Viðskiptaráð Íslands

Afnám tolla sparar meðalheimili 30 þúsund kr. á ári

Viðskiptaráð fagnar áformum fjármála- og efnahagsráðherra um að afnema alla tolla aðra en matartolla fyrir árið 2017. Í aðgerðunum felst skattalækkun sem leiðir til lægra vöruverðs og aukins kaupmáttar. Samkvæmt áætlun ráðsins munu breytingarnar draga úr útgjöldum meðalheimilis um 30 þúsund krónur á ári.1 

Viðskiptaráð benti nýlega á stórauknar skatttekjur ríkissjóðs en þær hækkuðu um 59 ma. kr. árið 2014.2 Það er því fagnaðarefni að stjórnvöld skili hluta þessara viðbótartekna til baka í formi skattalækkana sem leiða bæði til aukinnar samkeppni og lægra vöruverðs.

Neytendur njóta lægri verða og fjölbreyttara vöruúrvals
Nú þegar hefur ráðherra boðað afnám tolla á fatnað og skó um næstu áramót. Neysluskattar munu lækka um um 1,8 ma. kr. vegna þeirra aðgerða. Ávinningurinn af niðurfellingunni er tvíþættur. Annars vegar munu neytendur njóta lægri verða en áður. Samkvæmt áætlun Viðskiptaráðs mun verð á fatnaði og skóm hérlendis lækka um 13% við afnám tolla.3 Hins vegar munu umsvif innlendrar verslunar aukast vegna samkeppnishæfara verðlags í alþjóðlegum samanburði. Það skilar neytendum frekari ávinningi í formi aukinnar samkeppni og fjölbreyttara vöruúrvals.

Skattalækkanir skilað sér að fullu til neytenda
Nýlega birti Viðskiptaráð greiningu á áhrifum afnáms vörugjalda á verðlag.4 Þar kom fram að verð á sjónvörpum og útvörpum lækkaði um 19% í kjölfar breytingarinnar. Jafnframt lækkaði álagning verslana lítillega í kjölfar breytinganna. Afnám vörugjalda skilaði sér því að fullu til neytenda og gott betur.

Reynslan af afnámi vörugjalda er vísbending um jákvæð áhrif skattalækkana á samkeppni. Þegar vöruverð lækkar eykst velta með viðkomandi vörur á móti. Verslanir þurfa því að leggja minna á hverja vöru til að skila óbreyttum hagnaði. Af þessu að áætla að afnám tolla muni skila sér að fullu til neytenda í formi lægra vöruverðs líkt og raunin var með afnám vörugjalda.

Afnám tolla á matvæli myndi skila enn meiri lækkunum
Viðskiptaráð hvetur stjórnvöld til að afnema jafnframt tolla á matvörur og samhliða því umbreyta styrkjafyrirkomulagi landbúnaðarins. Í nýrri skoðun ráðsins, „Hverjar eru okkar ær og kýr?“, kemur fram að tollvernd leiðir til hærra matvælaverðs. Þannig eru tollvernduð matvæli allt að 59% dýrari hérlendis en í öðrum ríkjum. Samkvæmt áætlun ráðsins myndi afnám tolla á matvæli skila meðalheimili um 76 þúsund kr. sparnaði til viðbótar við þær 30 þúsund kr. sem sparast við afnám tolla á aðrar vörur.5 Jákvæð áhrif slíkrar skattalækkunar á lífskjör væru því veruleg.

-

1) Tekjur vegna tolla á aðrar vörur en matvörur námu um 3,7 ma. kr. árið 2014 samkvæmt fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Heimili landsins voru 124 þúsund talsins árið 2013 samkvæmt Hagstofu Íslands. Að meðaltali greiðir hvert heimili því um 30 þúsund kr. í tolla á ári séu matvæli ekki talin með.
2) Sjá nánari umfjöllun í frétt Viðskiptaráðs (júlí 2015): „Skattar hækkuðu um 59 milljarða árið 2014“. Slóð: http://vi.is/malefnastarf/frettir/skattar-haekkudu...
3) Neysluskattar á fatnað voru áður 24% VSK auk 15% tolls, sem jafngildir 42,6% neysluskatti vegna margfeldisáhrifa. Áætlun um lækkun á heildarverði gerir ráð fyrir óbreyttri álagningu og er fengin út með eftirfarandi hætti: 1,24 / (1,24 * 1,15) - 1 = -13%
4) Sjá nánari umfjöllun í frétt Viðskiptaráðs (maí 2015): „Villur hjá verðlagseftirliti ASÍ“. Slóð: http://vi.is/malefnastarf/frettir/villur-hja-verdl...
5) Viðskiptaráð Íslands (apríl 2015): „Hverjar eru okkar ær og kýr? Nauðsynlegar breytingar í íslenskum landbúnaði“. Slóð: http://vi.is/malefnastarf/utgafa/skodanir/aer-og-k...

Tengt efni

Björn og Andri í stjórn og háskólaráð HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024