Þann 18. september birtist eftirfarandi grein í Morgunblaðinu:
Þann 1. október næstkomandi verður þing sett á Alþingi í 136. skipti. Þar ber að venju hæst að fjárlög næsta árs verða lögð fram, að þessu sinni í skugga ögrandi aðstæðna í efnahagsmálum og athafnalífi. Verðbólga og vextir eru í hæstu hæðum og miklar efasemdir eru um gagnsemi sjálfstæðrar peningastefnu, bæði meðal almennings og fyritækja. Þótt hagvaxtartölur 2. ársfjórðungs þessa árs sýni enn ágætan vöxt er almennt búist við verulegum samdrætti í hagkerfinu á næstu misserum. Margir eru jafnvel á því að samdráttar gæti nú þegar og benda máli sínu til rökstuðnings á samdrátt í þjóðarútgjöldum, en einkaneysla dróst til að mynda saman um 3,2% á 2. ársfjórðungi m.v. sama fjórðung árið áður.
Þegar kreppir að er ekki að undra að einhverjir kalli eftir hjálparhönd stjórnvalda til að viðhalda góðærinu, þá t.d. með því að hið opinbera ráðist í fjármagns- og mannaflafrekar framkvæmdir. Slíkar hugmyndir eiga ættir að rekja í smiðju Keynesískrar hagfræði, en þau fræði ganga í stuttu máli út á það að hið opinbera geti og eigi að jafna hagsveiflur sem stuðli að hagvexti og efnahagslegum stöðugleika. Hið opinbera ætti þannig að stunda virka sveiflujöfnun með því að draga úr ríkisútgjöldum í góðæri en auka þau þegar kreppir að.
Við fyrstu sýn geta hugmyndir um inngrip hins opinbera með auknum umsvifum virst réttlætanlegar, en svo er ekki. Forsendan fyrir slíkri sveiflujöfnun, samkvæmt ofangreindum hugmyndum, er sú að ríki og sveitarfélög dragi úr útgjöldum í góðæri en auki þau í samdrætti. Þegar horft er til baka er hinsvegar ljóst að útgjöld hins opinbera hafa síst dregist saman í efnahagsuppsveiflunni sem nú er að ljúka. Þvert á móti hafa útgjöld aukist umtalsvert, sérstaklega ef horft er til samanlagðra útgjalda ríkis og sveitarfélaga og framkvæmda ríkisstofnana í tengslum við stóriðjuframkvæmdir (hið síðastnefnda er flokkað sem atvinnuvegafjárfesting í þjóðhagsreikningum, sem gefur ranga mynd af umsvifum hins opinbera sem því nemur). Úr því að hið opinbera nýtti ekki tækifærið til að slá á eftirspurnarþrýsting undafarinna ára með samdrætti í útgjöldum, er ekki við hæfi að nú verði blásið til framkvæmda með tilheyrandi útgjaldaaukningu til þess eins að viðhalda þensluástandi. Slíkt væri einungis til þess fallið að kynda undir verðbólgu og viðhalda háu vaxtastigi, auk þess sem við blasir umtalsverður hallarekstur hins opinbera.
Eins og fjallað er um í nýlegri skýrslu Viðskiptaráðs, Útgjöld hins opinbera: orsakir, afleiðingar og úrbætur, þá hafa hlutfallsleg útgjöld hins opinbera aukist meira hérlendis en annars staðar síðasta áratuginn. Opinber útgjöld, sem hlutfall af landsframleiðlsu, eru nú hærri á íslandi en að meðaltali innan OECD og allar spár benda til þess að munurinn aukist enn frekar á næstu árum. Þetta er óheppileg þróun þar sem vöxtur í umsvifum hins opinbera getur komið harkalega niður á samkeppnishæfni íslensks efnahagslífs. Einkageirinn er sá hluti atvinnulífsins þar sem framleiðniaukning er mest. Í ljósi þess að aukning í framleiðni er forsenda hagvaxtar til langs tíma er brýnt að draga saman hjá hinu opinbera. Útgjöld ríkis og sveitarfélaga námu 43% af landsframleiðslu á síðasta ári og stefna enn hærra í ár, sem þýðir að nær annarri hverrni krónu er ráðstafað með einum eða öðrum hætti af hinu opinbera. Slíkt er til þess fallið að grafa undan samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja og þar með hagkerfisins í heild. Þá hefur opinberum starfsmönnum á íslandi fjölgað hratt síðustu árin: Þetta verður að teljast óæskileg þróun þar sem hátt hlutfall opinberra starfsmanna dregur úr þeim sveigjanleika sem einkennir íslenskan vinnumarkað og hefur lengi þótt einn helsti styrkur hagkerfisins. Auk þess má líta svo á, einkum í ljósi mikillar spurnar eftir vinnuafli á undangengnum misserum, að með fjölgun opinberra starfsmanna sé ríkið í samkeppni við einkafyrirtæki um starfsfólk. Slíkt er til þess eins fallið að ýta undir almennt launaskrið og um leið verðbólgu og þenslu. Ætli Íslendingar sér að standa í fremstu röð þjóða er brýnt að ofangreindri útgjaldaþróun verði við snúið, sérstaklega nú þegar tekjustofnar ríkis og sveitarfélaga munu skerðast umtalsvert á næstu misserum.
Við núverandi aðstæður yrðu aukin umsvif hins opinbera til þess að draga tímabil hárra vaxta og viðvarandi verðbólgu á langinn. Í stað þess að fara þá leið væri heppilegra að hið opinbera reyndi eftir fremsta megni að halda að sér höndum. Þannig skapast svigrúm til hraðari vaxtalækkana og einkaaðilum væri gert kleift að nálgast lánsfé á eðlilegum kjörum. Vaxtalækkun er án efa betri búbót en stórauknar ríkisframkvæmdir, bæði fyrir einstaklinga og fyrirtæki.
Í stað þess að líta á núverandi þrengingar sem ástæðu til aukinna umsvifa hins opinbera, ætti að líta á þær sem hvata og tækifæri til aðhalds og ráðdeildar. Af undangenginni þjóðfélagsumræðu síðustu vikna vita allir Íslendingar að aðstæður eru erfiðar. Segja má að andlegt ástand þjóðarinnar sé með þeim hætti að nú, fremur en oft áður, ætti að vera almennur skilningur á því að taka þurfi erfiðar ákvarðanir og grípa til óvinsælla aðgerða. Í þessu kristallast raunverulegt hlutverk stjórnmálamanna. Það væri allra hagur að við framlagningu fjárlaga í október rísi þeir undir þessari miklu ábyrgð og haldi aftur af frekari þenslu opinberra útgjalda.
Finnur Oddsson
Framkvæmdastjóri
Viðskiptaráð Íslands