Viðskiptaráð Íslands

Samkeppnishæfni batnar milli ára

Ísland hækkar um fimm sæti milli ára í nýrri könnun IMD viðskiptaháskólans í Sviss um samkeppnishæfni þjóða og færist úr 31. í 26. sæti af þeim 59 löndum sem könnunin tekur til. Þrátt fyrir bætta stöðu frá fyrra ári, þegar Ísland náði sínu lægsta sæti frá upphafi mælinga, þá er samkeppnishæfni hagkerfisins lakari í ár en árin fyrir síðustu aldamót.



Þau lönd sem skipa efstu sætin þetta árið eru Hong Kong, Bandaríkin, Sviss, Singapúr og Svíþjóð en Venesúela, Grikkland, Króatía, Úkraína og Argentína reka lestina. Önnur lönd á svipuðu reiki og Ísland eru Japan, Síle, Frakkland, Tæland og Eistland.

Eftirbátur Norðurlandanna
Sé samkeppnishæfni Íslands borin saman við aðrar Norðurlandaþjóðir má sjá að þær standa allar okkur framar, en Svíþjóð er í 4. sæti, Noregur í 8. sæti, Danmörk í 13. sæti og Finnland í 17. sæti. Ísland sker sig úr þeim hópi í þremur af þeim fjórum sviðum sem skoðuð eru, þ.e. efnahagsleg frammistaða, skilvirkni hins opinbera og skilvirkni atvinnulífs en raðar sér efst meðal þjóða hvað varðar samfélagslega innviði.


Athugið að öll röðun landa er á skala þar sem 1 táknar efsta sæti og 59 táknar neðsta sæti.

Það er vel að merkja að þrátt fyrir að efnahagsleg frammistaða annarra Norðurlanda hafi ekki verið meðal þeirra efstu í könnuninni, rétt eins og á Íslandi, þá munar mestu um hversu mikil skilvirkni bæði hins opinbera og atvinnulífsins er þar samanborið við hér. Má þar t.a.m. nefna að Finnland er í 40. sæti yfir efnahagslega frammistöðu, litlu ofar Íslandi, en er engu að síður í 17. sæti í könnuninni.

Skýrir veikleikar Íslands
Samanburður á stöðu Íslands við Norðurlöndin og önnur lönd þar sem lífskjör teljast góð sýnir jafnframt veikleika hagkerfisins. Þeir liggja einkum í óskilvirkni opinberrar þjónustu og annmörkum í gangverki atvinnulífs sem svo aftur draga niður efnahagslega frammistöðu hagkerfisins í heild.


Athugið að öll röðun landa er á skala þar sem 1 táknar efsta sæti og 59 táknar neðsta sæti.

Þeir þættir sem þar draga Ísland helst niður eru: innlendur efnahagur, alþjóðaviðskipti, atvinnustig, fjármál hins opinbera, umgjörð stofnanna, viðskiptalöggjöf, vinnumarkaður, fjármögnun og vísindalegir innviðir. Það sem skýrir einkum bætta stöðu milli ára eru hækkanir þátta á borð við: alþjóðlega fjárfestingu, verðlag, fjármálastefnu stjórnvalda og framleiðni og skilvirkni. Þá eru það samfélagslegir innviðir sem eru, líkt og í fyrra, haldreipi Íslands í könnuninni og halda samkeppnishæfninni meðal 30 efstu þjóðanna.

Sé staðan nú borin saman við t.a.m. árið 2004 sést enn frekar hversu langt aftur samkeppnishæfni Íslands hefur fallið á fjölmörgum sviðum. Það árið var Ísland í 4. sæti af þeim tæplega 60 löndum sem tóku þátt.

 
Athugið að öll röðun landa er á skala þar sem 1 táknar efsta sæti og 59 táknar neðsta sæti.

„Bætt samkeppnishæfni milli ára telst vissulega til jákvæðra tíðinda. Það veldur þó verulegum vonbrigðum hversu hægt hefur gengið að færa til betri vegar þá þætti sem draga Ísland niður á lista IMD. Fyrir vikið má ætla að lífskjarabatinn verði hægari hér en í þeim löndum sem raða sér efst á listann. Ísland á heima í þeim hópi þjóða eins og reynslan sýnir. Grunninnviðirnir eru til staðar en töluvert vantar þó uppá fjölmarga þætti á borð við skilvirka nýtingu opinberra fjármuna og rekstrarumhverfi fyrirtækja. Það hlýtur að vera kappsmál að bæta þar úr til að auka verðmætasköpun í hagkerfinu. Það er von okkar að úttekt ráðgjafafyrirtækisins McKinsey, sem væntanleg er með haustinu, muni veita ákveðna leiðsögn í þeim efnum.“
- Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs

Upplýsingasíða Viðskiptaráðs um IMD
Viðskiptaráð Ísland er samstarfsaðili IMD á Íslandi. Verkefni Viðskiptaráðs tengist gagnaöflun og framkvæmd viðhorfskönnunar meðal stjórnenda í íslensku atvinnulífi. Á eftirfarandi vefsvæði, www.vi.is/imd sem tileinkað er niðurstöðum könnunarinnar má finna m.a.:

Nánari upplýsingar veitir Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri og Viðar Ingason, hagfræðingur Viðskiptaráðs, í síma 510-7100. Fjölmiðlahorn Viðskiptaráðs má finna hér.

Könnun IMD er byggð á yfir 300 hagvísum auk viðhorfskönnunar meðal stjórnenda í atvinnulífinu. Haggögnin vega 2/3 á móti 1/3 sem byggir á viðhorfskönnuninni. Alls eru 59 hagkerfi metin í könnuninni í ár og eru þau öll vestræn eða önnur þróuð hagkerfi.

Tengt efni

Björn og Andri í stjórn og háskólaráð HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024