Stjórnarhættir stofnana og fyrirtækja sem ekki eru rekin í ágóðaskyni

Vaxandi áhugi er á því að fyrirtækjastjórnendur taki sæti í stjórnum góðgerðafélaga, sjálfseignarstofnana o.fl. Með því er reynt að stuðla að sama krafti í rekstri slíkra félaga og er í almennum fyrirtækjarekstri.  Góðir stjórnarhættir eru mjög mikilvægir í rekstri félaga, fyrirtækja og stofnana sem ekki eru rekin í ágóðaskyni.   Ábyrgð stjórnarmanna í þessum stofnunum er oft mjög mikil og mikilvægt er að þeir einstaklingar sem veljast í stjórnir þessara stofnana leggi áherslu á góða stjórnarhætti og bættar upplýsingar til stjórnarmanna. Nýverið kynnti Verslunarráð, SA og Kauphöllin leiðbeiningar um góða stjórnarhætti fyrirtækja. Þær leiðbeiningar eiga að mörgu leyti vel við um fyrirtæki eða stofnanir sem ekki eru reknar í ágóðaskyni.

Val á stjórnarmönnum

Í nýlegri grein um stjórnir góðgerðafélaga í Harvard Business Review segir að tengsl og sérfræðiþekking skipti miklu máli þegar kemur að því að velja stjórnarmenn fyrirtækja. Þessu sé hins vegar öðruvísi farið þegar um er að ræða félög, fyrirtæki og stofnanir sem ekki eru rekin í ágóðaskyni. Þá skiptir heildarsýn stjórnarmanna yfir starfshætti og stefnu stofnunarinnar meira máli en sérfræðiþekking og tengslanet. Það er því mjög mikilvægt að stjórnarmenn í stofnunum sem ekki eru rekin í ágóðaskyni séu virkir í sínu starfi, mæti á stjórnarfundi og verji tíma í það til þess að öðlast betri yfirsýn. Með því móti eykst trúverðugleiki þeirra og skilvirkni sem auðveldar þeim að afla styrkja til starfseminnar.  Í leiðbeiningum VÍ er m.a. rætt um nauðsynlegan bakgrunn stjórnarmanna og mikilvægi þess að þeir hafi þekkingu.

Í áðurnefndri grein er sagt að það líti vel út á ferilskrá að eiga sæti í stjórn góðgerðafélags, sjálfseignarstofnunar eða hlutafélags sem ekki er rekið í hagnaðarskyni. Menn ættu samt sem áður ekki að gefa kost á sér til stjórnarsetu í slíkum stofnunum nema þeir sjái sér fært að uppfylla þessi grundvallarskilyrði sem felast í stjórnarsetu og gera sér grein fyrir vinnunni sem henni fylgir.        

Skipun nefnda stjórna

Stjórnir eiga að vera mikilvægasti hlekkurinn í stefnumótun og þróun hvers fyrirtækis, hvort sem það er rekið á grundvelli ágóðasjónarmiða eða ekki. Í greininni í Harvard Business Review segir aftur á móti að algengt sé að í stjórnum stofnana sé sagður hálfur sannleikur undir því yfirskini að það auðveldi þeim aðgang að fjármagni styrktaraðila. Stjórnarmeðlimir verða að krefjast ítarlegra upplýsinga áður en mikilvægar ákvarðanir í stefnumótun eru teknar.  Leiðbeiningar VÍ nefna sérstaklega skipun tveggja nefnda, endurskoðunarnefnd og starfskjaranefnd.  Báðar þessar nefndir geta stuðlað að auknu aðhaldi stjórnar á bókhald stofnana og gert kjarasamninga við æðstu yfirmenn gegnsærri. Þessi vinnubrögð eiga vel við um stofnanir sem ekki eru reknar á grundvelli ágóða.

Óhæði stjórnarmanna

Mat á óhæði eða hæði stjórnarmanna er afar brýnt í sambandi við stofnanir. Óhæði stjórnarmanna gagnvart stofnunni sjálfri er mjög brýnt að meta en eðlilega á óhæði gagnvart stærstu hluthöfum ekki við í sambandi við stofnanir nema þar sem um er að ræða rekstur hlutafélaga.  Þó má segja að hollt sé fyrir stofnanir að skoða hvernig skipun stjórnar fer fram og hvort koma megi í veg fyrir árekstra með skýrari vinnubrögðum varðandi skipun stjórnar.

Í leiðbeiningunum er lögð áhersla á að stjórnin setji sér starfsreglur og meti störf sín, verklag og starfshætti. Öll þessi atriði eiga vel við um stofnanir sem ekki eru reknar í ágóðaskyni.  Leiðbeiningar um góða stjórnarhætti eiga m.a. vel við um góðgerðafélög og  sjálfseignarstofnanir og geta bætt rekstur.

Þór Sigfússon

Tengt efni

Ávarp Ara Fenger á Viðskiptaþingi

Ari Fenger flutti opnunarávarp á Viðskiptaþingi 2024. Þetta var hans síðasta ...
12. feb 2024

Má aðstoða hið opinbera? 

„Á meðan einkageirinn leiðir framleiðniaukninguna bendir ýmislegt til þess að ...
4. mar 2024

Góðir stjórnar­hættir - hvernig og hvers vegna?

Tilnefningarnefndir er dæmi um viðfangsefni sem halda þarf áfram að móta til ...
8. mar 2023