Arðrán í þróunarríkjum
Eftir Þór Sigfússon framkvæmdastjóra Verslunarráðs Íslands
Mikil umbrot eru í landinu þar sem milljónir manna eru að feta leiðina frá kommúnistaeinveldi til markaðshyggju. Þar leynast víða tækifæri fyrir útlend fyrirtæki ef rétt er á málum haldið ... Þessi texti birtist í leiðara dagblaðs um miðjan tíunda áratuginn þegar útrásin til Kamsjatka í Rússlandi stóð sem hæst. Síðan hófst Rússlandsútrásin, fyrirtæki settu upp skrifstofur, keyptu kvóta o.fl. Þegar búið var að fjárfesta uppgötvuðu íslensku fyrirtækin að Kamsjatka var ekki bara rík af náttúruauðlindum heldur var á fáum stöðum öflugri svikastarfsemi af ýmsum toga. Fyrirtækin lentu í margvíslegum vandræðum og íslenska útrásin á þetta svæði dróst verulega saman. Bólan hjaðnaði síðan þegar bakslag kom í rússneskt efnahagslíf rétt fyrir aldamót og skrifstofunum var lokað
Nú er Kína og Asía mest í umræðunni og talað um útrásina þangað og þau miklu tækifæri sem þar bjóðast. Fjölmiðlaumfjöllunin um útrásina er ekki mjög ólík þeirri sem var í kringum rússnesku útrásina en svo virðist sem fyrirtækin hagi sér allt öðruvísi og hafi lært af reynslunni. Það er rík ástæða til að fara varlega og enda þótt tækifærin í Asíu séu gríðarleg þá er áhættan einnig mikil. Nefnum nokkur dæmi:
Virðing fyrir höfundarétti og einkaleyfum er lítil í mörgum þróunarríkjum. Mikilvægt er fyrir evrópsk fyrirtæki að taka tillit til þess. Stór evrópskur hjólaframleiðandi samdi við kínverska verksmiðju um framleiðslu á nýrri gerð af hjóli sem sýna átti á útivistarsýningu ári síðar. Kínverska verksmiðjan fékk teikningar af hjólinu og gengið var frá samningum. Kínverska verksmiðjan stóð ekki við sinn hluta samningsins og hjólin voru ekki afhent fyrir sýninguna ári síðar en þar voru hins vegar sýnd nákvæmlega eins hjól frá óþekktum söluaðila. Svo vildi einnig til að sama kínverska verksmiðjan framleiddi hjólin. Þetta gæti alveg eins hent íslenska framleiðendur á gervifótum, minjagripum og fatnaði svo eitthvað sé nefnt.
Eftirlíkingar hafa sést af íslensku útivistarmerkjunum Cintamani og 66° Norður (en meðal annars hafa sést eftirlíkingar af 66° North sem nefnast 66° North Europe) á Asíumarkaði. Þótt gerð eftirlíkinga sé vissulega vísbending um að vörumerki sé að verða þekkt geta eftirlíkingar dregið verulega úr vexti heiðarlegra fyrirtækja sem hafa lagt fjármuni í hönnun og markaðssetningu vörumerkja. Áhætta af eftirlíkingum fyrir íslenska framleiðendur getur verið umtalsverð.
Ýmsar aukagreiðslur til opinberra starfsmanna á Indlandi leiddi til þess að kostnaður íslensks fyrirtækis við stofnun fyrirtækis í landinu jókst um 50%. Þetta fyrirtæki eins og fleiri hugðist nota sér ódýrt vinnuafl og nálægð við markaði en gerði sér ekki grein fyrir þeim menningarmun sem er á opinberri þjónustu hér og í mörgum þróunarríkjum.
Framkvæmdastjóri norska verslunarráðsins sagði í ræðu fyrir skömmu hjá Verslunarráði Íslands að norskt fyrirtæki hefði gert samning við fataframleiðanda í Asíu og fengið afbragðs sýnishorn af vörunni send til Noregs. Þegar gámurinn barst kom í ljós að gæðin voru allt önnur en sýnishornin gáfu til kynna og svo léleg voru fötin að þau töldust ónothæf. Fyrirtækið tapaði 4 milljónum norskra króna.
Íslenskt fyrirtæki hafði pantað upp úr stórum vörulista kínversks framleiðanda um tuttugu vörutegundir sem áttu að berast fyrir jól. Síðar kom í ljós að framleiðandinn var einungis söluaðili og því bárust ekki nema örfáar vörur á réttum tíma og síðustu vörurnar bárust tæpu ári eftir pöntun.
Ferð Útflutningsráðs með forseta Íslands til Kína var afar vel heppnuð og opnar mörg og einstök tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki. Hins vegar verður að muna að íslensk fyrirtæki eru mörg hver afar lítil og veikburða í útrás og mörg fyrirtæki hafa verið arðrænd í þróunarríkjum. Stór íslensk fyrirtæk með töluverða alþjóðlega reynslu hafa eðlilega meiri burði og fjárhagslegt úthald til að stefna á nýja markaði. Eins og sást í Kínaferð viðskiptalífsins taka mörg þeirra nú ákveðin en varfærin skref í austurátt.
Reynsla íslenskra fyrirtækja er ekkert ólík öðrum evrópskum fyrirtækjum í sambandi við útrás til þróunarlanda og því er alveg ástæða til að fara varlega. Við Íslendingar höfum ennþá fremur takmarkaða reynslu af útrás nema til Lundúna og Skandinavíu og þar höfum við í raun verið á heimavelli. Viðskiptaumhverfi í mörgum þróunarríkjum fer batnandi og mörg tækfifæri leynast í þesusm löndum. Það er þó full ástæða til að fara varlega og læra af reynslu annarra fyrirtækja af starfsemi og fjárfestingum á þessum svæðum.