Viðskiptaráð Íslands

Skaðleg skattastefna - Sameiginleg yfirlýsing aðila í atvinnurekstri

Samtök aðila í atvinnurekstri vara við þeirri skattastefnu stjórnvalda að leggja nýjar tegundir gjalda á atvinnureksturinn og hvetja til þess að megináherslan verði lögð á uppbyggingu og sköpun starfa.

Nú í vikunni verður fjárlagafrumvarp fyrir árið 2010 kynnt, en þar verður fyrsta skrefið tekið til að draga úr fjárlagahallanum. Öllum er ljóst að hið opinbera mun þurfa að gæta mikils aðhalds í rekstri enda gerir áætlun stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins ráð fyrir að rekstur þess verði orðinn sjálfbær að þremur árum liðnum. Framundan blasa því við vandasamar og sársaukafullar ákvarðanir um hvar og hversu mikið verður skorið niður og hvernig skattheimtu skuli háttað í náinni framtíð.

Af þeim tveimur valkostum sem stjórnvöld standa frammi fyrir, þ.e. að hækka skatta eða draga úr útgjöldum, er mjög mikilvægt að stjórnvöld leggi áherslu á seinni leiðina. Í stöðugleikasáttmála vinnumarkaðarins er kveðið á um að skattar verði lækkandi hlutfall aðlögunaraðgerða eftir yfirstandandi ár og ekki samtals hærra en 45% þeirra fyrir árin 2009-2011. Mikilvægt er að við þetta verði staðið. Umtalsvert svigrúm er til hagræðingar í rekstri hins opinbera enda hafa útgjöld þess vaxið mikið á undanförnum árum. Auk þess er alls ekki fyrirséð hver áhrif verulegra skattahækkana yrðu við þær viðkvæmu aðstæður sem ríkja í efnahagslífinu. Til þess að skatttekjur aukist þarf annað hvort að auka hlutfallslega skattheimtu eða breikka þá skattstofna sem mynda tekjurnar. Óvíst er hvort skattahækkanir skili hærri skatttekjum þar sem aukin skattbyrði leiðir til minnkandi umsvifa og þar af leiðandi minni skattstofna.

Forsætisráðherra hefur þegar boðað skattahækkanir, þ.m.t. nýja skatta á borð við orku-, umhverfis- og auðlindaskatta. Þótt ekki liggi fyrir á þessari stundu hvernig þessir skattar verði útfærðir þá er ljóst að eðli þeirra er að skattleggja kostnað fyrirtækjanna og skattgreiðslur verða þar með óháðar afkomu. Slík skattheimta dregur úr samkeppnishæfni fyrirtækjanna gagnvart erlendum keppinautum og möguleikum þeirra til þess að hafa starfsmenn í vinnu og greiða laun. Verði  þessum áformum hrint í framkvæmd er veruleg hætta á því að þeir fjárfestingarkostir sem erlend fyrirtæki hafa haft til skoðunar hér á landi verði endurmetnir og hugsanlega slegnir af.

Að auki hafa breytingar á fjármagnstekjuskatti verið nefndar sérstaklega til sögunnar. Allar þessar breytingar hafa í för með sér versnandi rekstrar- og fjárfestingarumhverfi á Íslandi. Trúverðugleiki landsins er nú þegar laskaður og fátt sem dregur erlenda fjárfesta hingað til lands. Aðgerðir sem rýra rekstrar- og skattaumhverfi fyrirtækja frekar munu því verða enn eitt skref í átt frá settu marki um efnahagslega endurreisn. Sjaldan hefur þörfin fyrir erlenda fjárfestingu verið ríkari og á sama tíma vinna stjórnvöld markvisst gegn slíkum fjárfestingum. Við þetta verður ekki unað.

Það er verðugt markmið að hagræðing í ríkisrekstri komi sem minnst niður á þeim efnaminni. Sú leið sem stjórnvöld virðist ætla að fara er hinsvegar afar óheppileg og þjónar ekki endanlegum tilgangi. Með því að reyna að skattleggja sig út úr vandanum vega stjórnvöld að að undirstöðum velferðarkerfisins, enda er sterkt atvinnulíf grundvöllur skatttekna. Þannig er líklegra að lífskjör þeirra lakast settu myndu versna enn frekar vegna minni umsvifa í hagkerfinu. Það er óhjákvæmilegt að allir beri einhverjar byrðar í því krefjandi verkefni sem framundan er. Atvinnulífið gerir sér vel grein fyrir þessu og víkur sér ekki undan ábyrgð. Stjórnvöld verða að mæta áskoruninni í ríkisfjármálunum af fullum krafti með gagngerri heildarendurskoðun á útgjöldum hins opinbera og róa að því öllum árum að langtímasamkeppnishæfni skattkerfisins verði fyrir sem minnstum skaða.

Samtök aðila í atvinnurekstri vara hér með við skattastefnu stjórnvalda, enda vinnur hún gegn markmiðum um endurreisn hagkerfisins, hærra atvinnustigi og uppbyggingu sterks og sjálfbærs velferðarkerfis.

Undirskrift Visa

Tengt efni

Björn og Andri í stjórn og háskólaráð HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024