Ísland þarf nýja sögu

Eftirfarandi grein birtist í Fréttablaðinu þann 4. júní:

Ísland þarf nýja sögu

Undanfarna mánuði hefur Ísland verið töluvert í kastljósi erlendra fjölmiðla.  Umfjöllunin hefur raunar verið langt umfram það sem ætla mætti miðað við títtnefnda höfðatölu og smæð landsins.  Í flestum tilfellum kemur þetta ekki til af góðu.  Efasemdir hafa verið uppi um styrk hagkerfisins og fjármálageirans, einkum vegna einkenna ofþenslu og hlutfallslegrar stærðar hins síðarnefnda í íslensku hagkerfi.  Stærð fjármálageirans og smæð hagkerfisins veldur því að áhrif alþjóðlegs fjármálaóróa eru jafnvel meiri hérlendis en víða annarstaðar.  Fyrir þá sem fylgjast með erlendri umfjöllun um Ísland teljast fyrirsagnir á borð við að „Ísland sé að bráðna“ eða „Að sprungur myndast í ísnum“  varla til tíðinda.  Þrátt fyrir að heldur hafi dregið úr slíkum fréttaflutningi síðustu vikur er ljóst að orðspor og ímynd Íslands hefur beðið hnekki. 

Umræða af þessu tagi hefur einnig smitað þjóðarsálina, sem birtist í óhóflega neikvæðri umræðu innanlands um efnahags- og viðskiptalíf.  Þetta er hvimleitt í ljósi þess að uppgangur viðskiptalífsins á stóran þátt í góðri stöðu ríkissjóðs (vegna hárra skattgreiðslna) og hefur gert Íslendinga málsmetandi á sviðum sem við tókum ekki þátt í áður. Tímabundnar efnahagslegar þrengingar, með hárri verðbólgu og stýrivöxtum, eru að auki ekki vel til þess fallnar að blása mönnum kjark í brjóst.  Segja má að orðræðan að undanförnu hafi frekar einkennst af depurð og svartsýni en þeim krafti sem öllum er ljóst að býr í íslenskri menningu og atvinnulífi.
Bölmóður af þessu tagi er til vansa og sagan sem sögð hefur verið að undanförnu gefur alls ekki rétta mynd af stöðu Íslands í alþjóðlegum samanburði, né þeim tækifærum sem við blasa.  Stoðir íslensks efnahagslífs eru nú fjölbreyttari og öflugri en fyrir fáum árum og styrkleikar víða, m.a. í mikilli  náttúrufegurð, fjölbreyttum auðlindum, þróuðum atvinnuvegum og innviðum á öllum sviðum, sterku lífeyrissjóðskerfi, auk menntunar og þekkingar Íslendinga. 

Þörf er á nýrri sögu um Ísland.  Hennar er þörf til að rétta af skaddað orspor landsins sem nú er efnahags- og viðskiptalífi til trafala.  Sagan þarf að hafa tvennt til að bera.  Í fyrsta lagi verður hún að byggja á raunverulegum styrkleikum þjóðarinnar.  Annars verður mögulegur ávinningur í besta falli skammvinnur.  Í öðru lagi þarf sagan að tengjast hagsmunamálum sem eru áhugaverð í alþjóðlegu samhengi.  Að öðrum kosti verður ekki fjallað um framlag Íslands utan landsteinanna.  Því er rétt að huga að hvar áhugi heimsbyggðarinnar liggur og hvað það er helst sem Ísland hefur fram að færa. 
Stærsta og mest ögrandi viðfangsefni mannkyns um fyrirsjáanlega framtíð er að sjá þjóðum heims fyrir orku án þess að skaða umhverfið frekar.  Birgðir jarðefnaeldsneytis fara þverrandi á meðan orkuþörf eykst stöðugt.  Pólitískur og hagrænn þrýstingur hefur aukið áhugi á endurnýtanlegum, vistvænum orkugjöfum gríðarlega og hraðað þróun tækni til muna. Á tímum kolefniskvóta og útblástursheimilda mun slíkur áhugi aðeins vaxa og hraði tækniþróunar aukast.

