Viðskiptaráð Íslands

Er pósturinn týndur?

Meðfylgjandi grein birtist í Viðskiptablaðinu, miðvikudaginn 24. september:

Fyrr á þessu ári var áratugur liðinn síðan Íslandspóstur tók til starfa sem sjálfstætt hlutafélag í eigu ríkisins. Áður fór póstþjónusta hins opinbera fram undir nafni Pósts og síma, en nú hefur fjarskiptahluti þess fornfræga ríkisfyrirtækis verið einkavæddur. Einkavæðing á fjarskiptamarkaði hefur gengið afar vel og skilað miklum árangri. Í dag starfa fjölmörg einkafyrirtæki á þeim markaði, samkeppnin er hörð, þjónustan er fjölbreytt og góð, tækninýjungar berast fljótt á markað og svo mætti lengi telja. Þá fjármuni sem ríkið aflaði með sölu Símans hefur verið hægt að nota í önnur verkefni sem heyra undir þjónustuframboð hins opinbera.

Þrátt fyrir þennan góða árangur við einkavæðingu fjarskiptahluta gamla Pósts og síma virðast engar áætlanir uppi varðandi póstþjónustuna. Það má því segja að pósturinn hafi gleymst á miðri leið. Ástæðan er ekki ljós enda er póstþjónustan um margt lík fjarskiptamarkaði. Í báðum tilfellum er um markaði að ræða sem hafa verið undir einokun hins opinbera í gegnum tíðina en standa nú á tímamótum, fyrst og fremst vegna tækniframfara. Rétt eins og farsímar og ljósleiðarar hafa leyst landlínur af hólmi hafa tölvuskeyti og rafrænar boðleiðir leyst bréfpóst af hólmi. Þrátt fyrir að slíkar tækniframfarir dragi úr þörf á ákveðnum þjónustuþáttum leynast enn ýmis tækifæri á póstmarkaði. Mun eðlilegra er að þessi tækifæri verði nýtt og þróuð af einkaaðilum en hinu opinbera.

Á þeim áratug sem liðinn er frá stofnun Íslandspósts hefur félagið endurskilgreint hlutverk sitt og starfsemi á ýmsan máta. Af framangreindum ástæðum hefur verulega dregið úr vægi almannaþjónustunnar og fyrirtækið hefur sótt inn á nýja markaði til að bregðast við breyttum aðstæðum. Stærsti gallinn við þetta fyrirkomulag er sú staðreynd að Íslandspóstur er ríkisfyrirtæki sem er rekið eins og einkafyrirtæki.

Í nóvember 2006 keypti Íslandspóstur allt hlutafé í fyrirtækinu Samskipti en samkvæmt ársreikningi fyrirtækisins voru þau kaup liður í því að auka breidd í þjónustu Íslandspósts. Í úrskurði Samkeppniseftirlitsins um samrunann kom fram að samkeppni á viðkomandi markaði var talin mjög hörð. Það er því erfitt að sjá hvaða hag almenningur hefur af þessum kaupum.

Í ársskýrslu Íslandspóst árið 2007 var kynnt að ráðist hafi verið í byggingu nýrra pósthúsa sem eru sérhönnuð með þarfir flutningafyrirtækis í huga. Í skýrslunni kemur fram að markmið með nýbyggingunum sé að auka umtalsvert möguleika fyrirtækisins til sóknar á flutningamarkaði og annari tengdri þjónustu. Mikil samkeppni ríkir nú þegar á flutningamarkaði og þess vegna orkar tvímælis að ríkisfyrirtæki skuli ætla að hasla sér þar völl. Í sömu skýrslu kemur fram að áætlanir geri ráð fyrir að innri vöxtur Íslandspósts jafngildi 2% raunaukningu í veltu og að ytri vöxtur skili veltuaukningu, sem nemi að jafnaði 15% milli ára að raunvirði árin 2007 til 2011. Af þessu má draga þá ályktun að vænta megi frekari fyrirtækjakaupa og útvíkkunar á starfsemi fyrirtækisins og því líklegt að sótt verði inn á fleiri samkeppnismarkaði.

Þessi þróun er ekki til heilla, en vert er að benda á að hér er ekki við stjórnendur Íslandspósts að sakast, enda reka þeir fyrirtækið innan ramma samþykkta sem gefa fullt svigrúm til útvíkkunar á starfseminni og uppkaupum á fyrirtækjum. Innreið Íslandspóst á samkeppnismarkaði má fyrst og fremst rekja til óljósrar stefnu og markmiða stjórnvalda sem endurspeglast í ómarkvissum samþykktum félagsins. Ef halda á eignarhaldi félagsins í óbreyttri mynd er nauðsynlegt að endurskoða og þrengja samþykktir þess verulega og starfsemin ætti að einskorðast við  almannaþjónustu.

Eins og rætt var hér að ofan hefur einkavæðing á fjarskiptamarkaði skilað miklum og góðum árangri. Þessi árangur hefur skilað neytendum bættri þjónustu, fyrirtækjum auknum tækifærum og ríkissjóði umtalsverðum sölutekjum. Með þetta í huga er því engin ástæða til að ætla annað en að einkavæðing Íslandspósts geti orðið neytendum til góða. Því til viðbótar væri komið í veg fyrir þátttöku hins opinbera á virkum samkeppnismörkuðum, sem væri tvímælalaust hagkerfinu til góða. Svo virðist sem stjórnvöld hafi ekki sett málið framarlega í forgangsröðina enda enginn skýr stefna uppi varðandi framtíð fyrirtækisins. Skynsamlegt væri að taka málið upp sem fyrst og koma póstinum á réttan áfangastað.

Frosti Ólafsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands.

Tengt efni

Björn og Andri í stjórn og háskólaráð HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024