Andri Þór Guðmundsson, formaður Viðskiptaráðs, flutti opnunarávarp Viðskiptaþings 2025. Þar fjallaði hann um þau forskot sem Íslendingar hafa skapað sér og hvernig megi nýta forskot okkar til framtíðar.
Forsætisráðherra og aðrir góðir gestir
Okkur Íslendingum hefur tekist að skapa samfélag í fremstu röð. Þegar kemur að lífsgæðum og velmegun mælumst við ofarlega á nær öllum mælikvörðun í samanburði við önnur lönd.
En hvað gerir okkur kleift að skara fram úr með þessum hætti? Hvað er það sem gaf okkur þetta forskot og hver verða okkar forskot til framtíðar.
Ísland er auðvitað ríkt af náttúruauðlindum. Við búum yfir gjöfulum fiskimiðum og óþrjótandi orku í formi fallvatns og jarðvarma. Aðrar þjóðir öfunda okkur af þeirri stöðu sem við búum við í þessum efnum.
En það eru ekki bara auðlindirnar sjálfar sem skapa okkur forskot. Fiskurinn í sjónum verður ekki verðmætur fyrr en við höfum veitt hann, verkað, markaðssett og selt til útlanda. Hið sama á við um vatnið sem áður rann óbeislað til sjávar eða hélst falið undir yfirborði jarðar.
Forskotin felast ekki í auðlindunum sjálfum heldur þeim verðmætum sem við sköpum úr þeim. Verðmætasköpun sem byggir á náttúruauðlindum er framtaki Íslendinga á fyrri árum að þakka. Þær framfarir sem við njótum í dag byggja án undantekninga á hugrekki, framtaki og framsýni einstaklinga.
Forskotin sem hafa gert verðmætasköpun mögulega á Íslandi eru þess vegna undirstaða þeirra lífsgæða sem við búum við í dag. Umgjörð samfélagsins, sem er mannanna verk, þarf að vera þannig að hún greiði leið þeirra sem vilja skapa okkur ný og fleiri forskot.
Forskot eru í eðli sínu þannig að erfitt er að koma auga á þau fyrirfram. Það hefur sennilega fáa órað fyrir því ferðaþjónusta yrði ein stærsta útflutningsgrein Íslands örfáum árum eftir bankahrunið. Ennþá færri óraði fyrir því að öflug íslensk fyrirtæki myndu byggjast á afgangsafurðum eins og kísilvatni og fiskroði.
Íslendingar eru nú sem aldrei fyrr að skapa ný forskot með hugviti.
Fleiri og fleiri íslensk fyrirtæki ná árangri á heimsvísu, hvort sem litið er til líftæknihliðstæðulyfja, stoðtækjaþróunar og -framleiðslu eða forritunar eins langlífasta tölvuleiks síðari tíma. Þessi dæmi eiga það sammerkt að forskotin eru bæði margvísleg og ófyrirsjáanleg.
Lífskjör á Íslandi eru mjög góð og í dag erum við á meðal ríkustu þjóða heims. Við eigum það sameiginlegt öðrum velmegunarríkjum að við höfum nýtt forskot okkar vel. En það er ekki náttúrulögmál að þjóðum takist það. Þetta sjáum við hjá þjóðum sem eru ríkar af auðlindum en hafa ekki náð að hagnýta þær til aukinnar hagsældar fyrir íbúa.
Dæmi um þetta er Venesúela, sem á einhverjar stærstu olíulindir í heimi og var eitt af ríkustu löndum Suður-Ameríku á 20. öldinni. Stjórnvöld þar hafa spilað illa úr sínum spilum með þjóðnýtingum, pólitískri spillingu og harðræði gagnvart þegnum sínum. Á sama tíma hafa lönd á borð við Danmörku og Sviss, sem búa yfir litlum náttúruauðlindum, orðið að einum ríkustu þjóðum í heimi. Keppni þjóða um bætt lífskjör snýst enda um hvað þær gera frekar en hvað þær hafa.
Á undanförnum árum hefur Evrópa dregist verulega aftur úr Bandaríkjunum þegar kemur að lífskjörum. Þannig hafa Evruþjóðir einungis aukið landsframleiðslu sína um 6% á undanförnum 15 árum á meðan Bandaríkin hafa vaxið um 80%.
Margir kenna þunglamalegu regluverki um þennan dræma vöxt. Það er því sannleikskorn í því orðatiltæki að Bandaríkin búi til nýjungar, Kína búi til eftirlíkingar og að Evrópa búi til reglugerðir. Á meðan Bandaríkin skjóta á loft eldflaugum með gervitunglum í þúsundatali og Kína smíðar rafmagnsbíla í milljónatali virðist Evrópa hafa verið uppteknari af plasttöppum og papparörum undanfarin ár.
Þetta eru ekki mín orð heldur er framkvæmdastjórn Evrópusambandsins í vaxandi mæli sama sinnis. Niðurstaða frægrar skýrslu Mario Draghi um samkeppnishæfni Evrópu er að evrópsk fyrirtæki mæti hindrunum á hverju þrepi í formi þunglamalegs og takmarkandi regluverks. Afleiðingin sé sú að gróska í evrópsku atvinnulífi er lítil samanborið við Bandaríkin.
