Enn fróðlegra er þó að skoða erlendar fjárfestingar Íslendinga það sem af er árinu 2005 en samkvæmt athugun Verslunarráðs Íslands nema þær þegar yfir 300 milljörðum króna. Ef fram heldur sem horfir kunna því erlendar fjárfestingar Íslendinga að nema um um helmingi af vergri landframleiðslu og er það líklega heimsmet. Lengst af voru Íslendingar með mun lægra hlutfall en aðrar þjóðir OECD landa eða um 4,2% árið 1998. Þetta hlutfall nálgaðist síðan meðaltal OECD ríkja um aldamót og var þá nær 10% en hefur síðan vaxið hratt.
Erlendar fjárfestingar hér hafa þó vaxið lítið og eru það vonbrigði. Hnattvæðingin verður að vera hraðbraut í báðar áttir inn og út - en hér er svo ekki. Ólíkt nær öllum nágrannaþjóðum okkar hafa erlendir fjárfestar ekki sýnt landinu áhuga ef undan er skilin fjárfesting í stóriðju.
Íslendingar þurfa að skoða hvaða hindranir eru í vegi fyrir erlendum fjárfestingum hérlendis og hvernig megi örva þær. Um leið og við fögnum aukinni útrás íslenskra fyrirtækja eigum við að losa um hömlur á erlendum fjárfestingum í sjávarútvegi og orkubúskap, opna fyrir fjárfestingar einkaaðila í heilbrigðismálum, innviðum o.fl. og kynna okkur sem einstakt athafnaland með mjög gott rekstrarumhverfi.
Þór Sigfússon