Viðskiptaráð Íslands

Ummæli formanns LSR ekki á rökum reist

Vegna ummæla formanns Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins um hugmyndir Viðskiptaráðs um jöfnun lífeyrisréttinda opinberra og almennra starfsmanna telur ráðið rétt að koma eftirfarandi á framfæri.

Viðskiptaráð lagði til í tillögum sínum að Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins væri lagður niður í núverandi mynd og eignir hans nýttar til að greiða niður skuldir ríkissjóðs. Ekki var tiltekið sérstaklega hvaða skuldir fjármunirnir skyldu nýttir til að greiða, en því miður er úr nægum möguleikum að velja.

Sérstök ástæða er til að undirstrika að Viðskiptaráð tók sérstaklega fram í hugmyndum sínum að áunnin réttindi opinberra starfsmanna myndu að sjálfsögðu standa og ríkissjóður yrði að standa skil á þeim greiðslum að fullu. Engu að síður taldi ráðið rétt, í ljósi núverandi aðstæðna í ríkisfjármálum, að afnema þau umframréttindi sem opinberir starfsmenn njóta í lífeyrismálum sem allra fyrst enda ljóst að kostnaður ríkissjóðs vegna þeirra er verulegur. Í kjölfar þess myndu opinberir starfsmenn velja sér lífeyrissjóð eins og almennt gerist og lífeyrisréttindi þeirra ráðast af frammistöðu viðkomandi sjóðs.

Það er einföld ástæða fyrir því að Viðskiptaráð telur rétt að LSR verði lagður niður og fjármunir hans nýttir til að greiða skuldir ríkissjóðs. Almenn lífeyrissréttindi opinberra starfsmanna eru óháð frammistöðu sjóðanna og því má segja að um sé að ræða einskonar sparibauk fyrir ríkissjóð fremur en eiginlegan lífeyrissjóð. Þannig hefur slæleg ávöxtun LSR engin áhrif á áunnin réttindi sjóðfélaga líkt og gengur og gerist í almenna lífeyriskerfinu. Þegar fjármunir tapast innan sjóðsins líkt og gerðist í verulegum mæli á síðasta ári fellur sá kostnaður beint á skattborgara í formi hærri lífeyrisskuldbindinga ríkissjóðsins. Sparibaukur sem lekur er því varla góð hirsla fyrir fjármuni ríkisins.

Árið 2008 hækkuðu lífeyrisskuldbindingar ríkissjóðs úr 230,6 milljörðum króna í 342,9 milljarða króna. Sem hlutfall af landsframleiðslu hækkuðu skuldbindingarnar úr 17,7% í 23,4% og er skuldaaukning ríkissjóðs af þessum sökum því 6% af vergri landsframleiðslu. Það er því langt í land fyrir almennan vinnumarkað að ná að greiða upp skuldbindingar lífeyrisréttinda opinberra starfsmanna að fullu. Frá árinu 2000 hafa að meðaltali verið gjaldfærðir 19 milljarðar á ári í rekstri ríkissjóðs vegna lífeyrisskuldbindinga opinberra starfsmanna og nam heildargreiðslan 41,5 milljörðum króna árið 2008.

Frá árinu 1997 þegar A-deild sjóðsins var stofnuð hefur raunávöxtun sjóðsins einungis numið 2%. Á sama tíma hefur raunkrafa á ríkissjóð verið nær 5% og því ljóst að um neikvæðan vaxtamun er að ræða. Lífeyrisskuldbindingar ríkissjóðs eru því hærri en þær væru án starfsrækslu sjóðsins. Til viðbótar má nefna að skrifstofu- og stjórnunarkostnaður sjóðsins árið 2008 nam tæplega 500 milljónum króna, en þar starfa um 40 manns.

Það eru því málefnalegar ástæður fyrir tillögum Viðskiptaráðs. Sú mismunun sem ríkir í lífeyriskjörum opinberra starfsmanna samanborið við starfsfólk almenna vinnumarkaðarins er með öllu óviðunandi. Í ljósi þess að skuldbindingar ríkissjóðs eru festar í lög telur Viðskiptaráð ríkið vera í fullum rétti til að ákvarða það hvernig best sé að standa skil á slíkum skuldbindingum. Samlíking formanns LSR um að hugmyndin líkist bankaráni er ekki til þess fallin að dýpka umræðuna og afar ómálefnaleg. Við núverandi aðstæður í ríkisfjármálum er nauðsynlegt að fjármunum ríkissjóðs sé ráðstafað með eins skynsamlegum hætti og unnt er. Skuldsett eignastýring hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins fellur að mati Viðskiptaráðs ekki undir þann flokk.

Tengt efni

Björn Brynjúlfur í stjórn HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024