Ein skýrasta birtingarmynd þessa er mismunur í fjölda nýrra verðmætra fyrirtækja. Örfá fyrirtæki í Evrópu hafa náð náð 10 milljarða dollara markaðsvirði samanborið við Bandaríkin, þegar horft er til fyrirtækja sem eru yngri en 50 ára. Gróska í evrópsku atvinnulífi er brot af því sem á sér stað vestanhafs. Það leiðir til þess að tekjur Evrópubúa eru lægri, skatttekjur minni og grundvöllur velferðar veikari.
En skaðinn er ekki bara efnahagslegur. Ungt fólk í Evrópu á erfiðara með að finna sér spennandi og krefjandi viðfangsefni í lífinu. Frumkvöðlar finna síður hugmyndum sínum farveg. Og íbúar verða af vörum og þjónustu sem bæta myndu líf þeirra, en hægt er að nálgast í öðrum heimshlutum nú þegar.
Þessi gjá er æpandi þegar kemur að gervigreind. Gervigreind er sú tækni sem vex hraðast í heiminum í dag, og jafnvel sú tækni sem vaxið hefur hraðast í sögu mannkyns. Í Bandaríkjunum eru fyrirtæki leiðandi í að þróa þessa tækni áfram á meðan Evrópusambandið hefur sett umsvifamikið regluverk sem torveldar slíka vinnu. Fyrir vikið eru nær öll gervigreindarfyrirtæki staðsett utan Evrópu. Raunar er regluverkið svo íþyngjandi að gervigreind sem fjöldi manna um allan heim hefur vanist, er enn ekki í boði innan Evrópska efnahagssvæðisins.
Þegar hraðinn er mikill skiptir stefnan enn meira máli. Ef stefnt er í rétta átt kemst maður hraðar á áfangastað, en ef stefnan beinir af leið þá er maður fljótari að villast. Gervigreindin virkar því ekki einungis eins og hraðall þegar kemur að tækniframförum heldur líka þegar kemur að stefnumörkun stjórnvalda. Þjóðir sem torvelda framþróun munu sitja eftir á meðan þær sem taka nýjungum fagnandi munu skapa sér stórkostleg forskot.
Kæru gestir
Verðmætasköpun á sér stað þegar einstaklingum er veitt svigrúm til að hrinda nýjum hugmyndum í framkvæmd. Í því felst að reglustýring stjórnvalda sé einföld og í lágmarki, að gætt sé jafnræðis milli atvinnugreina og að skattheimtu sé stillt í hóf. Efnahagslegt frelsi er því undirstaða bættra lífskjara á Íslandi sem og annars staðar.
Á áttunda og níunda áratug síðustu aldar steig Ísland stór skref í átt að auknu frjálsræði í atvinnumálum með sölu á fjölda ríkisfyrirtækja. Þarna má nefna félög eins og graskögglaverksmiðjur ríkisins, framleiðsludeild ÁTVR, Prentsmiðjan Gutenberg, Ríkisskip og Ferðaskrifstofu Íslands, svo eitthvað sé nefnt. Þegar Albert Guðmundsson, fjármálaráðherra 83-85, var spurður út í sölu ríkisfyrirtækja sagði hann: „ríkið á ekki að verja skattpeningum almennings í atvinnurekstur, þar sem framtak einkaaðila og samkeppni er næg fyrir.“
Þetta voru orð í tíma töluð.
Um svipað leyti var verðmyndun gefin frjáls í verslun – en það gerðist í sex áföngum á árunum 1984 – 1985. Eftir það heyrðu verðlagsákvæði að mestu sögunni til. Álagning var gefin frjáls í smásölu og heildsölu og afleiðingarnar urðu ekki verðhækkanir heldur lækkanir af því að samkeppni stórjókst.
Í dag þykir okkur sjálfsagt að nota greiðslukort erlendis, að inn- og útflutningur sé óháður leyfisveitingum stjórnvalda, að erlendar lántökur séu heimilar og að erlendur gjaldeyrir til ferðalaga sé frjáls. Það er ekki lengra síðan en 1977 að lög um einkasölu sérstakra mjólkurbúða á mjólkurvörum féllu úr gildi. Hvenær skyldu lög um einkasölu ríkisins á áfengi verða felld úr gildi?
Þetta voru þó allt umdeild baráttumál á sínum tíma sem var langt í frá sjálfsagt að ná í gegn. Við búum náttúrulega enn við það að tollar á sumum vörum eru svo háir að engum dettur í hug að flytja þær inn, t.d. undanrennu- og mjólkurduft. Þetta jafngildir nánast innflutningsbanni. Við erum einnig með tolla á kjöt, franskar kartöflur, opinbera verðstýringu á mjólkurafurðum og svona mætti halda áfram. Er ekki kominn tími til að sýna hugrekki og breyta?
