Katrín Júlíusdóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, setti árlegan Skattadag Deloitte, Viðskiptaráðs og SA í morgun. „Við hefðum þurft að eiga uppbyggilegt samtal um breytingar á skattkerfinu“ var meðal þess sem hún kom inn á í erindi sínu og vísaði þar til breytinga síðustu ára. Þá tilkynnti hún að á næstunni yrði skipuð nefnd sem muni fara yfir nýlegar skattabreytingar og skattkerfið í heild sinni. Hún telur að nú sé kominn tími á að horfa til endurskoðunar á skattkerfinu til að gera það samkeppnishæfara, en slíkar breytingar þurfi þó að gera af ábyrgð.
Núverandi veiðigjald hátt
Daði Már Kristófersson fjallaði um hagkvæma auðlindagjaldtöku og kom inn á áhrif ólíkrar gjaldtöku. Þar nefndi hann skatta sem ekki draga úr velferð, líkt og umhverfisskatta og ákveðnar tegundir auðlindagjalda. Hann tók sem dæmi að framboð ákveðinna náttúruauðlinda er takmarkað frá náttúrunnar hendi og því ekki hægt að auka framboð þrátt fyrir að verð sé hærra en framleiðslukostnaður. Hann nefnir að við slík skilyrði skapist það sem kalla má auðlindarenta, þ.e. hagnaður sem er umfram eðlilegan hagnað. Skattlagning slíkrar auðlindarentu ætti ekki að leiða til allrataps fyrir samfélagið.
Svokallað vinnslugjalda, sem lagt er á auðlindanýtingu, og tekjutengd gjöld, lögð á veltu, eru aftur á móti erfið í framkvæmd ef auðlindirnar eru misleitar. Í báðum tilfellum leiði gjaldtakan til allrataps fyrir samfélagið í heild. Þriðji kosturinn sem Daði nefndi eru rentugjöld, þ.e. gjald sem innheimt er af umframhagnaði. Slík álagning er flókin en veldur fræðilega séð ekki allratapi. Þannig leggst til að mynda ekkert gjald þar sem engin umframhagnaður er. Þá kom ennfremur fram að hann telji að núverandi veiðigjald sé hreint vinnslugjald sem leggist á mjög misleita auðlind og það sé jafnframt fremur hátt.
Viðbótarauðlegðarskattur ólögmætur?
Garðar Valdimarsson, hrl á skatta- og lögfræðisviði Deloitte, rakti efnisatriði nýlegs Hæstaréttardóms þar Hæstiréttur taldi Alþingi hafa víðtækt svigrúm til að ákvarða skattlagningu og hafnaði m.a. rökum um ólögmæta eignaupptöku vegna þess. Þá túlkun taldi Garðar illa standast Hæstaréttardóm frá árinu 1952 þar sem fallist var á að eignarskattur teldist í ákveðnum tilvikum ganga gegn eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Að mati Garðars mætti heimfæra þá niðurstöðu á núgildandi viðbótarauðlegðarskatt er varðar skattlagningu eignarhluta í fyrirtækjum. Þar sem að dómafordæmi um túlkun eldra eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar ættu enn við í dag taldi Garðar viðbótar auðlegðarskattinn því ólögmætann.
Meira svigrúm þarf í kringum skattalagabreytingar
Þá fluttu einnig erindi Tanya Zharov, framkvæmdastjóri lögfræðisviðs Auðar Capital, og Sigurjón M. Egilsson, blaðamaður og útgefandi. Tanya sagði fyrirtæki þurfa meira svigrúm í kringum skattalagabreytingar, miðað við það sem hefur verið síðustu ár. Fjársýsluskattinn nefndi hún sérstaklega, en það er skattur sem ekki er lagður á fyrirtæki sem hlutfall af hagnaði heldur sem hlutfall af launum. Því er hann í rauninni viðbótartryggingargjald fyrir þennan eina geira. Breytingar á skattkerfinu síðustu ár bera einnig beinan kostnað í för með sér fyrir fyrirtæki og áætlar hún að hjá Auði Capital hafi sá kostnaður verið a.m.k. 500 tímar frá 2009-2011 sem fóru í vinnu starfsfólks og ráðgjafa í tengslum við tölvuhluta rekstrarins.
Erfiðleikar fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki
Sigurjón talaði um þá erfiðleika sem minni fyrirtæki glíma við í síbreytilegu skattaumhverfi og kom með dæmi frá eigin fyrirtæki. „Ég hélt að orð myndu standa“ sagði Sigurjón og vísaði í að erfitt væri að gera rekstraráætlanir þegar skattabreytingar koma með jafn litlum fyrirvara og raun ber vitni. Vala Valtýsdóttir, sviðsstjóri skatta- og lögfræðisviðs Deloitte, stjórnaði fundinum ásamt því að kynna fyrir fundargestum helstu breytingar á skattkerfinu sem nú hafa tekið gildi.
Hér að neðan má nálgast myndir frá fundinum í flickr myndasafni Viðskiptaráðs:
Glærur framsögumanna:
Tengt efni í fjölmiðlum: