8. maí 2009
Finnur Oddsson framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs ritaði eftirfarandi grein í Markað Fréttablaðsins fimmtudaginn 7. maí síðastliðinn:
Hagur af upplýsingagjöf og gagnsæi
Skilvirk miðlun upplýsinga er ein af grunnforsendum þess að frjáls markaður fái þrifist með eðlilegum hætti. Sú krafa sem uppi hefur verið í samfélaginu um aukið gagnsæi með bættu aðgengi að upplýsingum á öllum sviðum er því bæði sjálfsögð og æskileg. Það er til að mynda eðlileg krafa til stjórnvalda að upplýst sé um raunverulega stöðu hagkerfisins og fyrirætlanir til framtíðar. Það er einnig eðlilegt, eins og ítrekað var krafist fyrir síðustu kosningar, að stjórnmálaflokkar geri grein fyrir framtíðarstefnu í helstu hagsmunamálum íslenskra heimila og fyrirtækja, t.a.m. hvað varðar peningastefnu, ríkisfjármál, atvinnustefnu og hlutverk ríkisins í atvinnurekstri. Skilvirk upplýsingamiðlun um helstu hagsmunamál eykur líkur á að þátttakendur í hagkerfinu taki skynsamar ákvarðanir byggðar á réttum forsendum, hvort sem um er að ræða einstaklinga, fyrirtæki, stofnanir eða stjórnvöld. Þannig er hlutaðeigandi gert kleift að leggjast markvisst á árarnar og búa í haginn til framtíðar, fyrir sig og fyrir hagkerfið í heild.
Þó með réttu megi gagnrýna yfirvöld og stjórnmálaflokka fyrir slælega upplýsingagjöf og óljós svör við flestum aðkallandi spurningum í aðdraganda kosninganna, er einnig ljóst að í ranni viðskiptalífs er ýmislegt sem betur má fara. Þetta sést glögglega í nýjasta Þjóðarpúlsi Gallup, en þar kemur fram að tæplega 80% landsmanna telja spillingu ríkja í viðskiptalífinu. Þessu viðhorfi verður að breyta – með beinum aðgerðum af hálfu viðskiptalífs – enda um að ræða forsendu þess að hér geti þrifist kraftmikið og heilbrigt atvinnulíf til lengri tíma. Þar sem ógagnsæi og upplýsingaskortur eru helsta eldsneyti viðhorfa tortryggni blasir við að á þeim má m.a. vinna með skilvirkari miðlun upplýsinga úr rekstri fyrirtækja.
Grunnupplýsingar um rekstur fyrirtækja er að finna í ársreikningum. Samkvæmt lögum eiga rekstraraðilar að skila ársreikning fyrir árið á undan eigi síðar en í lok ágúst ár hvert. Þó svo nægt svigrúm sé til skila af þessu tagi, hefur verulega skort á að íslensk fyrirtæki fari að ofangreindum lögum. Sem dæmi má nefna að í lok ágúst á síðasta ári höfðu aðeins 12% fyrirtækja hér á landi skilað ársreikningi fyrir árið 2007 til ársreikningaskrár. Enn í dag, ríflega hálfu ári eftir eindaga ársreikningaskila, á um fjórðungur íslenskra fyrirtækja fyrirtækja eftir að skila reikningi fyrir árið 2007. Að auki hefur um fimmtungur fyrirtækja ekki skilað ársreikningum fyrir árið 2006 og því miður eru einnig fjölmörg dæmi um að fyrirtæki hafi ekki skilað ársreikningum svo árum skipti.
Það er athyglisvert að vanskil ársreikninga virðist heimatilbúið vandamál sem vart þekkist í nágrannalöndum okkar. Ástæðan er líklega sú að erlendis hafa yfirvöld víðtækari refsiheimildir við vanskilum, t.a.m. í formi fjársekta, inngripa í starfsemi fyrirtækja og jafnvel afskráningu þeirra ef aðrar aðgerðir bera ekki árangur. Íslenskir embættismenn hafa þegar viðrað hugmyndir um hert viðurlög við vanskilum ársreikninga og í ljósi sögu slælegra skila er varla hægt að gera athugasemdir við þær. Þetta er einungis eitt birtingarform þess hversu mikilvægt opið samstarf milli stjórnvalda og atvinnulífs er, þar sem báðir aðilar axla sína ábyrgð. Fari það samstarf úr skorðum kallar það á viðbrögð sem oft bitna á þeim sem síst skildi.
Til að auka á gegnsæi og um leið trúverðugleika viðskiptalífs er mikilvægt að uppræta séríslensk vandamál líkt og það sem hér um ræðir. Fyrir því eru margar hagnýtar ástæður, sem allar lúta að trúverðugleika, bæði innanlands og utan. Almennt má segja að bætt upplýsingamiðlun sé til þess fallin að draga úr vantrú og tortryggni í garð íslensks viðskiptalífs og liðka þannig fyrir viðskiptum. Birtingarmyndirnar eru margvíslegar, allt frá því að auka líkur á því að greiðslur frá íslenskum fyrirtækjum fáist tryggðar hjá erlendum greiðslutryggingarfyrirtækjum til þess að styðja við enduruppbyggingu markaðar með fyrirtækjaskuldabréf, sem mjög er þörf á í þeirri endurreisn íslensks atvinnulífs sem framundan er.
Það er ljóst að ákall um aukið gegnsæi og upplýsingamiðlun á við um flesta þátttakendur í íslensku hagkerfi, stjórnvöld, stofnanir og viðskiptalíf. Til að hraða enduruppbyggingu hagkerfisins og almennum bata í samfélaginu er brýnt að verða við því kalli. Íslensk fyrirtæki geta gengið á undan með góðu fordæmi – og eiga að gera – til að mynda með því að standa tímanlegar skil á lögbundnum rekstrarupplýsingum. Jafnvel væri hægt að ganga lengra og fara fram úr þeirri formlegu upplýsingaskyldu sem lögð er á herðar viðskiptalífs, eins og einhver dæmi eru um á undanförnum dögum. Þannig sýna rekstraraðilar gott fordæmi og vinna að eigin hagsmunum, hagsmunum atvinnulífs og þjóðarinnar í heild.