Á Peningamálafundi Viðskiptaráðs sem haldinn var á Hilton Reykjavík Nordica í morgun spunnust líflegar umræður um gjaldmiðilsmál, peningamál og skuldastöðu fyrirtækja og hins opinbera. Spurningar um virkni peningastefnunnar og hvort viðskipti við útlönd nægðu til að standa undir vaxtagreiðslum erlendra lána voru meðal þess sem rætt var um í pallborði á fundinum. Umræðum stjórnaði Ásgeir Jónsson, lektor við Hagfræðideild Háskóla Íslands - glærur hans má nálgast hér. Í pallborði sátu:
Einungis tveir valmöguleikar í gengismálum?
Ásgeir hóf umræður á því að spyrja hvort verðbólgumarkmið Seðlabankans væri í raun einnig gengismarkmið og bar saman verðbólgu á Íslandi og EES-svæðinu á 16 ára tímabili því til stuðnings, hvar áhrif gengissveiflna á verðbólgu koma skýrt fram. Ásgeir talaði einnig um að líklegast hefði Ísland einungis tvo möguleika í gengismálum. Það væru sjálfstæð peningastefna og fastgengisstefna eða fastgengisstefna og frjálsir fjármagnsflutningar. Þar vísaði hann til hinnar ógerlegu þrenningar (e. impossible trinity), sem lýsir þremur meginvalkostum sem þjóðir hafa í peningamálum.
Skuldsetning íslenskra fyrirtækja mikil
Í fyrirspurnum kom m.a. fram að skuldsetning íslenskra fyrirtækja væri það mikil, mæld á móti EBIDTA, að peningastefnan hefði öfug áhrif á verðlagsþróun. Hækkun stýrivaxta hækkaði kostnað fyrirtækja af skuldum sínum, sem leiddi til verðlagshækkunar, en ekki lækkunar. Hérlendis væru skuldir fyrirtækja mun hærri en í öðrum löndum, sem orsaki þennan vanda. Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, svaraði því að vissulega fyrirfinnst það sem kallað er „price puzzle“, þ.e. að verðlag hækki við hækkun vaxta í stað þess að lækka. Það var þó mat Þórarins að hætta á slíkum áhrifum sé ekki jafn mikil og atvinnulífið telur.
Á að hækka verðbólumarkmiðið?
Þá var spurt á fundinum hvort 2,5% verðbólgumarkmið væri of lágt fyrir íslenskt launa- og stofnanaumhverfi. Ásdís Kristjánsdóttir nefndi að í aðeins 16% skipta hefur verðbólga verið innan verðbólgumarkmiðs Seðlabankans. Ásgeir benti í þessu samhengi á launaþróun hér á landi og nefndi að síðustu kjarasamningar hefðu hækkað laun á Íslandi um jafn mikið á einu ári og laun í Þýskalandi hafa hækkað síðastliðin tíu ár. Þórarinn taldi hins vegar að þótt 2,5% markmiðið gæti talist ótrúverðugt í ljósi sögunnar þá myndi það grafa enn frekar úr trúverðugleika peningastefnunnar ef markmiðið yrði hækkað.
Höftin auka líkur á fjármálabólum
Pallborðsgestir voru sammála um að ekki væri að sjá að fjármálabóla væri að myndast vegna haftanna. Sigurður Hannesson nefndi þó að um 200 ma.kr. séu í þrotabúum gömlu bankanna sem munu að öðru óbreyttu skila sér inn í hagkerfið. Því væri ákveðin hætta á að eignabóla gæti myndast en ekki væru þó merki um það enn. Raddir hafi hins vegar verið uppi um bólumyndun á líflegum skuldabréfamarkaði sem orsakast gæti af fáum fjárfestingarkostum á íslenskum hlutabréfamarkaði. Fram kom í máli Ásdísar að þó ekki sé að sjá bólumyndun á fasteignamarkaði er sú hætta að bólumyndun á tilteknum mörkuðum smitist yfir á aðra. Þá benti Þórarinn á að verði höftin áfram aukist líkurnar á eignaverðsbólum. Það væri varasamt, sérstaklega ef bólurnar væru byggðar á skuldsettri fjármögnun og neyslu.
Tengt efni: