Félags- og tryggingamálaráðherra kynnti á miðvikudaginn aðgerðir sem miða að því að létta greiðslubyrði og skuldavanda heimilanna. Annars vegar er um að ræða almennar aðgerðir þar sem greiðslujöfnun lána er beitt í þeim tilgangi að gera sem flestum kleift að standa undir greiðslubyrði lána sinna. Hins vegar voru kynntar til sögunnar sértækar aðgerðir sem er ætlað að mæta vanda þeirra einstaklinga og heimila sem þurfa á mestri aðstoð að halda. Fela þær aðgerðir annars vegar í sér víðtækari greiðslujöfnun en greint er frá hér að ofan, sértæka skuldaaðlögun fjármálastofnana og endurbætta opinbera greiðsluaðlögun.
Verður ekki annað séð en þær aðgerðir sem boðaðar eru séu skynsamleg lausn á erfiðu viðfangsefni. Þrátt fyrir ýmsa kosti við almenna niðurskrift skulda er nokkuð ljóst að slík aðgerð gæti reynst kostnaðarsöm fyrir ríkissjóð sem má illa við frekari búsifjum. Þessari leið er helst hægt að finna það til vansa að einstaklingum gæti reynst erfitt að verðmeta slík skuldabréf við fasteignasölu og því ekki ljóst hvort mögulegt sé fyrir mjög skuldsett heimili að selja eignir sínar. Eins er fyrirsjáanleikinn ekki mikill þar sem einhliða breytingar gætu verið gerðar á fyrirkomulagi endurgreiðslu nema ný skuldabréf verði gefin út.
Nú þegar kynntar hafa verið leiðir fyrir heimili í skuldavanda er við hæfi að gengið verði í almennar aðgerðir til handa íslenskum fyrirtækjum. Í þessu felst að tekið verði á skuldavanda fyrirtækja með markvissari hætti en hingað til þar sem samkvæmni, festa og heiðarleiki verður haft að leiðarljósi. Mörg þeirra fyrirtækja sem nú standa illa eru mun frekar fórnarlömb ytri aðstæðna en óskynsemi í rekstri, rétt eins og heimilin í landinu. Því ber að halda til haga og leita í þeim tilfellum leiða til að koma til móts við stjórnendur og eigendur þeirra við endurskipulagningu skulda. Ávinningur þess að virkja atvinnulífið á nýjan leik er slíkur að ekki má við frekari töfum.
Kynningarefni félagsmálaráðuneytisins má nálgast
hér.