Morgunverðarfundur Verslunarráðs, Samtaka atvinnulífsins og Glímunnar (tímarit um guðfræði og samfélag) um traust í viðskiptalífinu var haldinn í dag. Halldór Reynisson, verkefnisstjóri á Biskupsstofu, Gylfi Magnússon, dósent viðskipta- og hagfræðideild HÍ og Þröstur Olaf Sigurjónsson, aðjúnkt viðskiptadeild HR fluttu erindi.
Í pallborði voru Jón Sigurðsson, Seðlabankastjóri, Benedikt Jóhannesson, framkvæmdastjóri Talnakönnunar hf., Erlendur Hjaltason, framkvæmdastjóri Meiðs ehf. og Guðfinna S. Bjarnadóttir, rektor Háskólans í Reykjavík. Fundarstjóri var Eva Bergþóra Guðbergsdóttir.
Í tilefni fundarins var framkvæmd könnun meðal 400 íslenskra stjórnenda um stöðu siðferðis í dag og svaraði röskur þriðjungur. Niðurstöðurnar voru áhugaverðar og kynnti Þröstur Olaf Sigurjónsson þær. 94% stjórnenda taka undir það að hagsmunaárekstrar séu algengir í íslensku viðskiptalífi. Stjórnendur telja eldri stjórnendur viðhafa betra siðferði í viðskiptum og voru yngri stjórnendur sammála því. Jafnframt þóttu kvenstjórnendur viðhafa betra siðferði og voru karlar sammála því. Sjá glærur Þrastar Olafs.
Erindi Halldórs Reynissonar fjallaði um hvort það borgi sig að breyta rétt. Hvort fyrirtæki séu til í þeim eina tilgangi að skila hluthöfum sínum sem mestum arði og einu siðgildin sem þau þurfi að hafa í huga séu almennt viðurkenndar leikreglur samfélagsins eða hvort fyrirtæki beri einnig siðferðislega ábyrgð. Sjá erindi Halldórs.
Sjá glærur Halldórs.
Gylfi Magnússon fjallaði m.a. um trúverðugleika fyrirtækja og stjórnvalda og hversu mikilvægt það sé að yfirlýsingar séu trúverðugar. Gylfi sagði að það bæri ekki vott um almennt skynsamlegt skipulag efnahagslífsins þegar fólk beindi viðskiptum sínum til fyrirtækja eftir skipan stjórnenda og eigenda þeirra í stjórnmálaflokka. Sjá erindi Gylfa. Sjá glærur Gylfa.
Í pallborðsumræðum kom fram að ekki þyrfti að setja viðskiptalífinu strangari reglur, aldrei væri hægt að setja formlegar reglur sem næðu yfir allt viðskiptalífið. Frekar þyrfti að hafa Leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirækja, sem VÍ, SA og Kauphöllin gáfu út árið 2004, til hliðsjónar. Mikilvægt væri að reglur væru skýrar og að málsmeðferð væri hröð.