Viðskiptaráð Íslands

Þörf á skýrri stefnu

Gengi krónunnar hefur lækkað nokkuð undanfarið og stendur gengisvísitalan nú í ríflega 230 stigum, á svipuðum slóðum og hún var áður en höftin voru sett á. Gengisveikingu má að hluta rekja til vaxtalækkana Seðlabankans en þó er ljóst að skortur á skýrum áætlunum nýrrar ríkistjórnarnar, m.a. í fjármálum hins opinbera, er líklega stór áhrifavaldur. Ýmislegt bendir til þess að höft á gjaldeyrismarkaði hafi komið í veg fyrir hrun krónunnar með tilheyrandi afleiðingum fyrir íslensk fyrirtæki og heimili en nú virðist ljóst að höftin ein og sér duga ekki til að stemma stigu við áframhaldandi gengisveikingu og skapa því ekki forsendur fyrir styrkingu krónunnar. Þetta er í samræmi við viðvaranir Viðskiptaráðs, en ráðið hefur ítrekað bent á að höft væru einungis skammtímalausn sem kæmi ekki í stað stefnumarkandi aðgerða og nýrrar framtíðarsýnar af hálfu stjórnvalda.

Til þess að krónan geti styrkst á nýjan leik og að grundvöllur geti skapast fyrir afnámi hafta á gjaldeyrismarkaði er nauðsynlegt að ný ríkisstjórn leggi fram raunhæfa og trúverðuga áætlun í ríkisfjármálum eins fljótt og kostur er. Slík áætlun er ómissandi líður í að skapa framtíðarsýn hér á landi og þannig endurheimta trúverðugleika hagkerfisins. Án skýrrar stefnu í ríkisfjármálum, einkum hvað varðar að brúa þann gífurlega fjárlagahalla sem við blasir, er fátt sem hvetur innlenda og erlenda aðila til að halda fjármagni í landinu. Því er hætt við að höftin muni halda áfram að leka og að krónan muni veikjast  áfram á meðan ný ríkisstjórn lætur bíða að greina ítarlega frá áformum sínum. Að sama skapi er brýnt að ljúka sem fyrst vinnu við endurreisn bankakerfisins en sú vinna hefur dregist of lengi. Hægagangur nýrrar ríkisstjórnar í þessum efnum er beinlínis farinn að standa endurreisnarstarfinu fyrir þrifum og það er ekki boðlegt gagnvart íslenskum heimilum og fyrirtækjum. Viðskiptaráð kallar því eftir því að ný ríkisstjórn láti það ekki dragast lengur að greina ítarlega frá stefnu sinni í ríkisfjármálum.

Í þessu sambandi minnir Viðskiptaráð á tvær nýlegar skoðanir ráðsins þar sem fjallað er nánar um gjaldeyrismál þjóðarinnar, Afnám hafta og lækkun vaxta og Hagkerfi í viðjum örmyntar.

Tengt efni

Björn og Andri í stjórn og háskólaráð HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024