Viðskiptaráð Íslands

Orkuskattar eða tryggingagjald?

Í tengslum við nýsamþykkta kjarasamninga lögðu aðilar vinnumarkaðarins ríka áhersla á að stjórnvöld endurskoðuðu áætlanir sínar um svokallaðan orkuskatt, en gert er ráð fyrir 16 ma.kr. tekjuöflun með nýjum sköttum tengdum umhverfis-, orku og auðlindagjöldum. Sem mögulega lausn í málinu var rætt um hækkun á tryggingagjaldi atvinnurekenda sem skilað gæti samsvarandi upphæð.

Viðskiptaráð Íslands tekur undir áhyggjur aðila vinnumarkaðarins vegna væntanlegra neikvæðra áhrifa af nýjum orkusköttum. Auk þess sem vegið yrði að rekstrarforsendum ýmissa fyrirtækja sem starfa hérlendis – ekki eingöngu í stóriðju – myndi skattur af þessu tagi einnig vega að frekari fjárfestingum í orkufrekum iðnaði hérlendis, bæði í núverandi verkefnum og nýjum.

Það er aftur á móti óskynsamlegt að nálgast málið með þeim hætti að eina leiðin til að afla þeirra 16 ma.kr. sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu sé með skattlagningu annars staðar í hagkerfinu. Við ákvarðanir um leiðir til tekjuöflunar er nauðsynlegt að stjórnvöld taki mið af líklegum hliðarverkunum og langtímaáhrifum. Það má vel hugsast að veruleg hækkun tryggingagjalds, orkuskattur á fyrirtæki eða önnur skattheimta á atvinnulífið hljómi sem sanngjarnar leiðir til að auka tekjur hins opinbera. Raunveruleikinn er þó sá að væntar skatttekjur af þessum breytingum eru rýrar auk þess sem þær leiða til verri samkeppnisstöðu íslenskrar framleiðslu og lakara umhverfis til erlendrar fjárfestingar hérlendis. Hvort tveggja kemur niður á lífskjörum þjóðarinnar og er ekki líklegt til að auka tekjur hins opinbera til lengri tíma.

Í stað þess að einblína á tekjuöflun með hærri skattprósentum og nýjum sköttum ættu stjórnvöld að leggja áherslu á að að rækta rekstrarumhverfi fyrirtækja og breikka þannig skattstofna. Samhliða þessu ættu stjórnvöld að fara að fordæmi fyrirtækja og heimila sem hafa neyðst til hagræða verulega á síðustu mánuðum eins og glöggt má sjá á helstu hagvísum.

Viðskiptaráð er mótfallið frekari hækkun tryggingagjalds enda leggjast slík gjöld þungt á mannaflsfreka starfsemi. Svarið við spurningunni hvort leggja eigi á orkuskatta eða hækka tryggingagjald er því að hvorugt ætti að gera. Sjálfbærni í ríkisfjármálum næst með aukinni skilvirkni í ríkisrekstri, minni sóun og breikkun þeirra skattstofna sem treyst hefur verið á.

Tengt efni

Björn og Andri í stjórn og háskólaráð HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024