Viðskiptaráð Íslands

Samkeppnishæfni dalar milli ára

Ísland lækkar um þrjú sæti á milli ára í nýrri úttekt IMD viðskiptaháskólans í Sviss á samkeppnishæfni landa. Ísland fellur úr sæti 26 í sæti 29 á listanum sem samanstendur af 60 þjóðum. Er það þriðja lakasta staða Íslands frá upphafi mælinga en árið 2011 stóð Ísland í 31. sæti.

Efstu fimm sæti listans þetta árið skipa Bandaríkin, Sviss, Hong Kong, Svíþjóð og Singapúr en það eru sömu lönd og skipuðu efstu fimm sæti listans 2012. Lestin er svo rekin af Venesúela, Argentínu og Króatíu. Þau lönd sem eru á svipuðu reki og Ísland eru meðal annars Taíland, Frakkland, Síle og Litháen.

Samkvæmt sérfræðingum IMD felst uppskrift af velgengni Sviss, Svíþjóðar og Þýskalands, sem flokkast sem sigurvegarar í Evrópu, einkum í útflutningi, framleiðslu, fjölbreyttu efnahagslífi, aðhaldssamri ríkisfjármálastefnu og samkeppnishæfum litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Um síðastnefnda atriðið var fjallað í nýrri skoðun Viðskiptaráðs Lítil og meðalstór fyrirtæki – samstaða um bætt rekstrarumhverfi.

Ísland er neðst allra Norðurlandanna en þar næst fyrir ofan kemur Finnland sem skipar 20. sæti listans, því næst Danmörk (12. sæti), Noregur (6. sæti) og Svíþjóð (4. sæti). Aðeins Finnland og Ísland falla um sæti milli ára á meðan hin Norðurlöndin færa sig upp um 1-2 sæti.

Ísland er eftirbátur Norðurlandanna hvað varðar skilvirkni atvinnulífs og hins opinbera. Efnahagsleg frammistaða Íslands fellur um eitt sæti milli ára en helst þó þremur sætum ofar en Finnland. Það er einkum stærð markaðarins, fjárfesting og sparnaður sem þrýsta efnahagslegri frammistöðu niður. Samfélagslegir innviðir gera það að verkum að Ísland fellur ekki neðar en raun ber vitni. Þar spilar stóran þátt framboð af orku og hagnýting innviða í kringum orkugeirann sem skilar sér í hagstæðu verði raforku til heimila og fyrirtækja.

Styrkleikar og veikleikar
Þrátt fyrir veikleika Íslands er landið efst í nokkrum undirflokkum. Styrkleikar Íslands liggja einna helst í sveigjanleika vinnumarkaðarins og þátttöku kvenna. Jafnframt er Ísland fremst allra landa úttektarinnar þegar kemur að fjölda starfandi við rannsóknir og þróunarstarf. Þar að auki er hlutfallsleg fjármunaeign Íslendinga erlendis og eign erlendra aðila á Íslandi talinn vera eina af sterku stoðum efnahagslegrar frammistöðu. Hér eru þrotabúin og óþolinmótt fjármagn ekki tekið með.

Þróun frá síðasta ári ber merki um bata á vinnumarkaði. Það sem jafnframt batnar nokkuð milli ára er viðskiptalöggjöf og viðhorf og gildismat. Þeir þættir sem versna hvað mest milli ára er þróun verðlags og framleiðni og skilvirkni. Það fæst því staðfest enn og aftur að velmegun Íslands byggir að miklu leyti á því hve vinnusöm þjóðin er.

Við samanburð á niðurstöðum könnunarinnar árin 2013 og 2004 fæst nokkuð sláandi mynd. Á þeim 20 grunnþáttum samkeppnishæfni hefur Ísland aðeins færst upp listann hvað alþjóðaviðskipti varðar og grunninnviði. Þessi niðurstaða þarf ekki að þýða að Ísland sé eitt að þróast í öfuga átt enda eru önnur lönd að auka samkeppnishæfni sína milli ára, bæði í einstökum undirflokkum og heilt yfir.

„Niðurstöður könnunarinnar í fyrra gáfu tilefni til væntinga um bata á samkeppnishæfni þegar Ísland færðist upp um fimm sæti. Niðurstöðurnar í ár valda því nokkrum vonbrigðum enda staða Íslands nú lakari en árið 1997. Þar sem skýr tengsl eru á milli framleiðni og samkeppnishæfni þjóða má ætla að dregið hafi úr verðmætaskapandi eiginleikum hagkerfisins. Er því hætt við að lífskjaraþróunin hérlendis dragist enn frekar aftur úr þeim þjóðum sem raða sér efst á listann, þar sem Ísland á vel heima. Til að bæta þar úr þarf samhent átak nýrra stjórnvalda, fulltrúa atvinnulífs, launafólks o.fl. og þar er tilefni til að líta m.a. til nýlegra tillagna Samráðsvettvangs um aukna hagsæld.“
- Haraldur I. Birgisson, starfandi framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs
Upplýsingasíða Viðskiptaráðs um IMD
Viðskiptaráð Ísland er samstarfsaðili IMD á Íslandi. Verkefni Viðskiptaráðs tengist gagnaöflun og framkvæmd viðhorfskönnunar meðal stjórnenda í íslensku atvinnulífi. Á eftirfarandi vefsvæði, www.vi.is/imd sem tileinkað er niðurstöðum könnunarinnar má finna m.a.:

Nánari upplýsingar veitir Haraldur I. Birgisson, starfandi framkvæmdastjóri og Viðar Ingason, hagfræðingur Viðskiptaráðs, í síma 510-7100. Sækja má stærri útgáfur af ofangreindum myndum á flickr vef Viðskiptaráðs.

Könnun IMD er byggð á yfir 300 hagvísum auk viðhorfskönnunar meðal stjórnenda í atvinnulífinu. Haggögnin vega 2/3 á móti 1/3 sem byggir á viðhorfskönnuninni.

Tengt efni

Björn Brynjúlfur í stjórn HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024