Rúmlega 100 gestir sóttu fund Viðskiptaráðs Íslands og fastanefndar ESB gagnvart Íslandi og Noregi sem haldinn var undir yfirskriftinni „Sjálfstæð mynt í fjármálakreppu. Á fundinum var rætt um hlutverk peningastefnu í samhengi við fjármálalegan stöðugleika og efnahagskreppur. Einkum var fjallað um evruna í ljósi núverandi fjármálakreppu og þýðingu fyrir peningastefnu á Íslandi, í fortíð og framtíð. Einnig var rætt um áhrif sjálfstæðs gjaldmiðils á rekstur alþjóðlegra fyrirtækja.
Fundinn setti Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra. Að setningu lokinni flutti Massimo Suardi, sviðsstjóri hjá framkvæmdastjórn ESB (DG Ecfin), erindi um viðbrögð Evrópusambandsins við yfirstandandi fjármálakreppu og þær áskoranir sem framundan eru. Yngvi Örn Kristinsson, forstöðumaður hagfræðideildar Landsbankans, flutti fyrirlestur um hvernig búast mætti við að þróun fjármálakreppunnar hefði orðið með evru í stað krónunnar. Hörður Arnarson, fyrrverandi forstjóri, flutti erindi um gjaldeyrismál í alþjóðlegum rekstri og að lokum tók Þórarinn G. Pétursson, starfandi aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands, saman efni fundarins og gerði grein fyrir sýn sinni á stöðu mála. Fundarstjóri var Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands.
Í ávarpi sínu lagði fjármálaráðherra áherslu á mikilvægi þess að horfa fram á við í stað þess að líta um öxl. Í tengslum við krónuna benti hann á að oft vilji illur ræðari kenna árinni um en vissulega hafi krónan kosti og galla. Við núverandi aðstæður gefi gengið útflutningsgreinum mikilvægt samkeppnisforskot en krónan sé aftur á móti lítil og viðkvæm fyrir áföllum. Fjármálaráðherra benti ennfremur á að það gleymist gjarnan í umræðunni að aðrar þjóðir glími nú við fjölþætt vandamál í tengslum við alþjóðlegu fjármálakreppuna og því sé ekki á vísan að róa að leita lausna þangað. Að lokum varaði hann við að Íslendingar héldu áfram leit sinni að “stóru lausninni” og lagði áherslu á vandinn væri það fjölþættur að upptaka evru ein og sér myndi ekki duga til.
Í erindi sínu fjallaði Massimo Suardi um viðbrögð ríkja Evrópusambandsins við fjármálakreppunni og hvernig samhæfing aðgerða þeirra hafi verið mun meiri og skilvirkari vegna þeirrar stofnanaumgjarðar sem ríkir innan ESB. Samkvæmt Suardi ríkir þó mikil óvissa um framhaldið og líklegt er að fjármálakreppunni fylgi talsverður samdráttur innan ESB.Hann taldi þó engar líkur á að evrusamstarfið myndi líða undir lok vegna ágreinings innan Myntbandalagsins, eins og sumir hafa haldið fram. Að lokum vakti athygli að Suardo taldi ekki raunhæft að ríki uppfylli aðlögunarskilyrði bandalagsins á skemmri tíma en Slóvenía gerði, en það tók rúmlega 2 ár.
Glærur Suardi má nálgast hér.
Yngvi Örn Kristinsson fór yfir aðdraganda og ástæður hruns bankanna með það að leiðarljósi að meta hvort niðurstaðan hefði orðið frábrugðin ef hér hefði verið evra í stað krónu. Niðurstaða Yngva er að bankarnir hefðu getað komið hjá falli þar sem orsök þess var lausafjárvandi. Aftur á móti hefðu eiginfjárvandamál getað komið upp síðar meir, en skaðinn hefði væntanlega orðið mun minni þar sem áhrifin hefðu komið fram á löngum tíma.
Glærur Yngva má nálgast hér.
Hörður ræddi um þær hindranir sem krónan skapar íslenskum fyrirtækjum með alþjóðlega starfsemi. Skoðun hans var sú að óstöðugur gjaldmiðill hafi valdið fyrirtækjum miklum vandræðum og beint vexti þeirra út fyrir landsteinana. Árin fyrir fjármálakreppuna hafi sterk króna skapað útflutningsfyrirtækjum mikinn vanda en í dag sé vandinn fyrst og fremst tengdur höftum á gjaldeyrisviðskiptum og orðstír Íslands. Á endanum snúist valið í dag um að nota krónuna í lokuðu hagkerfi eða sækja um aðild að ESB og stefna á upptöku evrunnar.
Glærur Harðar má nálgast hér.
Að lokum gaf Þórarinn G. Pétursson álit sitt á þeim vanda sem við er að glíma í dag. Samkvæmt Þórarni gagnast krónan vel í dag sem einskonar stuðpúði fyrir hagkerfið, enda gefur veikt raungengi útflutningsfyrirtækjum dýrmætt samkeppnisforskot. Það megi aftur á móti vel færa rök fyrir því að krónan sé að einhverju leyti uppspretta þeirra vandamála sem við stöndum frammi fyrir í dag. Þórarinn telur stærsta verkefni Seðlabankans og stjórnvalda snúa að því að verja efnahagsreikninga heimila og fyrirtækja og það verði best gert með stöðugleika í gengi. Í því ljósi séu því stýrivextir nauðsynlegur fórnarkostnaður og sú afstaða hafi legið til grundvallar síðustu stýrivaxtaákvörðun. Þá telur Þórarinn háa stýrivexti nauðsynlega þrátt fyrir höft á fjármagnsflutningum, þar sem hvati til óhefðbundinna undankomuleiða úr hagkerfinu sé minni.