Hér hafa Íslendingar margt fram að færa.  Virkjun og nýting fallvatna og jarðavarma til orkuframleiðslu á sér áratuga sögu hérlendis og vegna hennar hefur orðið til dýrmæt þekking. Um 80% af orkuþörf okkar er uppfyllt með endurnýtanlegum orkugjöfum og stöndum við þar fremst meðal þjóða.    Ef marka má umfjöllun, m.a. nýlega í Newsweek, er eftir þessu tekið og sannfærandi rök hafa verið færð fyrir því að næsta tækifæri Íslands, og það stærsta til þessa, liggi á sviði grænnar orku.

Það er óumdeilt að íslenskt hugvit á sviði nýtingar endurnýjanlegra orkugjafa er með því fremsta sem þekkist.  Sérfræðiþekking hefur verið byggð upp hjá íslenskum verkfræðistofum og opinberum fyrirtækjum og stofnunum.  Þessa þekkingu ber okkur skylda til að nýta til fullnustu bæði hérlendis sem erlendis.  Sú skylda er annarsvegar gagnvart skattborgurum, sem eiga rétt á hámörkun arðs af fjárfestingu í innviðum orkugeira og uppbyggingu þekkingar.  Skylda okkar er einnig gagnvart alþjóðasamfélaginu, því íslensk þekking getur verið þungt lóð á vogarskálar hagfelldari framtíðar umhverfisvænnar orkuvinnslu í heimi þar sem slík orka verður nauðsynlegri með hverjum degi sem líður. 
Til þess að Ísland láti verulega að sér kveða í vinnslu endurnýtanlegrar orku þarf að finna leiðir til að virkja þá þekkingu sem orðið hefur til í opinberum fyrirtækjum og stofnunum.   Eðlilega er mikilvægt að hlúa markvisst að þessari þekkingu og efla hana. Í þeim efnum er jákvætt að horfa til áhuga bæði íslenskra og erlendra menntastofnana á að láta til sín taka.  Hinsvegar er ekki síður mikilvægt að finna sérþekkingu okkar farveg í arðbærum verkefnum á erlendri grund.

Til að svo verði er þörf á frekara samstarfi milli opinberra fyrirtækja og einkaframtaks.  Mjög mikilvægt er að fyrri mistök við að koma á slíkri samvinnu verði ekki til þess að ótvíræður ávinningur af frekari nýtingu einkaframtaks í orkugeiranum verði virtur að vettugi.  Annars er hætt við að enn frekar fjari undan tækifærum við nýtingu okkar dýrmætu þekkingar. Það þarf að reyna áfram og til þess þarf skýran vilja, pólitíska samstöðu og þor.  Innan seilingar er íslensk forysta á sviði endurnýtanlegrar, vistvænnar orkuvinnslu.  Slík forysta er saga sem mun gagnast við uppbyggingu sterkrar og jákvæðrar ímyndar Íslands.  Innviðin eru til staðar svo sagan getið orðið að veruleika og hún fjallar um eitt stærsta hagsmunamamál heimsbyggðarinnar, aukið framboð vistvænna orkugjafa.  Þessi saga verður hinsvegar ekki sögð án þess að kraftar einkaframtaks verði þar stór kafli. Tækifærið er núna. Tíminn er núna.

Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands

Tengt efni

Ólympíuleikar í loftslagmálum

"Ísland er ekki lítið land. Ísland er stórasta land í heimi," sagði Dorrit ...
21. ágú 2024

Brýnt að auka orkuframleiðslu

Að mati Viðskiptaráðs skýtur það skökku við að færa virkjunarkosti í ...
21. jún 2024

Úthlutað úr Framtíðarsjóði Viðskiptaráðs 

Sex verkefni fengu styrk úr Framtíðarsjóði Viðskiptaráðs Íslands
23. feb 2024