Viðskiptaráð Íslands

Vel sóttur Peningamálafundur Viðskiptaráðs

Peningamálafundur Viðskiptaráðs fór fram í morgun, 23. nóvember. Yfirskrift fundarins var Stenst hagstjórnin greiðslumat?, en meginumfjöllunarefni fundarins var húsnæðismarkaðurinn og áhrif hans á hagstjórnina hér á landi.

Fundurinn hófst á ávarpi Ara Fenger, formanns Viðskiptaráðs. Hann fjallaði um vaxtahækkanir Seðlabankans og sérstaklega þá ákvörðun sem tekin var í gær um að halda stýrivöxtum óbreyttum. Í kjölfarið fylgdu svo hvatningarorð til Seðlabankans:

Í því sambandi finnst mér rétt að hvetja Seðlabankann til að hafa meiri trú á eigin aðgerðum.

Þar á eftir fjallaði hann um það ástand sem núna er uppi í hagkerfinu, þar sem landsmenn eru að takast á við háa vexti og verðbólgu. Benti Ari á að kjarasamningar þar sem samið væri um yfir 7% launahækkun, líkt og gert var síðast, væru ekki líklegir til þess að skila kjarabótum til landsmanna. Nauðsynlegt væri að horfa til framleiðnivaxtar í samhengi við launahækkanir

Erindi Ara lauk svo á umfjöllun um þá áskorun sem stjórnmálamenn standa frammi fyrir þar sem hann talaði um hina svokölluðu bölvun Juncker, sem kennd er við Jean-Claude Juncker, fyrrverandi forsætisráðherra Lúxemborgar og forseta framkvæmdastjórnar ESB, en hann sagði eitt sinn:

„Við vitum öll hvað þarf að gera, við vitum bara ekki hvernig við náum endurkjöri eftir að við höfum gert það.“

Ari Fenger, formaður Viðskiptaráðs Íslands.
Ari Fenger, formaður Viðskiptaráðs Íslands.

Íslendingar þurfa að fylgja leikreglum

Næstur á svið var svo Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri, sem flutti kraftmikið erindi um stöðu íslenska hagkerfsins, bæði í sögulegu og alþjóðlegu samhengi.

Þar ræddi hann um þá miklu umræðu sem er um peningastefnuna hér á landi og tilhneigingu til þess að vilja beita öðrum stjórntækjum en stýrivöxtum.

Þá fjallaði hann einnig um ástæður þess að hér væri verðbólga þrálátari en annarsstaðar. Hér á landi væri mikill hagvöxtur og miklar launahækkanir, sem ekki hefur verið raunin í þeim löndum sem við jafnan viljum bera okkur saman við.

Ásgeir ræddi líka um tímabilið frá 2014 fram að heimsfaraldri, en á því tímabili var ein mesta lífskjarasókn Íslandssögunnar. Þessi ár skiluðu mikilli kaupmáttaraukningu og lægstu launin hækkuðu mest.

Einnig var til umfjöllunar í erindi Ásgeirs sjö vörður að stöðugleika.Vilji lesendur kynna sér þá umfjöllun nánar er rétt að benda á glærur sem fylgdu erindi Ásgeirs, en þær má finna hér.

Erindinu lauk svo á brýningu frá Ásgeiri um það að mestu máli skipti að fylgja leikreglum þess kerfis sem við höfum sett okkur í peningastjórn. Það skipti í raun meiru máli en hvaða kerfi við veljum okkur. Mestu máli skipti að fella þær leikreglur sem fylgdu krónunni inn í samfélagssáttmálann.

Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri Íslands.

Hverju hafa aðgerðir hins opinbera skilað?

Eftir erindi Ásgeirs steig Gunnar Úlfarsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs, á svið og flutti erindi um stuðningsaðgerðir hins opinbera á húsnæðismarkaði.

Erindið hófst á því að sýna samanlögð áhrif sem húsnæðisverðshækkanir og vaxtahækkanir hafa haft á afborganir af lánum. Þar sést að, þrátt fyrir mikla umræðu um stýrivaxtahækkanir, þá hafa hækkanir á afborgunum af húsnæði helst orsakast af hækkunum á húsnæðisverði.