Þessar hugrökku ákvarðanir fyrri stjórnvalda juku efnahagslegt frelsi Íslendinga stórkostlega og leystu atvinnulífið úr fjötrum. Það er framsýni og aðgerðum forvera okkar að þakka að í dag skörum við fram úr sem þjóðfélag og getum staðið undir framúrskarandi velferðarkerfum.
Góðir gestir Viðskiptaþings
Að undanförnu hefur borið meira á umræðu um mikilvægi verðmætasköpunar sem undirstöðu góðra lífskjara. Á sama tíma og við hjá Viðskiptaráði fögnum umræðunni, þá höfum við áhyggjur af því hvort notkun hugtaksins sé rétt.
Sumir telja nefnilega ennþá að meiri ríkisrekstur og miðstýring stuðli að betri lífskjörum. Hér er öllu snúið á hvolf. Einkageirinn leiðir verðmætasköpun og framfarir vegna þess aðhalds sem hann býr við frá viðskiptavinum sínum.
Fyrri hugmyndir um að fela embættismönnum hlutverk atvinnurekenda hafa misheppnast og eru best geymdar í sagnfræðibókum.
Mér verður hugsað til orðatiltækis á dönsku sem ég heyrði eitt sinn: „Når Fanden bestemte at intent skulde ske, så skabte han den förste Komite.“ Það þýðist lauslega yfir á íslensku: „Þegar djöfullinn vildi að ekkert myndi gerast kom hann á fót fyrstu nefndinni.“
En að störfum Viðskiptaráðs.
Eitt af meginhlutverkum Viðskiptaráðs er að vera uppspretta nýrra hugmynda og varpa þannig ljósi á þau svið þar sem Ísland getur skapað sér forskot. Með því að tala fyrir auknu frelsi til athafna samhliða minni opinberum umsvifum vill Viðskiptaráð fyrst og fremst stuðla að bættri umgjörð verðmætasköpunar og þar með aukinni hagsæld hér á landi.
Undanfarið höfum við beint sjónum okkar að fjölbreyttum málaflokkum með þessi gildi að leiðarljósi. Þannig hefur ráðið t.d. fjallað um tollamál, skilvirkni í opinberu eftirliti, tækifæri til að auka frelsi í atvinnumálum, ábatamat opinberra inngripa og hagræðingu í opinberum rekstri. Samhliða höfum við lagt til tillögur að úrbótum í þessum málaflokkum sem allar snúa að því að auka efnahagslegt frelsi og auka þannig hagsæld til lengri tíma litið.
En nóg um það. Í dag höfum við fengið til liðs við okkur úrvalshóp fyrirlesara sem munu fjalla um núverandi og möguleg forskot Íslands og gefa okkur innsýn í hvernig við getum nýtt þau sem best.
Johan Norberg mun fjalla um forskot í alþjóðlegu samhengi og hvernig einstök lönd hafa skapað sér sérstöðu í lífsgæðakapphlaupi þjóðanna.
Ásdís Kristjánsdóttir segir okkur frá hlutverki hins opinbera í þessu samhengi og ræðir hvernig skapa megi forskot í opinberri þjónustu.
Þá mun Róbert Wessman deila sýn sinni á hvernig athafnafrelsi og nýsköpun geta verið drifkraftar framfara og skapað ný forskot sem gera okkur samkeppnishæfari til framtíðar.
Auk Johans, Ásdísar og Róberts mun Kristrún Frostadóttir, forsætisráðherra, ávarpa Viðskiptaþing strax eftir kaffihlé.
Að erindum loknum munu síðan þau Hanna Katrín Friðriksson, atvinnuvegaráðherra, Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins mæta í pallborð til að kryfja efni þingsins og vonandi varpa ljósi á hvar þau sjá forskot Íslands liggja.
Kæru gestir.
Allar þjóðir heims keppast við að byggja upp og styrkja sín forskot. Sum ríki taka forystu með skýrri stefnu um frelsi til athafna og árangurs. Önnur dragast aftur úr vegna ósveigjanleika, regluverks eða vangetu til að grípa tækifærin þegar þau gefast. Ísland verður að tilheyra fyrri hópnum.
Til þess að það gerist þurfum við að tryggja að stjórnvöld skapi fyrirtækjum og frumkvöðlum góð skilyrði til að taka áhættu og skapa ný verðmæti. Þar þarf hugrekki, framtíðarsýn og skýr markmið til að stuðla að langtímaárangri fyrir íslenskt efnahagslíf.
Umræðuefni dagsins er forskot Íslands – þau sem við höfum nýtt til þessa og þau sem við getum skapað í framtíðinni. Saga okkar sýnir að forskot eru ekki gefin, þau eru búin til. Það er á okkar ábyrgð að móta stefnu, umgjörð og markmið. Það erum við sem höfum í höndum okkar hvort við stöðnum eða skjótumst á loft.
Góðar fundarmenn
Fyrsta Viðskiptaþingið var sett árið 1975 eða fyrir sléttum 50 árum. Það er mér því sérstakur heiður að lýsa því yfir að Viðskiptaþing 2025 er nú sett.