Það er löng hefð fyrir því á Viðskiptaþingi að veita styrki úr námssjóði Verslunarráðs. Undanfarin ár hefur tveimur efnilegum námsmönnum verið veittir styrkir að fjárhæð 250 þúsund krónur hvor úr námssjóði Verslunarráðs. Frá þessari hefð var ekki horfið í ár, nema að því leyti að nú voru í fyrsta sinn veittir þrír styrkir. Félagar Verslunarráðs innan upplýsingatæknigeirans veita námsstyrk úr sérstökum námssjóði ráðsins um upplýsingatækni sem verður hér eftir starfræktur samhliða hinum eldri sjóði.
Styrkirnir þrír eru veittir námsmönnum í framhaldsnámi á háskólastigi í greinum sem tengjast atvinnulífinu með beinum hætti, einn styrkurinn nú sérstaklega á sviði upplýsingatækni.
Í ár bárust 24 umsóknir um þessa þrjá styrki og eru það aðeins fleiri umsóknir en undanfarin ár. Í samræmi við skipulagskrá eldri námssjóðsins var það framkvæmdastjórn Verslunarráðs sem valdi tvo umsækjendur. Ráðgjafanefnd námssjóðs um upplýsingatækni, skipuð þeim Gylfa Árnasyni, Þórði Sverrissyni og Viðari Viðarsyni, réð vali við styrkveitingu á sviði upplýsingatækni.
Margir umsækjanda hefðu verið vel að þessum styrkjum komnir. Það varð hins vegar niðurstaðan að styrkina þrjá myndu hljóta í ár þau Ásta Dís Óladóttir, Jón Elvar Guðmundsson og Jóhann Ari Lárusson.
Ásta Dís Óladóttir er fædd árið 1972 og stundar doktorsnám í alþjóðaviðskiptum við Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn. Viðfangsefni Ástu eru einkum yfirtökur íslenskra fyrirtækja erlendis og beinast rannsóknir hennar að því hvernig auka megi líkurnar á því að þær verði árangursríkar. Ásta Dís lauk BA prófi í félagsfræði frá Háskóla Íslands árið 1999 og meistaraprófi í viðskiptafræði frá sama skóla árið 2001. Hún hefur frá árinu 2002 kennt við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands.
Jón Elvar Guðmundsson er fæddur 1976. Hann er í framhaldsnámi í lögfræði og leggur áherslu á alþjóðlegan skattarétt við háskólann í Leiden í Hollandi. Jón Elvar hefur sérstaklega hugað að vandamálum tengdum tvísköttun og skoðar í námi sínu hvernig best verður tryggt að tvísköttunar gæti ekki samkvæmt íslenskum lögum. Jón Elvar lauk lagaprófi frá Háskóla Íslands árið 2001 og hefur starfað sem lögmaður í rúm þrjú ár.
Jóhann Ari Lárusson er fæddur árið 1980 og stundar nú doktorsnám í tölvunarfræði við Brandeis háskólann í Bandaríkjunum en hann lauk meistaraprófi þaðan í desember síðastliðnum. Árið 2003 lauk hann BS prófi í tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Í doktorsnámi sínu leggur Jóhann Ari áherslu á nýtingu upplýsingatækni til vinnuhagræðingar en nám hans er á sviði tölvunarfræðinnar sem sameinar mörg önnur svið innan fræðigreinarinnar svo sem eins og hópvinnukerfi, samskipti manna og tölvu og gervigreind. Jóhann Ari hefur starfað við forritun og vefþróun á Íslandi.
Ásta Dís veitti sjálf sínum námsstyrk viðtöku en hvorki Jóhann Ari né Jón Elvar voru viðstaddir Viðskiptaþingið. Móðir Jóhanns Ara, Jóhönna Bárðardóttir, og faðir Jóns Elvars, Guðmund Björnsson, tóku við styrkjunum fyrir þeirra hönd.