Viðskiptaráð Íslands

Að borga eða ekki að borga

Meginþorra þeirra erlendu skulda sem bíða enn úrlausnar í kjölfar bankahrunsins má skipta í tvennt. Annars vegar er um að ræða skuldbindingar vegna innstæðutrygginga á Evrópska efnahagssvæðinu (EES) og hins vegar skuldir bankanna við erlenda kröfuhafa. Þeirri skoðun hefur verið lýst að Ísland eigi ekki að standa við skuldbindingar sínar gagnvart erlendum hagsmunaaðilum. Rökin eru þau að fjárhæðirnar sem um ræðir séu of háar og auk þess þyki ekki sanngjarnt að leggja þessa skuldabyrði á almenning í landinu. Þetta eru skiljanleg sjónarmið, en nánari athugun leiðir í ljós að það er heppilegra að greiða úr málinu í sátt og samlyndi við þá erlendu aðila sem eiga hlut að máli.

Ljóst er að ákvörðun um að virða erlendar skuldbindingar að vettugi myndi hafa verulega neikvæð áhrif á stöðu Íslands í alþjóðasamfélaginu. Afleiðingar yrðu í formi vantrausts og tortryggni og myndu setja endurreisnarstarfið í mikið uppnám. Að borga ekki þýðir að íslenska ríkinu og íslenskum fyrirtækjum munu bjóðast lakari kjör í viðskiptum við umheiminn í framtíðinni, jafnvel varanlega. Það felur í sér beinan kostnað síðar meir, meðal annars í formi takmarkaðs aðgangs að alþjóðlegum fjármagnsmörkuðum, hærri vaxta á vettvangi alþjóðlegrar fjármögnunar og skerts aðgengis að afurðamörkuðum. Þetta er kostnaður sem myndi ekki síst leggjast á komandi kynslóðir.

Auk þess er gert ráð fyrir því í samstarfsáætlun ríkisins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að Ísland standi við skuldbindingar vegna innstæðutrygginga og ljúki samningum við erlenda kröfuhafa gömlu bankanna. Því er ljóst að ákvörðun um að standa ekki við þessar skuldbindingar myndi setja samstarfið við sjóðinn í mikið uppnám. Þar með væri lánveiting sjóðsins ekki lengur trygg sem og þeirra landa sem eru í samfloti með sjóðnum í lánveitingum til Íslands. Efnahagsáætlun sjóðsins yrði þar með marklaust plagg og samstarfið við sjóðinn, sem hingað til hefur gefið góða raun, yrði að engu, með tilheyrandi afleiðingum á framþróun og trúverðugleika endurreisnarstarfsins.

Af þessu má vera ljóst að málið snýst ekki um að borga eða ekki að borga. Íslendingar munu borga reikninginn fyrr eða síðar, með einum hætti eða öðrum. Valið stendur um að semja um skuldirnar í fullri sátt við alþjóðasamfélagið og alla aðila sem eiga hlut að máli, eða virða kröfur þeirra að vettugi og borga síðar í formi vantrausts, viðskiptalegrar eingangrunar og tortryggni. Ekki þarf að hugleiða valkostina lengi til að sjá að fyrri leiðin er illskárri.

Nánar er fjallað um þetta mál og mikilvægi þess að eiga gott samstarf við alþjóðasamfélagið í nýrri skoðun Viðskiptaráðs, Endurreisn í samstarfi við Alþjóðasamfélagið, sem nálgast má hér .

Tengt efni

Björn og Andri í stjórn og háskólaráð HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024