Í ljósi þeirrar miklu áherslu sem erlend greiðslutryggingarfélög leggja á að fá áreiðanlegar upplýsingar um rekstur íslenskra fyrirtækja er rétt að hnykkja á því við félaga Viðskiptaráðs að tímanlega sé staðið að skilum á rekstrarupplýsingum. Í október síðastliðnum höfðu 12% íslenskra fyrirtækja skilað ársreikning fyrir árið 2007 til RSK, en þeim skilum átti að vera lokið hjá öllum í ágúst. Þau fyrirtæki sem byggja rekstur sinn að miklu leyti á þjónustu greiðslutryggingarfélaga (hvort sem er óbeint, hjá innflytjendum, eða beint hjá útflytjendum) geta ekki gert ráð fyrir að fá slíka þjónustu nema ítarlegar upplýsingar liggi fyrir.
Greiðslutryggingarfélögin erlendu fá upplýsingar um íslensk fyrirtæki í gegnum upplýsingaveitur á borð við Credit Info sem fær upplýsingarnar eftir öðrum leiðum. Þó má einnig benda á þann möguleika að viðskiptabankar íslenskra fyrirtækja veita greiðslutryggingarfélögum upplýsingar um efnahags og lausfjárstöðu, þar sem viðskiptabankar búa oft yfir nákvæmum upplýsingum um stöðu viðskiptavina. Þetta verður þó að sjálfsögðu ekki gert nema að gefnu samþykki viðkomandi fyrirtækis.