Viðskiptaráð Íslands

Stefnan í peningamálum

Eitt brýnasta hagsmunamál þjóðarinnar er framtíðarstefnan í peningamálum enda ræður þróun gengis krónunnar mestu um skuldastöðu heimila og fyrirtækja, vaxtastig í hagkerfinu og verðbólguhorfur á næstu misserum. Að sama skapi er stöðugleiki á gjaldeyrismarkaði forsenda þess að stjórnvöld afnemi höft á fjármagnsflutningum, en þau hafa reynst hagkerfinu dýrkeypt á ýmsan máta. Með þetta í huga hljóma því fullyrðingar ýmissa stjórnmálamanna um að staða peningamála sé ekki bráðavandi í hæsta máta undarlega.

Núverandi ástand er óásættanleg og hvorki ljóst hvaða leiðum núverandi stjórnvöld, né aðrir flokkar, hyggjast beita til að ná tökum á vandanum. Hafi stjórnmálaflokkar á stefnuskrá sinni að krónan verði gjaldmiðil Íslendinga á komandi árum þarf að greina frá því með ítarlegum hætti hvernig þeir hyggjast leysa núverandi stöðu. Í því felst að útlistað verði hvernig sköpuð verði skilyrði til afnáms hafta, lækkunar vaxta, uppbyggingar á skilvirkum gjaldeyrismarkaði og auknum trúverðugleika íslensku krónunnar til lengri tíma. Þessir hlutir gerast ekki af sjálfu sér líkt og síðustu tvær ríkisstjórnir virðast hafa gert ráð fyrir. Hafi stjórnmálaflokkar upptöku annars gjaldmiðils á dagskrá sinni þá er mikilvægt að skýra með hvaða hætti þau skipti eigi að fara fram og hvernig peningamálum verði háttað fram að þeim tíma.

Að mati Viðskiptaráðs eykur óbreytt fyrirkomulag í gjaldeyris- og peninga-málum þjóðarinnar líkur á stöðnun og efnahagslegri einangrun Íslands til lengri tíma. Þess vegna er vart hægt að líta framhjá því að upptaka annarrar myntar hér á landi, í fullri sátt og samráði við alþjóðasamfélagið, gæti orðið verulega til bóta fyrir innlendan efnahag, jafnt til skemmri og lengri tíma. Í raun stendur valið ekki lengur á milli áframhaldandi sjálfstæðrar peningastefnu og upptöku annarrar myntar, heldur má færa gild rök fyrir því að valið standi einfaldlega á milli upptöku annarrar myntar eða framhaldi á núverandi stöðu. Í þessu sambandi hefur ráðið áður bent á að heppilegast væri að taka upp evru sem gjaldmiðil á Íslandi með formlegri aðild að Evrópusambandinu og Myntbandalagi Evrópu.

Aðeins einn flokkur hefur lagt til lengri tíma úrræði í peningamálum, en Samfylkingin vill ganga í ESB og taka upp evru sem gjaldmiðil á Íslandi með formlegri aðild að Myntbandalagi Evrópu. Engu að síður hefur flokkurinn ekki fjallað um með hvaða hætti peningastefnunni skuli háttað í millitíðinni og ekki lagt til aðgerðir sem gætu stuðlað að afnámi hafta á gjaldeyrismarkaði til skemmri tíma.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki lagt fram neina áætlun um framtíðarfyrirkomulag peningamála á Íslandi, en svo virðist sem flokkurinn vilji halda krónunni um sinn án þess að útfæra það fyrirkomulag nánar. Mjög óljóst er hvort Vinstri grænir sjá fyrir sér myntsamstarf við aðra þjóð eða hvort flokkurinn hyggst halda krónunni. Framsóknarflokkurinn vill ganga í ESB en í ályktun flokksins um Evrópumál er hvorki minnst á evruna né önnur úrræði í peningamálum. Loks virðist Frjálslyndi flokkurinn vilja halda krónunni án þess að trúverðug heildarstefna liggi að baki þeirri skoðun.

Könnun á afstöðu stjórnmálaflokkanna til peningamála leiðir í ljós þá óþægilegu staðreynd að nær algjört stefnuleysi ríkir í þessum mikilvæga málaflokki og má það heita fjarstæðukennt að enginn þeirra skuli hafa ályktað sérstaklega um peningamálin á landsfundi. Svo virðist sem stjórnmálaflokkarnir reyni hvað þeir geta að forðast umræðu um peningamálin í aðdraganda kosninga enda myndi slík umræða afhjúpa stefnuleysi þeirra og skort á raunverulegum lausnum.

Nánar er fjallað um þetta og fleiri mikilvæg mál í nýrri skoðun Viðskiptaráðs Íslands, Mikilvægustu kosningamálin, sem nálgast má hér.

Tengt efni

Björn og Andri í stjórn og háskólaráð HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024