Viðskiptaráð Íslands

Viðskiptaráð veitir efnilegum námsmönnum styrki

Það er löng hefð fyrir því á Viðskiptaþingi að veita styrki úr námssjóði Viðskiptaráðs. Undanfarin ár hefur þrem efnilegum námsmönnum verið veittir styrkir að fjárhæð 250 þúsund krónur hver. Félagar Viðskiptaráðs innan upplýsingatæknigeirans veita námsstyrk úr sérstökum námssjóði ráðsins um upplýsingatækni sem verður hér eftir starfræktur samhliða hinum eldri sjóði. Styrkirnir þrír eru veittir námsmönnum í framhaldsnámi á háskólastigi í greinum sem tengjast atvinnulífinu með beinum hætti, þar af einn styrkurinn sérstaklega á sviði upplýsingatækni.

Í ár bárust 25 umsóknir um þessa þrjá styrki og eru það fleiri umsóknir en undanfarin ár. Í samræmi við skipulagsskrá eldri námssjóðsins var það framkvæmdastjórn Viðskiptaráðs sem valdi tvo umsækjendur. Ráðgjafanefnd námssjóðs um upplýsingatækni, skipuð þeim Gylfa Árnasyni, Þórði Sverrissyni og Viðari Viðarsyni, réð vali við styrkveitingu á sviði upplýsingatækni.

Margir umsækjanda hefðu verið vel að þessum styrkjum komnir. Það varð hins vegar niðurstaðan að styrkina þrjá myndu hljóta í ár þeir Jón Steinsson, Ragna Sara Jónsdóttir og Eiríkur Þorsteinsson en hann hlýtur upplýsingatæknistyrkinn.

Jón Steinsson er fæddur árið 1976 og stundar doktorsnám í hagfræði við Harvard háskóla. Doktorsnám hans snýst um að rannsaka hvernig fyrirtæki verðleggja vörur sínar. Slíkar rannsóknir ættu að geta nýst vel bæði fyrir smásölu- og heildsölugeirann auk þess sem slík fræði eru mikilvæg þegar kemur að hagstjórn. Jón lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1996, A.B. gráðu í hagfræði frá Harvard árið 2000 og A.M. gráðu frá sama skóla árið 2004. Hann er búsettur í Cambridge í Massachusetts.

Ragna Sara Jónsdóttir er fædd árið 1973 og stundar mastersnám í alþjóðaviðskiptum og þróunarfræði við Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn. Námið beinir sjónum að þeim vandamálum sem þróunarlöndin standa frammi fyrir og hvernig alþjóðaviðskipti geta átt þátt í að leysa þau. Ragna Sara lauk stúdentsprófi frá MH árið 1993 og B.A. prófi í mannfræði frá Háskóla Íslands árið 1997. Ragna býr í Kaupmannahöfn ásamt Stefáni, eiginmanni sínum, og tveimur börnum, þeim Valgerði og Tómasi.

Eiríkur Þorsteinsson er fæddur árið 1974 og stundar doktorsnám í flug- og geimferðaverkfræði við Háskólann í Stuttgart. Doktorsnám hans er unnið í samvinnu við flugvélaframleiðandann Airbus og hann vinnur að hönnum hugbúnaðar sem gerir kleift að reikna ýmsa eiginleika nýstárlega efnisins sem hann þróar. Eiríkur lauk stúdentsprófi af stærðfræðideild Verzlunarskólans árið 1994 og hefur lokið grunnnámi í flug- og geimferðaverkfræði við Háskólann í Stuttgart. Eiríkur býr í Stuttgart ásamt Telmu, eiginkonu sinni, og tveimur sonum, þeim Kristófer og Daníel.

Tengt efni

Björn og Andri í stjórn og háskólaráð HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024