Íslands til að fá langvarandi samkeppnisforskot. Framleiðsla sérvara og íhluta í frekar litlu upplagi, þar sem hlutfall hönnunar og sérhæfðrar þekkingar er hátt, hentar vel fyrir Ísland. Enn frekar getum við nýtt okkur stuttar aðdráttarleiðir inn í framleiðsluferla í Evrópu og Bandaríkjunum. Dæmi um slíka framleiðslu eru sérhæfð móðurborð (lyftur, vogir, o.fl.), íhlutir úr glertrefjum og jafnvel hátækni málmvinnsla íhluta.

Græn orka grunnstoð virðisaukandi framleiðslu
Á sama hátt eru umtalsverð tækifæri fyrir Ísland í umhverfisvænum efnaiðnaði, og þegar eru nokkrir áhugaverðir sprotar á þessu sviði. Þessi tækifæri felast að hluta í endurvinnslu úrgangs, hvort sem það er CO2, H2S, fiskúrgangur, dýrafita eða skolp. Þau felast einnig í að nýta ódýra græna orku í raflýsingu til ljóstillífunar, að framleiða umhverfisvænt eldsneyti, að breyta raforku í geymsluhæft form eða í framleiðslu á annars konar virkum efnum, t.d. í snyrtivörur, bætiefni og síðar lyf. Þessi ólíku tækifæri nýta græna orku sem grunnstoð framleiðslu á vöru sem byggir á umtalsverðri þekkingu og tækniþróun, sem hvort tveggja veitir langtíma samkeppnisforskot.

Verulegt verðmæti nýrra greina
Stærsta auðlind íslensks atvinnulífs eru verðmætin sem felast í þekkingu, reynslu og hugviti starfsmanna framsækinna fyrirtækja. Til að setja þetta í samhengi þá var miðgildi heildarlauna á Íslandi árið 2010 rétt undir 400 þúsund krónum. 30.000 störf á slíkum launum samsvara 144 milljörðum á ári. Ef 10.000 flytja burt, lækkar talan í 96 milljarða. Til samanburðar er velta Landsvirkjunar um 40 milljarðar á ári. Takist okkur með nýjum greinum að skapa störf sem krefjast þekkingar og hugvits má gera ráð fyrir launadreifingu í samræmi við menntun. Þá má áætla að verðmæti 30.000 starfa sé um 275 milljarðar á ári. Mismunurinn, sem mælikvarði á verðmæti nýrra greina, er þá á bilinu 130 til 175 milljarðar á ári. Þá er ótalið ávinningur af hærra raforkuverði og annar ávinningur atvinnulífsins.

Gísli Hjálmtýsson, Thule Investments

Tengt efni

Björn og Andri í stjórn og háskólaráð HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024