Viðskiptaráð Íslands

Fjölsóttur fundur um lífeyrissjóði og atvinnulífið

Ríflega 150 manns sóttu fund Viðskiptaráðs Íslands, Samtaka atvinnulífsins, Alþýðusambands Íslands og Landssamtaka lífeyrissjóða núna í morgun. Var þar fjallað um samspil lífeyrissjóða og atvinnulífsins, mikilvægi góðra stjórnarhátta og virkrar samkeppni.

2013.11.15 Lifeyrissj 1

Aðalræðumaður fundarins var Peter Lundkvist sérfræðingur og forstöðumaður stjórnarháttasviðs AP3 lífeyrissjóðsins í Svíþjóð. Auk hans ávörpuðu fundinn þau Þórey S. Þórðardóttir framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða, Marínó Örn Tryggvason forstöðumaður eignastýringar Arion banka og Páll Gunnar Pálsson forstjóri Samkeppniseftirlitsins. Með þeim í pallborði sátu jafnframt Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ og Þorsteinn Víglundsson framkvæmdastjóri SA, en Frosti Ólafsson framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs annaðist fundarstjórn.

Í opnunarávarpi sínu kom Þórey inn á vaxandi vægi sjóðanna í atvinnulífinu og með því væru auknar skyldur lagðar á herðar sjóðanna að gæta m.a. góðra stjórnarhátta í hvívetna. Umræðan innan sjóðanna endurspeglaði það en þar væri nú lögð meiri áhersla á hluthafastefnur og góða stjórnarhætti auk þess sem sjóðirnir væru í ríkari mæli að gera kröfur til fyrirtækja á þessu sviði.

Lífeyrissjóðir eiga að vera virkir fjárfestar
Peter Lundkvist fjallaði um reynslu AP3 sjóðsins á sviði stjórnarhátta og nefndi þar m.a. að þegar aðilar væru að sýsla með annarra manna fjármagn þá skipti gagnsæi höfuðmáli. Sjóðurinn sinnir því með skýrri hluthafastefnu og upplýsir reglulega á vefsíðu sinni um hvernig henni er beitt, s.s. hversu marga hluthafafundi fulltrúar sjóðsins sækja, hversu margar tillögur eru lagðar fram á þeim fundum o.s.frv. Þess má geta að það sem af er ári hefur sjóðurinn greitt atkvæði á 574 aðalfundum.

  

2013.11.15 Lifeyrissj 2Það er stjórn AP3 sjóðsins sem ber ábyrgð á hluthafastefnu hans og framkvæmdastjóri annast innleiðingu hennar, en stefnan gerir ráð fyrir því að sjóðurinn sé virkur fjárfestir. Stefnan byggir á nokkrum meginreglum sem taka mið af því og hefur sjóðurinn skilgreint nokkur þrep við beitingu hennar. Ef ekkert þeirra virkar þá selur sjóðurinn sig frá fyrirtækjum. Þrepin fela í sér samskipti við stjórnendur fyrirtækja, virka þátttöku á hluthafafundum, þátttöku í tilnefninganefndum en sjóðurinn tilnefnir ekki sitt starfsfólk eða stjórnarmenn í stjórnir fyrirtækja, samstarf við aðra fjárfesta, stuðning við framtak annarra fjárfesta, þátttöku í setningu leiðbeininga og lögsóknum gegn fyrirtækjum ef svo ber undir.

Peter nefndi að íslensku sjóðirnir ættu að ýta á að fyrirtæki sem þeir fjárfesta í tilteinki sér leiðbeiningar um góða stjórnarhætti, óháð stærð þeirra og starfsemi. Þá ættu sjóðirnir jafnframt að auka á upplýsingagjöf um starfsemi sína og þá einkum hvernig þeir beita sér sem eigendur fyrirtækja.

