Á árlegu Viðskiptaþingi Viðskiptaráðs, sem fer nú fram á Reykjavík Hilton Nordica, afhenti Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, námsstyrki Viðskiptaráðs. Af því tilefni sagði Katrín fulla ástæðu til bjartsýni á Íslandi og að það væri einkenni Íslendinga að takast á við vanda af bjartsýni. Að hennar mati væri líka gaman að sjá raunverulegan áhuga atvinnulífsins á að efla skólakerfið.
Síðustu 95 ár, eða frá stofnun Viðskiptaráðs Íslands, hefur ráðið stutt við og tekið þátt í uppbyggingu menntunar á Íslandi. Lítur Viðskiptaráð raunar svo á að stuðningur þess við menntun sé mikilvægasta framlag ráðsins til atvinnulífs, en um leið til samfélagsins í heild. Hluti af þeim stuðningi er árleg veiting námsstyrkja úr námssjóðum ráðsins á Viðskiptaþingi, sem löng hefð er fyrir. Félagar Viðskiptaráðs í upplýsingatæknigeira veita einnig námsstyrki úr sérstökum námssjóði ráðsins um upplýsingatækni. Styrkirnir eru veittir námsmönnum í framhaldsnámi erlendis á háskólastigi í greinum sem tengjast atvinnulífinu. Síðarnefndu styrkirnir eru sérstaklega ætlaðir námsmönnum á sviði upplýsingatækni. Styrkirnir voru fjórir að þessu sinni og var hver þeirra að fjárhæð kr. 400.000.-.
Hátt á fjórða tug umsókna bárust þetta árið og hefðu margir umsækjendur verið vel að þessum styrkjum komnir. Það varð þó niðurstaðan að styrkina hljóta í ár þau:
Guðjón og Hörður hlutu styrkinn sem kenndur er við upplýsingatækni.
Viðskiptaráð óskar þeim öllum til hamingju með styrkina og áframhaldandi velfarnaðar í námi og lífi.