Viðskiptaráð Íslands

Fjölmenni á fund um viðskiptastefnu ESB

Um 60 manns sátu morgunverðarfund Viðskiptaráðs og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins gagnvart Íslandi og Noregi í gær sem bar yfirskriftina „Viðskiptastefna ESB – eitthvað fyrir Ísland?“ Á fundinum fjölluðu Percy Westerlund sendiherra framkvæmdastjórnarinnar, Aðalsteinn Leifsson forstöðumaður MBA náms Háskólans í Reykjavík og Grétar Már Sigurðsson ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins um viðskiptastefnu ESB og stöðu Íslands innan og utan hennar.

Viðskiptaráðherra, Björgvin G. Sigurðsson, flutti opnunarerindi þar sem hann gerði fríverslun að umfjöllunarefni sínu. Sagði ráðherra það vera brýnt verkefni að afnema tolla og vörugjöld til hagsbóta fyrir hagkerfið og neytendur. Ráðherra fjallaði einnig um mikilvægi þess að hagsmunasamtök fjölluðu um málefni ESB. Ráðherra benti á að í ESB umræðu undanfarina mánuði hefði viðskiptastefna ESB ekki fengið mikla umfjöllun, fagnaði hann því efni fundarins.

Percy Westerlund sendiherra fjallaði um bakgrunn og uppbyggingu viðskiptastefnu ESB og alþjóðlega stöðu ESB sem viðskiptablokkar. Westerlund fjallaði einnig um stöðu EFTA ríkjanna gagnvart ESB, en EFTA ríkin eru meðal mikilvægustu viðskiptaríkja sambandsins. Sendiherrann nefndi nokkra kosti sem fylgdu því að tilheyra viðskiptablokk ESB, t.a.m. að vegna stærðar sinnar getur ESB haft áhrif á þau öfl sem drífa áfram breytingar og að ESB væri byggt á sameiginlegum gildum sem sambandið berst fyrir á hinum alþjóðlega vettvangi. Glærur Percy má nálgast hér

Aðalsteinn Leifsson gaf fundargestum innsýn inn í stöðu Ísland sem aðili að EES en ekki ESB. Hann velti upp þeirri spurningu hvort Ísland nyti kosta „beggja heima“ við núverandi aðstæður. Aðalsteinn nefndi nokkra kosti aðildar fyrir Ísland, t.a.m. að öllum höftum á verslun milli Íslands og ESB yrði aflétt og að Ísland myndi tilheyra öflugasta verslunarveldi heims. Að mati Aðalsteins er Ísland, vegna EES samningsins, svo gott sem aðili að ESB að því undanskildu að Ísland hefur ekki áhrif á ákvarðanatökur innan sambandsins. Glærur Aðalsteins má nálgast hér

Grétar Már Sigurðsson ráðuneytisstjóri fjallaði um samningsstöðu Íslands sem smáþjóðar. Í máli Grétars kom það fram að EES samningurinn væri mikilvægasti fríverslunarsamningur sem Ísland hefði undirgengst. Grétar sagði einnig að staða mála, hvað fríverslun varðar, væri flóknari núna en fyrir nokkrum árum þar sem íslenskir hagsmunir væru annars eðlis en áður. Fiskveiðar voru aðalhagsmunamál Íslands hér áður fyrr, en nú væri um að ræða mun fjölbreyttari hagsmuni. Glærur Grétars má nálgast hér

Eftir að erindum lauk sátu framsögumenn fyrir svörum fundargesta. Percy Westerlund var spurður að því hversu fljót innganga Íslands í ESB yrði ef Ísland myndi sækja um aðild. Sendiherrann taldi að inngangan ætti að ganga greitt fyrir sig. Að mati sendiherrans væru Ísland og Noregur eiginlegir meðlimir í ESB og vegna þess ættu aðildarviðræður að taka stuttan tíma. Ræðumenn voru spurðir að því hvernig samningsferlið ætti sér stað innan ESB og hver væri raunveruleg samningsstaða Íslands sem hluta af ESB. Aðalsteinn svaraði því til að taka þyrfti tillit til hagsmuna allra aðildarríkja en að samningaviðræður innan sambandsins væru byggðar á góðri samvinnu allra ríkja. Þannig gæfist Íslandi færi á að koma sínum sjónarmiðum og áherslum á framfæri. Að lokum var spurt um ESB umræðuna á Íslandi en Guðfinna S. Bjarnadóttir sagði hana komna til að vera og það væri mjög mikilvægt að ákvörðun um inngöngu yrði tekin á vel upplýstum grundvelli.

Tengt efni

Björn og Andri í stjórn og háskólaráð HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024