Viðskiptaráð Íslands

Fram, fram, fylking

Frosti Ólafsson aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs ritaði eftirfarandi grein í Viðskiptablaðið í vikunni:

Á leikskólum er gjarnan sameinast í söng, leik og skemmtun af ýmsum toga. Einn af leikskólaleikjunum kallast Fram, fram, fylking en nákvæmt fyrirkomulag hans verður ekki tíundað í þessari grein. Í leiknum er kyrjað lag með svohljóðandi texta: Fram, fram, fylking, forðum okkur háska frá því ræningjar oss vilja ráðast á. Sýnum nú hug, djörfung og dug. Vakið, vakið vaskir menn því voða ber að höndum. Sá  okkar er síðast fer mun sveipast hörðum höndum.

Texti lagsins á að mörgu leyti samhljóm við núverandi aðstæður í íslensku efnahagslífi. Sitt sýnist hverjum um hver beri ábyrgð á þeim háska sem þjóðin er stödd í, en hvert sem rétt svar við þeirri spurningu kann að vera er víst að vandi blasir við þjóðinni. Á tímum sem þessum standa ýmsir á krossgötum vegna gjörbreyttra aðstæðna og velta upp þeim möguleikum sem fyrir hendi eru. Þar sem bölsýni, efnahagslegar þrengingar og samfélagsleg sundrung hafa verið ríkjandi í drjúgan tíma er hætt við að mörgum hrjósi hugur yfir framtíðinni og telji sér jafnvel betur borgið annars staðar. Þetta ættu stjórnmálamenn að hafa í huga en vilji fólks og fjármagns til að dvelja áfram hérlendis skipta mestu um  framtíðarhorfur Íslands. Varanlegur fólks- og fjármagnsflótti getur reynst öllum hagkerfum ofviða.

Sókn er besta vörnin segir máltakið og út frá þeirri hugmyndafræði er skynsamlegast að vinna. Það þarf að leysa ýmis veigamikil mál til að hægt sé að hefja enduruppbyggingu fyrir alvöru en raunveruleikinn sem blasir við Íslendingum er ekki kolsvartur. Hér má byggja á fjölmörgum styrkleikum, s.s. öflugum innviðum, vel menntuðum og heilbrigðum mannauð, miklum náttúruauðlindum, lágri glæpatíðni, vel fjármögnuðu lífeyrissjóðakerfi með miklum erlendum eignum. Þrátt fyrir að lífskjör hafi versnað má hæglega snúa þeirri þróun við, verði gengið vasklega til verks.

Þeir sem kjósa að flytja af landi brott hafa fyrir því margvíslegar ástæður. Í ýmsum tilfellum á fólk engra kosta völ, en í flestum tilfellum má einfaldlega rekja slíkar ákvarðanir til óvissuástands hérlendis. Flestir kjósa að hafa vaðið fyrir neðan sig og leita því eðlilega á mið frekari vissu og stöðugleika ef mögulegt er. Því er hætt við að þessi þróun muni einungis ágerast þar til ráðamenn hafa birt heimilum og fyrirtækjum skýrari og umfangsmeiri áætlanir um framtíðina en þegar hefur verið gert. Öllum er ljóst að færa þarf fórnir, en hverjar þær verða og hver uppskera þeirra verður síðar meir hafa stjórnvöld ekki greint frá með nægjanlega skýrum hætti. Hugnist Íslendingum þau svör sem gefin verða og feli þau í sér eftirsóknarverð markmið munu landsmenn sitja sem fastast og takast á við vandann.

Tengt efni

Björn Brynjúlfur í stjórn HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024