Viðskiptaráð Íslands

Nýjar tillögur starfshóps gegn gullhúðun

Tillögur starfshóps miða að því að auka gæði lagasetningar við innleiðingu EES-gerða til að forðast gullhúðun sem kemur niður á samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja á innri markaði EES. Tillögurnar byggja á niðurstöðu starfshóps sem utanríkisráðherra skipaði til að skoða aðgerðir gegn gullhúðun EES-gerða.

Í starfshópnum sátu Margrét Einarsdóttir prófessor við lagadeild HR, Brynjar Níelsson fyrrverandi alþingismaður og formaður starfhópsins, og María Guðjónsdóttir lögfræðingur Viðskiptaráðs. Þau er hér ásamt Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra.

Utanríkisráðherra kynnti tillögur að aðgerðum gegn gullhúðun á fundi í Þjóðminjasafninu á þriðjudag. Þær eru miða að því að auka gæði lagasetningar við innleiðingu EES-gerða til að forðast gullhúðun sem kemur niður á samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja á innri markaði EES. Tillögurnar byggja á niðurstöðu starfshóps sem utanríkisráðherra skipaði til að skoða aðgerðir gegn gullhúðun EES-gerða.

Nú mun ég leggja til við ríkisstjórn að unnið verði að úrbótum á grundvelli niðurstöðu starfshópsins og ég geri ráð fyrir að áhrifanna fari að gæta þegar á næsta löggjafarþingi,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.

Helstu aðgerðir gegn gullhúðun eru eftirfarandi:

  1. Í lagasetningaferlinu verði gerði skýr krafa um lýsingu á innleiðingu, hvort tilskipun veiti svigrúm við innleiðingu og hvernig vikið er frá lágmarkskröfum hennar. Frávik verði rökstudd sérstaklega og mat lagt á áhrif þess að ganga lengra.
  2. Í greinargerð með stjórnarfrumvörpum við innleiðingu á EES-gerðum verði nýr kafli þar sem greint er frá með skýrum og aðgengilegum hætti hvort ætlunin er að beita gullhúðun og/eða víkja frá meginreglunni um hrein innleiðingarfrumvörp.
  3. Samanburðartöflur (e. table of correspondence) verði unnar samhliða frumvarpssmíði og opinberar.
  4. Við birtingu stjórnvaldsfyrirmæla sé getið með skýrum hætti ef stjórnvöldum er veitt svigrúm við innleiðingu og hvernig það svigrúm er nýtt.
  5. Hvert ráðuneyti leggi mat á umsvif gullhúðunar á sínum málefnasviði og taki afstöðu hvort ástæða sé til að endurskoða slík tilvik hvert fyrir sig.

María Guðjónsdóttir, lögfræðingur Viðskiptaráðs, flutti erindi á fundinum um áhrif og kostnað gullhúðunar á atvinnulífið. Þar sagði hún meðal annars: „Tillögur utanríkisráðherra eru til þess fallnar að draga úr hættunni að hún eigi sér stað en svo tillögurnar nái markmiðum sínum er hér eftir sem endranær nauðsynlegt að þeim fylgi pólitískur stuðningur, eftirfylgni og aðhald. Samkeppnishæfni Íslands er eitt mikilvægasta viðfangsefni okkar og það er leitun að einfaldari og ódýrari leið til að auka hana en að einfaldlega hætta að þyngja innflutt regluverk með meintu gulli.“

Tengt efni

Björn og Andri í stjórn og háskólaráð HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024