Viðskiptaráð Íslands

Mennta- og menningarmálaráðherra afhendir námsstyrki Viðskiptaráðs

Á árlegu Viðskiptaþingi, sem nú fer fram á Hilton Reykjavík Nordica, afhenti Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra námsstyrki Viðskiptaráðs Íslands. Félagar Viðskiptaráðs í upplýsingatæknigeira veittu einnig námsstyrki úr sérstökum námssjóði ráðsins um upplýsingatækni. Í meira en 90 ár hefur Viðskiptaráð Íslands tekið þátt í uppbyggingu íslensks menntakerfis með áherslu á hagnýta menntun á sviðum atvinnulífs.

Styrkirnir eru veittir námsmönnum í framhaldsnámi á háskólastigi erlendis í greinum sem tengjast atvinnulífinu með beinum hætti, en í ár eru styrkirnir fjórir og er hver þeirra að fjárhæð kr. 300.000-.

Framkvæmdastjórn Viðskiptaráðs valdi tvo umsækjendur, en framkvæmdastjórnina skipa Tómas Már Sigurðsson, Katrín Pétursdóttir, Halla Tómasdóttir, Kristín Jóhannesdóttir, Knútur G. Hauksson og Guðmundur Kristjánsson. Ráðgjafanefnd námssjóðs um upplýsingatækni, skipuð þeim Gunnari Guðjónssyni, Magnúsi Steinarr Norðdahl og Þórði Sverrissyni, réði vali við styrkveitingu á sviði upplýsingatækni.

Þetta árið voru umsóknir fleiri en í meðalári og var það mat dómnefndar að í hópi umsækjenda væru margir öflugir námsmenn. Margir umsækjanda hefðu því verið vel að þessum styrkjum komnir. Það varð þó niðurstaðan að styrkina myndu hljóta í ár þau Arnar Birgisson doktorsnemi í tölvunarfræði við Chalmers Tækniháskólann í Gautaborg, Hrefna Lind Ásgeirsdóttir meistaranemi í stafrænni hönnun við Háskólann í Edinborg, Linda Rós Birgisdóttir meistaranemi í heilbrigðisverkfræði við Imperial College í London og Victor Knútur Victorsson doktorsnemi í byggingarverk- og jarðskjálftaverkfræði við Stanford University í Bandaríkjunum. Arnar og Hrefna hljóta bæði styrkinn sem kenndur er við upplýsingatækni.

Nánari upplýsingar um styrkþega: 

Arnar Birgisson er fæddur árið 1981 og stundar doktorsnám í tölvunarfræði við Chalmers Tækniháskólann í Gautaborg. Hann er stúdent frá Verslunarskóla Íslands, útskrifaðist með B.Sc. gráðu í stærðfræði frá Háskóla Íslands og M.Sc. gráðu í tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Arnar var fenginn af Chalmers í doktorsnám þar sem hann er að skoða öryggi í hugbúnaðargerð. Þá hefur Arnar samhliða námi sínu aðstoðað við kennslu í Chalmers og eftir hann hafa verið birtar þó nokkrar greinar í ritrýndum tímaritum.

Hrefna Lind Ásgeirsdóttir er fædd árið 1982 og stundar meistaranám stafrænni hönnun við Háskólann í Edinborg. Hún er stúdent frá Kvennaskólanum í Reykjavík og útskrifaðist, fyrst kvenna, með B.Sc. gráðu í hugbúnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands. Þá hefur Hrefna einnig lokið við nám í löggiltri verðbréfamiðlun. Í námi sínu við Edinborgarháskólann hefur Hrefna m.a. lagt áherslu á þrívíddarhönnun, hönnun hreyfimynda og gagnvirkra kerfa. Hrefna ætlar að loknu námi að leggja lóð sínar á vogarskálar þess að fjölga konum í tæknigeiranum hérlendis.

Linda Rós Birgisdóttir er fædd árið 1985 og stundar meistaranám í heilbrigðisverkfræði við Imperial College í London. Linda er stúdent frá Menntaskólanum í Kópavogi en hún úrskrifaðist með B.Sc. gráðu í heilbrigðisverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík, í fyrsta útskriftarhópi þess náms. Í Imperial College er Linda að skoða breytingar á líkamsbeitingu vegna öldrunar eða sjúkdóma, með sérstaka áherslu á hné og neðri hluti fótleggja, og lausnir heilbrigðisverkfræðinnar þar á. Að námi loknu hyggst Linda snúa heim og nýta nám sitt til að styðja við frekari framþróun þessa sviðs hérlendis.

Victor Knútur Victorsson er fæddur árið 1981 og stundar doktorsnám í byggingarverkfræði - og jarðskjálftaverkfræði við Stanford University í Bandaríkjunum. Victor er stúdent frá Verslunarskóla Íslands. Hann útskrifaðist með B.Sc. gráðu í byggingarverkfræði frá Duke University í Norður Karólínu.Hann lauk M.Sc námi í byggingarverkfræði frá Stanford University. Hluti af rannsóknarverkefni Victors við Stanford snýr að greiningu og hermun á stálvirkjum undir jarðskjálftaálagi, en niðurstöðurnar á að nýta við hönnun og greiningu mannvirkja til að tryggja hagkvæmni og öryggi þeirra og jafnframt til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda af hálfu mannvirkja. Að námi loknu hefur Victor hug á að starfa hérlendis og nýta menntun sína í þágu öryggis og umhverfis.

Tengt efni

Björn og Andri í stjórn og háskólaráð HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024