19. desember 2008
Eftirfarandi grein eftir Frosta Ólafsson, aðstoðarframkvæmdastjóra Viðskiptaráðs Íslands, birtist í Viðskiptablaðinu í gær:
Það er ljóst að mikil og erfið vandamál blasa við okkur á næstu mánuðum. Hrun fjármálakerfisins hefur þegar haft gríðarmikil áhrif á skuldastöðu fyrirtækja og heimila í landinu og almennt aðgengi að fjármagni. Fjármagnskostnaður er í hæstu hæðum og eftirspurn dregst hratt saman. Verðlag hefur farið hækkandi og kaupmáttur launa rýrnað samhliða.
Á sama tíma munu tekjur ríkissjóðs hríðfalla og starfsemi hins opinbera vera rekin með verulegum halla á komandi árum með tilheyrandi skuldaaukningu og aukinni vaxtabyrði. Til að bæta gráu ofan á svart er megnið af fjármálastarfsemi í landinu enn í lamasessi þar sem grunnþættir í starfsemi þeirra líkt og ákvarðanir um skuldbreytingar, lánalengingar og almenna, eðlilega bankafyrirgreiðslu ganga hægt og illa.
Við óbreytt ástand mun stór hluti fyrirtækja enda í gjaldþroti, fjöldi starfa tapast og neysla dragast enn frekar saman með auknum vanda fyrir atvinnulífið. Eigi slík atburðarás sér stað er ljóst að afskriftir nýrra ríkisbanka verða mun meiri en gert er ráð fyrir og hætt við að hið opinbera tapi enn meiri fjármunum. Þessi röð atburða getur auðveldlega endurtekið sig og skapað illviðráðanlegan vítahring.
Þegar stjórnvöld, almenningur og atvinnulíf standa frammi fyrir vandamálum af þessari stærðargráðu getur reynst mjög erfitt að stýra málum á skynsama braut. Í stað þess að taka höndum saman að sameiginlegum hagsmunum fer hver að verða sjálfum sér næstur. Þrátt fyrir veigamikil hagræn vandræði er því stærsta vandamálið sem hagkerfið glímir við í dag skortur á trausti. Skortur á trausti veldur seinagangi í ákvarðanatöku, almennri ákvarðanafælni og mikil orka fer í mál sem skila litlu til lengri tíma.
Almenningur hefur glatað trausti sínu til stjórnsýslunnar, atvinnulífsins og fjármálakerfisins. Tortryggni ríkir á milli atvinnulífs og stjórnvalda, á milli stofnana á vegum hins opinbera og á milli almennra fyrirtækja og nýs bankakerfis. Þetta verður að laga til að hægt verði að glíma við þau miklu hagrænu vandamál sem blasa við okkur. Sem flestir þurfa að klifra upp úr skotgröfunum og vinna að sameiginlegum markmiðum, sem eru endurreisn atvinnulífsins og lágmörkun þjóðhagslegs kostnaðar.
Í dag ríkir óánægja og gremja í samfélaginu. Gremjan snýr að stjórnvöldum, eftirlitsstofnunum, Seðlabankanum og síðast en ekki síst snýr hún að atvinnulífinu. Þessi gremja leiðir til þess að hlutirnir eru ekki settir í eðlilegt samhengi. Fyrirtækjaeigendur og bankastarfsfólk eru jafnvel úthrópuð sem óvinir samfélagsins fyrir engar sakir. Alhæfingar ráða ríkjum og fyrir það líða öll fyrirtæki, jafnt þau sem hafa verið rekin með skynsömum hætti og þau sem hafa mögulega farið of geyst í sakirnar. Hópsamkomur boða endalok kapítalisma, nýtt Ísland og að hausar þurfi að fjúka. Það virðist gleymast að nýtt Ísland mun ekki geta staðið undir lífsgæðum og atvinnu án öflugra fyrirtækja og fjármálastofnana.
Með þetta í huga væri réttast að stjórnmálamenn, embættismenn, atvinnulíf og fulltrúar launþega beini sjónum sínum fyrst og fremst fram á veginn. Með því væri sýnt gott fordæmi gagnvart almenningi og mun líklegra að árangur náist fyrr en ella. Þegar allt kemur til alls er mikilvægara að verja farboða þúsunda heimila í landinu en að sjá til þess að vanhæfir fjármálastarfsmenn eða fulltrúar stjórnvalda hljóti refsingu. Endanlegir hagsmunir allra hlutaðeigandi eru þeir sömu, skjótur bati hagkerfisins.
Stjórnmálamenn verða að hafa þor til að taka ákvarðanir sem valda þeim tímabundnum óvinsældum svo fremi sem þeim er ætlað að vernda þjóðarhagsmuni. Þeir verða að leggja skammtímahagsmuni líkt og múgsefjun og vinsældakeppnir til hliðar og einbeita sér að þeim verkefnum sem framundan eru. Viðfangsefnið er of stórt til að þjóðin hafi efni á öðru.