Upplýsingar þurfa að vera gagnlegar
2013.11.15 Lifeyrissj 3Marinó Örn Tryggvason fjallaði í sínu erindi um gagnsæi í fjárfestingarferli lífeyrissjóða, allt frá mótun fjárfestingasýnar til umsýslu eignasafnsins hverju sinni. Nefndi hann þar að gagnsæi í fjárfestingarákvörðunum og eignarhaldi ætti að vera almenna reglan. Þó gætu verið réttmætar ástæður fyrir takmörkun á gagnsæi en að rökstyðja þyrfti slík frávik og að flestar upplýsingar ætti að vera hægt að birta með tímatöf. Þar kæmi t.a.m. til álita trúnaður gagnvart eftirlitsaðilum. Marinó tiltók jafnframt að upplýsingar þyrftu að vera þannig úr garði gerðar að þær gagnist notendum enda kostnaðarsamt að birta allar upplýsingar og hugsanlega fáir sem hafi áhuga á þeim.

Lífeyrissjóðir og samkeppnismál 
Páll Gunnar Pálsson fjallaði um aukin umsvif lífeyrissjóða sem eigendur fyrirtækja. Vísaði hann þar m.a. til nýlegrar skýrslu eftirlitsins Er týndi áratugurinn framundan? – Öflug samkeppni læknar stöðnun og nefndi að formlegt eignarhald lífeyrissjóða á 120 stærstu fyrirtækjunum hafi aukist úr 2% árið 2007 í 20% í dag. Þetta hefur átt sér stað með beinni fjárfestingu sjóðanna, í gegnum sjóði sem þeir eiga með öðrum eða með fjárfestingarverkefnum þar sem bankar leiða saman viðskiptaaðila.

2013.11.15 Lifeyrissj 4Páll sagði ekkert athugavert við fjárfestingar lífeyrissjóða í fyrirtækjum á samkeppnismörkuðum, enda hluti af eðlilegu og nauðsynlegu starfi þeirra. Vandinn lægi þó í gríðarlegu vægi sjóðanna í eignarhaldi atvinnufyrirtækja sem að óbreyttu er almennt áhrifalítið enda ekki í eðli lífeyrissjóða að reka fyrirtæki. Staðan yrði svo enn óskýrari þegar horft er til þess að hluti fjárfestinga sjóðanna er í gegnum framtakssjóði. Eignarhaldið yrði þannig ógagnsætt sem skapar hættu á að fyrirtækin njóti ekki eigenda sem drífa áfram heilbrigðan rekstur og gera viðkomandi fyrirtæki að virkum keppinautum á markaði.

Þetta væru ástæðurnar að baki áhyggjum Samkeppniseftirlitsins og að þar væri verið að skoða mál þessu tengdu. Lagði Páll fram fimm fullyrðingar þar að lútandi sem hann ræddi nánar og sagði jafnframt að eftirlitið myndi þiggja allar góðar ábendingar og velti upp hvort gagnlegt væri að það setti fram leiðbeiningar á þeim nótum sem unnar yrðu í samstarfi við atvinnulífið og lífeyrissjóðina.

Hefja þarf umbætur sem fyrst
Í pallborði fundarins fjölluðu Gylfi og Þorsteinn m.a. um erindi ræðumanna og í máli þeirra beggja kom fram að þörf væri á skýrri stefnu hjá sjóðunum í þessum efnum. Gylfi nefndi jafnframt að stjórnarhættir og aukið gagnsæi skiptu umtalsverðu máli. Á endanum byggir starfsemi lífeyrissjóða á hagsmunum sjóðsfélaga og að sjóðirnir ættu að vinna náið með Samkeppniseftirlitinu en jafnframt að sýna ákveðið frumkvæði og sú vinna ætti að hefjast sem fyrst enda vex kerfið ört. Undir þetta tók Þorsteinn og sagði mikilvægt að lífeyrissjóðirnir veiti eðlilegt eigendaaðhald.

Þá var jafnframt komið inn á höftin og áhrif þeirra á starfsemi sjóðanna en Þórey nefndi að samtökin fjögur ætluðu sér að halda sérstakan fund um það efni fljótlega eftir áramót.

Glærukynningar ræðumanna:

Tengt efni:

Hér má nálgast myndir frá morgunverðarfundinum í Flickr myndasafni Viðskiptaráðs:

Tengt efni

Björn og Andri í stjórn og háskólaráð HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024