Viðskiptaráð Íslands

Einkaframtakið er drifkrafturinn á Suðurnesjum

Nýlega ályktuðu framsóknarmenn á Suðurnesjum um málflutning þeirra sem hafa gagnrýnt fyrirkomulag einokunarverslunarinnar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Samtök verslunar og þjónustu og Verslunarráð Íslands hafa lengi bent á það sem betur mætti fara á þeim bænum og hvor samtökin fært rök fyrir sínum málstað með sínum hætti. Í Víkurfréttum 7. júlí sl. er ályktun framsóknarmanna birt þar sem lýst er yfir undrun og fordæmingu á málflutningi SVÞ og . Var Flugstöðin í Keflavík kölluð stóriðja Suðurnesjamanna.

Verslunarráð hefur lengi haldið því fram að eðlilegt sé að einkaaðilar reki og beri ábyrgð á þeirri verslun og þjónustu sem ákveðið er að sé fyrir hendi í flugstöðinni. Þannig er það í meginatriðum í dag að Fríhöfninni undanskilinni. Ríkið rekur Fríhöfnina í samkeppni við aðrar verslanir í Leifsstöð og hefur þar að auki einkarétt á sölu á tilteknum varningi, s.s. áfengi, tóbaki, snyrtivörum og tónlist. Vissulega er það svo að Fríhöfnin er ekki bara í samkeppni við aðrar verslanir í Leifsstöð heldur líka við verslunina í landinu og á það hafa SVÞ bent og vakið máls á því að komuverslunin verði lögð niður.

Framsóknarmenn fordæma sem sagt þennan málflutning og færa fyrir því í ályktun sinni þau rök að komuverslunin skapi 50-60 störf á Suðurnesjum og tekjur af henni sé forsenda uppbyggingar flugstöðvarinnar almennt. Þá blása framsóknarmenn á þær fullyrðingar að fríhafnarverslun sé í samkeppni við aðra verslun í landinu. Telja þeir miklu nær að hún sé í samkeppni við aðrar flugstöðvaverslanir erlendis.

Óneitanlega lægra verð á Suðurnesjum

Hvað samkeppnina varðar er ekki með nokkru sannfærandi móti hægt að neita því að verslanirnar í flugstöðinni, bæði komuverslun og aðrar, séu í samkeppni við aðra verslun í landinu. Auglýsingar verslananna, verðkannanir þeirra og viðskiptahættir eru með þeim hætti að allt kapp er lagt á að auglýsa lægra verð en gengur og gerist í öðrum verslununum í landinu. Það þekkist jafnvel að verslun í Reykjavík, með útibú í flugstöðinni, bjóði viðskiptavinum sínum að velja vöruna í versluninni í Reykjavík og fá hana afhenta í flugstöðinni, á „fríhafnarverði“. Auðvitað sækist fólk frekar eftir því að versla þar sem verðið er lægra og vissulega er það lægra, eða ætti að vera það, í verslunum sem þurfa ekki að skila virðisaukaskatti eða öðrum sköttum sem kunna að vera lagðar á vöruna. Það er afar langsótt að halda því fram eins og gert er að viðskiptahættir sem þessir séu til þess aðallega að keppa við erlendar fríhafnir. Að mati Verslunarráðs er full ástæða til þess að skattlagningarvaldið velti því fyrir sér hvort að eðlilega sé að neytendum búið í þessum efnum.

Einkaframtakið grundvöllur aukinna tekna

Spurningin um „fríhafnarverð“ eða ekki er svo hins vegar óháð því hvort menn telja eðlilegt að verslanir séu í flugstöðinni yfirleitt en Verslunarráð er þeirrar skoðunar að svo sé, en að sú verslun eigi að vera í höndum einkaaðila. Rekstrarfyrirkomulag verslananna er óháð þeim tekjum sem af þeim stafa. Ríkiseinkahlutafélagið Flugstöðin ehf. myndi eftir sem áður gera kröfu um arðsemi þeirrar starfsemi sem fer fram innan stöðvarinnar og fá af henni tekjur. Fullyrðingar um að ríkisrekin fríhafnarverslun sé forsenda uppbyggingar flugstöðvarinnar standast ekki. Uppbygging þar á bæ mun halda áfram á næstu árum með þeim tekjum sem ríkið aflar til þess.

Þá er ástæðulaust að óttast fækkun starfsmanna á Keflavíkurflugvelli, a.m.k. ekki af völdum aukins einkaframtaks. Með auknum einkarekstri, bæði í þjónustu innan flugstöðvarinnar en ekki síður á sjálfri Flugstöðinni ehf., skapast mun fleiri og fjölbreyttari tækifæri fyrir flugvöllinn í Keflavík, viðskiptavinum hans og starfsfólki til hagsbóta. Það er einmitt það sem hefur gerist undanfarin ár með aðkomu einkaaðila að ýmsum þáttum rekstursins. Nú þarf bara að bæta um betur.

Sigríður Ásthildur Andersen lögfræðingur hjá Verslunarráði Íslands.

-Grein birt í Morgunblaðinu 23. júlí 2005-

 

 

Tengt efni

Björn og Andri í stjórn og háskólaráð HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024