Viðskiptaráð Íslands

Athugasemdir vegna skrifa Stefáns Ólafssonar

Á undanförnum árum hefur Stefán Ólafsson, prófessor í félagsfræði, birt ýmis skrif um Viðskiptaráð Íslands á bloggsvæði sínu á Eyjunni. Við hjá ráðinu höfum ekki talið tilefni til að að svara þessum skrifum þar sem þau eru sjaldnast málefnaleg og lítið fjallað um þau á öðrum vettvangi.

Nýjasti pistill Stefáns, sem birtist í síðustu viku undir titlinum „Viðskiptaráð á villigötum“, er lýsandi dæmi fyrir umrædd skrif. Þar er fjallað um nýútgefna skoðun Viðskiptaráðs, Sníðum stakk eftir vexti, en í henni leggur ráðið fram 30 tillögur að fækkun stofnana á Íslandi. Líkt og í fyrri pistlum Stefáns um Viðskiptaráð má þar finna margar rangfærslur og illa ígrundaðar upphrópanir. Þar sem ákveðin efnisatriði í pistli Stefáns hafa ratað víðar í umræðunni teljum við rétt að koma nokkrum athugasemdum á framfæri:

  • Í pistil sínum segir Stefán Viðskiptaráð „falla á prófinu í barnslegum ákafa sínum“ vegna fullyrðinga ráðsins um að hlutfallslegur kostnaður örríkja af rekstri stofnanakerfis sé hærri en fjölmennari ríkja. Máli sínu til stuðnings bendir Stefán á að útgjöld hins opinbera sem hlutfall af landsframleiðslu séu lægri hér en í ýmsum fjölmennari löndum. Þetta er eins nálægt rökstuðningi og Stefán kemst í pistli sínum. Þarna er engu að síður – viljandi eða óviljandi – verið að blanda saman tveimur ólíkum mælikvörðum. Heildarútgjöld hins opinbera segja ekkert um hve hátt hlutfall útgjaldanna fer í rekstur stofnanakerfisins. Skoðunin fjallar ekki um hvert heildarumfang opinberrar þjónustu eigi að vera, heldur hvernig einfalda megi stofnakerfið til að nýta fjármagn betur og bæta þjónustu.
  • Þá fullyrðir Stefán í pistlinum að sameining stofnana muni þýða gríðarlega fækkun sérhæfðra starfa. Sameining stofnana leiðir til þess að hlutfallslega minna fjármagn fer í stoðþjónustu (ósérhæfða starfsemi) og meira fjármagn í kjarnaþjónustu (sérhæfða starfsemi). Það er því erfitt að sjá hvernig sameiningar ættu að fækka sérhæfðum störfum. Þvert á móti myndi hlutfall sérhæfðra starfa aukast.
  • Að lokum segir Stefán Viðskiptaráð „vilja skera lýðræðið við trog”, líta á opinber söfn sem „menningardrasl“ og að ráðið vilji „helst engar barnabætur“. Í öllum tilfellum er um að ræða innstæðulausar upphrópanir sem endurspegla á engan máta afstöðu eða stefnu ráðsins. Að mati undirritaðs er ámælisvert að Stefán birti uppspuna af þessu tagi í skrifum sínum.

Ofangreindar athugasemdir eru ekki tæmandi. Í umræddri skoðun ráðsins er gerð grein fyrir helstu röksemdum fyrir einfaldara stofnanakerfi á aðgengilegan og einfaldan hátt. Það er því erfitt að sjá hvernig unnt er að misskilja efni hennar jafn hrapalega og Stefán gerir.

Við hjá Viðskiptaráði tökum allri málefnalegri gagnrýni fagnandi. Það þjónar hins vegar litlum tilgangi að standa í orðaskaki sem ekki byggir á málefnalegum grunni og því hunsum við almennt pistla af því tagi. Til að taka af öll tvímæli um rangfærslur Stefáns töldum við þó rétt að koma framangreindum athugasemdum á framfæri. Jafnframt hvetur undirritaður Stefán til að vanda skrif sín betur í framtíðinni.

Frosti Ólafsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands.

Tengt efni

Björn og Andri í stjórn og háskólaráð HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024