Þá næst sýndi Gunnar þróun á fasteignaverði í samhengi við þær aðgerðir sem ríkið hefur gripið til á húsnæðismarkaði síðastliðin 20 ár. Þar mátti sjá að samanlagður kostnaður við aðgerðir ríkisins á húsnæðismarkaði eru ríflega 900 milljarðar. Til að setja hlutina í samhengi má nefna að miðað við fasteignamat mætti kaupa allar fasteignir í Grindavíkurbæ tíu sinnum fyrir þá fjárhæð.

Erindinu lauk svo á umfjöllun um hver áhrif þessara aðgerða hafa verið, þ.e. hvort þær hafi haft áhrif á eftirspurnar- eða framboðshlið markaðarins. Í ljós kom að flestar aðgerðirnar hafa komið fram á eftirspurnarhlið markaðarins og verið nokkuð almennar, þ.e. náð til stórs hóps. Gunnar hvatti til þess að ef ríkið gripi til stuðningsaðgerða yrðu þær sértækari en að best væri að ráðast í aðgerðir sem örva framboðshliðina og þar myndi einföldun regluverks og aukið lóðaframboð vera góð byrjun.

Gunnar Úlfarsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands.

Fjármagnskostnaður hefur rokið upp

Það voru svo pallborðsumræður sem slógu botninn í fundinn, þar sem að Iða Brá Benediktsdóttir, aðstoðarbankastjóri Arion Banka, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármála- og efnahagsráðherra og Gylfi Gíslason, framkvæmdastjóri Jáverks, sátu fyrir svörum.

Pallborðið hófst á umræðum um stýrivaxtaákvörðun Seðlabankans frá því í gær. Þar sögðust Gylfi og Iða Brá vera sammála ákvörðuninni, en Þórdís Kolbrún tók ekki afstöðu og sagði að Seðlabankinn nyti sjálfstæðis frá fólki eins og sér.

Næst snéru umræður að húsnæðismarkaði, þar sem Gylfi sagði að sveiflur á húsnæðismarkaði væru gömul saga en að miklar kostnaðarhækkanir hefðu dunið á byggingageiranum undanfarið ár. Iða Brá tók undir þetta og benti á að fjármagnskostnaður á fermetra hefði farið úr 25.000 krónum í heimsfaraldrinum í 100.000 nú.

Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, Iða Brá Benediktsdóttir, aðstoðarbankastjóri Arion, Gylfi Gíslason, framkvæmdastjóri Jáverks, og Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, fjármála- og efnahagsráðherra.

Þá sagði Þórdís Kolbrún að það hefði komið henni á óvart að aðgerðir ríkisins á húsnæðismarkaði hefðu kostað 900 milljarða síðustu 20 ár. Hún sagði jafnframt að ekki hefði gengið nógu vel að innleiða þær aðgerðir sem OECD lagði til í samkeppnismati á byggingamarkaðnum árið 2020 og miðuðu að því að ryðja burt samkeppnishindrunum og einfalda regluverk.Að lokum ræddi Gylfi svo um að mikilvægt væri að tryggja neytendavernd og gæði bygginga, en minni þörf væri fyrir annað regluverk á byggingamarkaði. Í samhengi við þetta ræddi Þórdís mikilvægi þess að horfa á stóru myndina á markaðnum og minnti á að til væru tillögur að breytingum, svo ekki væri nauðsyn að ráðast í langt samráðsferli, til að hrinda breytingum í framkvæmd.

Farið var yfir víðan völl á fundinum. Lausnir við húsnæðisvandanum voru í brennidepli og bindur Viðskiptaráð vonir við að þær gagnlegu umræður sem fram fóru á fundinum skili sér í aðgerðum, til að skapa hagfelldara umhverfi á markaðnum.

Viðskiptaráð vill nota þetta tækifæri og þakka þeim sem ávörpuðu fundinn, en jafnframt þeim sem mættu og hlýddu á viðmælendur.

Tengt efni

Björn og Andri í stjórn og háskólaráð HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024