Frumvarp til laga um eignaumsýslufélag ríkisins hefur verið lagt fram öðru sinni og hefur efnahags- og skattanefnd þegar tekið það til meðferðar. Viðskiptaráð lýsti sig andsnúið fyrra frumvarpi fjármálaráðherra en nýtt frumvarp hefur að geyma þó nokkrar breytingar til batnaðar. Þar má helst nefna að markmið og tilgangur félagsins er orðin skýrari, áhersla er lögð á dreift eignarhald við sölu fyrirtækja, gæta skal að samkeppnissjónarmiðum í starfsemi félagsins og skyldan til að selja fyrirtæki þegar markaðsaðstæður leyfa er orðin mun skýrari.
Á fundi efnahags- og skattanefndar í morgun vakti fulltrúi Viðskiptaráðs athygli nefndarmanna á hugsanlegum vanköntum frumvarpsins. Þar má einna helst nefna möguleg áhrif eignaumsýslufélagsins á fjárhag ríkissjóðs, en ljóst er að félagið mun þurfa á töluverðri fjárfestingargetu að halda næstu árin m.v. markmið þess. Þeirrar getu verður að öllum líkindum aflað með útgáfu ríkistryggðra skuldabréfa sem í raun eykur skuldsetningu ríkissjóðs og gæti þar með haft áhrif á lánshæfismat hans. Að auki eru líkur til þess að kröfuhafar fyrirtækja, sem félagið tekur yfir, fari fram á ríkisábyrgð fyrir kröfum sínum. Það er því ljóst að rekstur félagsins getur skapað talverða áhættu fyrir skattgreiðendur á komandi árum – eitthvað sem illa má við í núverandi árferði. Af þeim sökum leggur Viðskiptaráð áherslu á að tryggja þurfi að félagið verði ríkissjóði og skattgreiðendum á endanum ekki illviðráðanleg fjárhagsleg byrði.
Að auki lagði Viðskiptaráð áherslu á að stjórn félagsins yrði fengið óskorðað sjálfstæði í störfum sínum. Þar lagði ráðið til að mynduð yrði tilnefningarnefnd, skipaða fulltrúum aðila vinnumarkaðarins, ýmissa hagsmunasamtaka, stjórnarandstöðuflokkanna og auðvitað ríkisstjórnarinnar, til að meta hæfi og óhæði tilvonandi stjórnarmanna. Hvað þetta varðar lagði Viðskiptaráð einnig til að ríkisstjórnin myndi setja sér skýra eigendastefnu um eignarhald þess í eignarumsýslufélaginu. Um eigendastefnur hins opinbera er m.a. fjallað í Leiðbeiningum um stjórnarhætti opinberra fyrirtækja sem Viðskiptaráð, Samtök atvinnulífsins og Kauphöllin gáfu út í nóvember á síðasta ári, en þær eru aðgengilegar hér.