23. apríl 2009
Í kjölfar yfirstandandi efnahagsþrenginga blasa við vandasamar og sársaukafullar ákvarðanir í fjármálum hins opinbera. Þessar ákvarðanir lúta að því hvar og hversu mikið hagrætt verður í rekstri hins opinbera og hvernig skattheimtu skuli háttað í náinni framtíð. Með þetta í huga er brýnna en nokkurn tíma að stjórnmálaflokkar leggi fram og kynni raunhæfar áætlanir um stefnu sína í ríkisfjármálum. Ekki er nóg að stikla á stóru líkt og flokkarnir hafa gert fram til þessa heldur þarf að greina kjósendum nákvæmlega frá því í hvaða málaflokkum verður helst skorið niður og með hvaða hætti stjórnvöld stefna á að auka tekjur ríkissjóðs. Ennfremur þurfa þær hugmyndir sem lagðar eru fram að vera raunhæfar en nokkuð hefur vantað upp á í þeim efnum.
Tvær leiðir eru færar til að brúa það skarð sem myndast hefur í fjármálum hins opinbera, skattahækkanir og hagræðing í ríkisrekstri. Æskilegt væri að stjórnvöld leggi áherslu á seinni leiðina. Ástæðan er einkum sú að fjárhagsstaða heimila og fyrirtækja er nú slík að ekki er á bætandi með hækkun skatta. Að auki er umtalsvert svigrúm til hagræðingar í rekstri hins opinbera þar sem útgjöld þess hafa aukist með miklum hraða á undanförnum árum. Minni umsvif hins opinbera myndu einnig draga úr fjárþörf þess og skapa mikilvægt athafnarými fyrir einkaaðila. Þegar allt kemur til alls eru það einkaaðilar, heimili og fyrirtæki, sem skapa skatttekjur hins opinbera. Ólíkt því sem fjölmiðlaumræða undanfarinna vikna hefur gefið til kynna er það meginverkefni stjórnvalda að skapa aðstæður til að störf verði til, ekki að skapa störf.
Því til viðbótar er ekki fyrirséð hver áhrif skattahækkana yrðu við þær viðkvæmu aðstæður sem ríkja í efnahagslífinu. Hætt er við að skattahækkanir leiði til enn frekari samdráttar sem myndi þrengja skattstofna og mögulega draga úr heildarskatttekjum á endanum. Áhrif skattahækkana gætu því allt eins orðið þveröfug við það sem lagt er upp með, en hagrannsóknir benda til þess að skattahækkanir í efnahagskreppum leiði gjarnan til tekjusamdráttar fyrir hið opinbera. Þetta á fyrst og fremst við breytingar á kvikum skattstofnum og breytingar sem myndu auka jaðarskatta launatekna.
Stjórnmálaflokkarnir eru á einu máli um nauðsyn þess að ráðast í víðtækan niðurskurð í rekstri hins opinbera og gildir þar einu hvaða stjórnmálalegu hugmyndafræði þeir aðhyllast. Því miður eiga flokkarnir það einnig sameiginlegt að búa ekki yfir neinni raunhæfri og áþreifanlegri áætlun um hvar og hvernig verður skorið niður. Yfirlýsingar stjórnmálaflokka um að standa beri vörð um velferð og þjónustu eða að engar skattahækkanir komi til framkvæmda hljóta að teljast marklausar ef ekki er kynnt með hvaða hætti slík loforð verði uppfyllt.
Frosti Ólafsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs.
Grein birtist í Viðskiptablaðinu 22. apríl.