Á annað hundrað manns sóttu morgunverðarfund Viðskiptaráðs á Grand hótel í morgun. Yfirskrift fundarins var: Er krónan að laumast út bakdyramegin? Árni Oddur Þórðarson stjórnarformaður Marels og Þorvarður Tjörvi Ólafsson hagfræðingur í Seðlabankanum fluttu erindi, en fundarstjóri var Edda Rós Karlsdóttir forstöðumaður greiningadeildar Landsbankans. Arnór Sighvatsson aðalhagfræðingur Seðlabankans, Illugi Gunnarsson hagfræðingur og Ólafur Ísleifsson lektor við Háskólann í Reykjavík tóku þátt í pallborðsumræðum.
Erlendur Hjaltason, forstjóri Exista og formaður Viðskiptaráðs, setti fundinn og sagði að með þessum fundi væri verið að fylgja eftir skýrslunni Krónan og atvinnulífið sem Viðskiptaráð gaf út í sumar. Hann sagði einnig að Viðskiptaráð myndi halda áfram að leiða umræðu um þessi mál, enda skiptu þau miklu máli fyrir rekstur fyrirtækja í landinu.
Í fyrirlestri sínum benti Árni Oddur á rekstrarvanda útrásarfyrirtækja sem myndast af völdum gengissveiflna. Einnig drap hann á mikilvægi þess að gera íslensk fyrirtæki að álitlegri kosti sem langtímafjárfestingu erlendra aðila, hvort heldur í formi hlutafjár eða lánsfjármagns, og þeim skorðum sem krónan setur því markmiði.
Að mati Þorvarðar Tjörva hefur útgáfa erlendra skuldabréfa í innlendri mynt fyrst og fremst stuðlað að aukinni dýpt íslenskra fjármálamarkaða. Engu að síður sé það ljóst að umrædd útgáfa vinni gegn því að stýrivaxtahækkanir Seðlabankans skili sér út í óverðtryggða vexti og knýi Seðlabankann til aukinnar meðvitundar um vægi alþjóðamarkaða við mótun peningastefnunnar.
Að mati Arnórs Sighvatssonar hefðu ákveðnir þættir mátt fara betur í stjórn peningamála síðustu misseri. Hagvöxtur og fjármunamyndun hafi verið umfram spár Seðlabankans og við því hefði mátt bregðast með auknum þunga í vaxtahækkunum. Bankanum hafi þó verið falið afar erfitt verk við stjórn peningamála þar sem samtímis var ráðist í stærstu framkvæmd íslandssögunnar, skattalækkanir og breytingar á fyrirkomulagi húsnæðislána.
Illugi Gunnarsson taldi mikla þörf á að fylgja eftir umræðu um verðtryggingu lána og því bitleysi sem hún veldur miðlunarferli peningastefnunnar. Breytingar sem gera fyrirtækjum kleyft að framkvæma uppgjör í starfrækslumynt sinni hafi verið til marks um sókn og sveigjanleika og hægt sé að sækja enn lengra á því sviði. Hann lagði til að kannaðir yrðu kostir þess að gefa fyrirtækjum tækifæri á að greiða skatta í erlendri mynt.
Ólafur Ísleifsson sagði mikla þörf á kröftugri og málefnalegri umræðu um fyrirkomulag gengismála á Íslandi. Hann fór yfir helstu niðurstöður Krónunefndar Viðskiptaráðs, sem hann stýrði.